Jú, rækjur eru líka fiskmeti

Ég ákvað, þegar ég byrjaði á fiskbrúarnum mínum þetta árið, að birta líka fiskuppskrift á hverjum degi, sem ég hef ekki gert hin árin – enda á ég dálítið af óbirtum uppskriftum frá fyrri árum sem ég hef verið að setja hér inn í bland við uppskriftir sem ég hef áður birt í blöðum og bókum og nýjar uppskriftir. Ein ástæðan til þess að ég ákvað að gera þetta núna er að mér finnst einfaldlega vanta fleiri uppskriftir á íslensku að einföldum og aðgengilegum fiskréttum á netið.

Íslenskir bloggarar hafa reyndar upp til hópa ekki verið mjög duglegir að birta fiskuppskriftir. Kannski elda þeir lítið af fiski, ég veit það ekki, en önnur ástæða gæti verið sú að ýmsir matarbloggarar hafa tekið eftir því – ég veit þetta m.a. vegna þess að það kom fram í viðtölum sem dóttir mín átti við þá þegar hún skrifaði háskólaritgerð um íslensk matarblogg – að þeir fá gjarna færri heimsóknir þegar þeir birta færslu með fiskuppskrift en ella. Þetta er auðvitað mín reynsla líka, fiskuppskriftir þykja kannski ekki spennandi. Og auðvitað vill fólk sem er að blogga um mat helst fá sem flestar heimsóknir og ég tala nú ekki um ef það hefur einhverjar tekjur af blogginu sínu. Það er bara mjög skiljanlegt.

Mér er hins vegar nokk sama, ég er bara að blogga að gamni mínu (eins og auðvitað flestir matarbloggarar) og fylgist lítið með heimsóknum þótt auðvitað sé gaman að vita af því að fólk skoði uppskriftirnar mínar og noti þær jafnvel. Þannig að ég ætla að dæla hér inn fiskuppskriftum í tæpar tvær vikur í viðbót – það verður þá að hafa það þótt enginn lesi þær og þetta verði heimsóknafæsti mánuður frá upphafi (sem hann verður reyndar alls ekki). En hafið engar áhyggjur, ég á fullt af annars konar uppskriftum og mars verður örugglega frekar blandaður mánuður …

En skelfiskur og þess háttar telst reyndar með í fiskbrúar hjá mér og slíkar uppskriftir eru oft vinsælli en aðrar fiskuppskriftir. Og hér er einmitt ein slík; kryddjurta-hveitikökur með rækju-papriku-basilíkusalati. Ég eldaði ekki einu sinni rækjurnar, þetta eru bara soðnar og pillaðar rækjur. En þær teljast með. Og þetta var ekki svona majónessalat með örfáum rækjum út í.

Ég byrjaði á að taka 250 g af rækjum – frekar stórum, gott ef pokinn var ekki merktur úrvalsrækjur eða lúxusrækjur eða eitthvað, en það er nú ekki svo nauið – setti þær í sigti og lét þær þiðna.

Það er hægt að nota ýmsar tegundir af kryddjurtum, bara eftir smekk og eftir því hvað maður á, eina tegund eða margar saman (eða nota þurrkaðar eða bara sleppa kryddjurtum ef út í það fer). Í þessu tilviki var ég með timjan, basilíku og steinselju. Ég setti þær í matvinnsluvél og lét hana ganga smástund en það má líka saxa þær með hníf. Svo blandaði ég 300 g af hveiti, 100 g af heilhveiti (það má líka nota bara meira hvítt hveiti) 2 1/2 tsk af lyftidufti, 3/4 tsk af salti og 3 msk af olíu saman við og síðan 250 ml af mjólk.

_MG_8242

Ef deigið er of blautt eða of þurrt má bæta við svolitlu hveiti eða mjólk, eftir því sem við á. Svo hnoðaði ég það í kúlu og flatti það svo út í 3-4 mm þykkt. Stakk svo út úr því hringi, um 10 cm í þvermál.

_MG_8245

Síðan hitaði ég þykkbotna pönnu, smurði hana með svolítilli olíu, pikkaði hveitikökurnar með gaffli og steikti/bakaði þær við nokkuð góðan hita í um 2 mínútur á hvorri hlið. Lét þær svo kólna. – Þetta urðu 8 eða 10 kökur alls en auðvitað má hafa þær minni eða stærri eftir hentugleikum.

_MG_8251

Þá var komið að salatinu. Ég hrærði saman 100 g af grískri jógúrt (mætti líka nota sýrðan rjóma, 18%), 2 msk af ólífuolíu, 1/2 tsk af paprikudufti, pipar og salti. Svo tók ég 1/2 rauða og 1/2 appelsínugula (eða gula) papriku, fræhreinsaði þær og skar í litla teninga. Saxaði svo lófafylli af basilíkublöðum smátt og blandaði papriku og basilíku saman við jógúrtina.

Að lokum blandaði ég rækjunum saman við, smakkaði og bragðbætti með aðeins meiri pipar og salti.

_MG_8280

Svo hrúgaði ég salati á hveitiköku og bar fram.

*

Kryddjurta-hveitikökur með rækju-papriku-basilíkusalati

lófafylli af kryddjurtum, t.d. timjan, basilíka, rósmarín og/eða steinselja

300 g hveiti

100 g heilhveiti (eða meira hveiti)

2 1/2 tsk lyftiduft

3/4 tsk salt

3 msk olía, og meira til steikingar

250 ml mjólk

*

Rækju-papriku-basilíkusalat

250 g rækjur

1/2 rauð og 1/2 gul eða appelsínugul paprika

100 g grísk jógúrt

2 msk ólífuolía

1/2 tsk paprikuduft

pipar og salt

lófafylli af basilíkublöðum

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s