Bleik, gul og græn fylling

Fiskréttir geta verið af ýmsu tagi, ekki bara steiktur, soðinn eða ofnbakaður fiskur, þótt ég geri vissulega langmest af því að pönnusteikja alls konar fisk; mér finnst það oftast nær bæði bestra og fljótlegasta aðferðin.

Nú er ég búin að borða og elda fisk og fiskmeti daglega í sextán daga og birta uppskriftir jafnoft (ef þessi er meðtalin) og líklega í tíu tilvikum var fiskurinn steiktur á pönnu, það er að segja ef ég tel fiskibollur og afgangabuff með. Svipað er að segja um uppskriftirnar sem ég hef birt hér, af sextán uppskriftum eru svona tíu þar sem hráefnið er steikt á pönnu en þetta eru samt mjög ólíkar uppskriftir. Já, og fiskmetið er líka misjafnt; uppskriftirnar sem ég hef birt hér hafa innihaldið þorsk, meiri þorsk,  lax, þorsk og lax saman, bleikju, löngu, hörpudisk, rækjur (forsoðnar, tvisvar, og hráar), túnfisk, ýsu, rauðsprettu, saltfisk og karfa. Og nú er röðin komin að reyktum laxi.

Kannski er ekki alveg rétt að kalla þetta fiskrétt – og þó, rétturinn inniheldur allavega fisk og hann er bragðmesta hráefnið. Svo að jújú, hann sleppur alveg. Þetta er léttur réttur, kannski aðeins of sumarlegur fyrir snjóinn úti. En kannski er einmitt þörf á sumarlegum réttum núna … Þetta eru semsagt tortilluvefjur með hrærðu eggi, reyktum laxi og spergli.

_MG_7990

Ég var með 200 g af ferskum spergli. Ókei, þetta er ekki rétti árstíminn fyrir hann en hann fæst nú samt sumstaðar. Og svo má líka geyma uppskriftina til vors, þá ætti að verða meira um hann og hann jafnvel ódýrari … Ég skar bita neðan af spergilstönglunum og sauð sperglana í léttsöltuðu vatni í um 5 mínútur, eða þar til þeir voru orðnir meyrir. Þá hellti ég þeim í sigti og lét kalt vatn buna á þá snöggvast til að stöðva suðuna og kæla þá dálítið.

Svo voru það eggin. Ég braut 4 egg í skál, bætti við 4 msk af mjólk og dálitlum pipar og salti og þeytti þetta mjög vel saman (helst með rafmagnsþeytara, best er að eggin freyði vel). Ég hitaði svo meðalstóra pönnu nokkuð vel og bræddi 50 g af smjöri á henni. Hellti eggjahrærunni á miðjuna.

_MG_7979

Ég lét eggin vera óhreyfð í eina mínútu við meðalhita en fór þá að ýta hrærunni frá börnum inn að miðju með silíkonsleikju (eða spaða) og hallaði pönnunni eftir þörfum svo að fljótandi eggjahræra rynni yfir á auðu blettina.

_MG_7987

Ég hélt þessu áfram þar til mestöll hræran var hlaupin en svolítið þó enn eftir fljótandi. Þá renndi ég henni af pönnunni yfir á disk og lét hana hálfkólna.

_MG_8001

Svo tók ég 250 g af reyktum laxi og skar hann í þunnar sneiðar á ská. Setti fjórar tortillakökur á vinnuborð, raðaði laxasneiðum á miðjuna á hverri þeirra, skar sneið af eggjahrærunni og setti ofan á, síðan nokkra spergla og loks 2-3 dillkvisti.

Vefjur (1)Svo rúllaði ég vefjunum upp og bar þær fram.

 

*

Tortilluvefjur með reyktum laxi, hrærðu eggi, spergli og dilli

200 g ferskur spergill

salt

4 egg

4 msk mjólk

pipar og salt

50 g smjör

250 g reyktur lax

4 tortillakökur

dill

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s