Lummustafli

Það er nú ekkert sérstakt sumarveður kannski en ég er samt í sumarskapi. Það er að segja þegar ég er i eldhúsinu. Flestir aðrir en ég virðast vera í sumarfríi og gjarna á ferðalagi úti á landi og eru alltaf að birta myndir og frásagnir af einhverjum góðum mat sem fólk er að fá á stöðum þar sem manni finnst að fyrir fáeinum árum hafi varla verið hægt að fá annað en pylsur og hamborgara – ef þá bara nokkurn skapaðan hlut. Sem er auðvitað frábært. En ég er ekki á neinu ferðalagi og ef ég vil fá eitthvað gott verð ég bara að útbúa það sjálf. Sem er svosem enginn vandi og þess vegna er ég búin að elda mér þríréttaða máltíð tvo daga í röð. Og geri kannski næstu daga líka ef ég er í stuði til þess.

Í kvöld steikti ég mér til dæmis kotasælulummur og hafði með þeim hráskinku og baunasprettur. Það er náttúrlega hægt að hafa næstum hvaða álegg sem er en þetta var það sem ég átti til. Og það var ekkert slæmt. Og svo steikti ég risahörpuskelfisk og bakaði ávexti til að hafa í eftirmat.

Þetta var allt saman alveg ljómandi gott og tók sig sérlega vel út. Og ég fékk tækifæri til að nota spretturnar sem ég á í ísskápnum, þær puntuðu matinn nú töluvert. Og bættu bragðið líka, auðvitað.

En það voru lummurnar. Bráðhollar auðvitað, kotasæla og egg og sprettur og ólífuolía … Ég notaði hveiti en það má nota t.d. bókhveiti eða kjúklingabaunamjöl (gram) fyrir þá sem eru glútenlausir. Líklega maísmjöl líka. Ég er þó ekki viss með magnið, maður verður þá bara að prófa sig áfram. Skammturinn er fyrir tvo, eða fyrir einn og kappnóg í nestið á morgun.

_MG_7400

Ég byrjaði á að brjóta tvö egg og setja í matvinnsluvélina. Svo bætti ég við 200 g af kotasælu, 2 msk af ólífuolíu, einum grófsöxuðum hvítlauksgeira, einum söxuðum vorlauk, lófafylli af baunasprettum (það má líka nota einhverjar kryddjurtir og þá kannski heldur minna af þeim, eða sleppa bara), pipar og salti. Maukaði þetta vel saman. Svo skóf ég niður hliðarnar á skálinni með sleikju, bætti við svona 60 g af hveiti og 1/4 tsk af lyftidufti og lét vélina ganga áfram þar til soppan var alveg slétt. Hún á að vera þykkfljótandi, ef hún er of þunn má bætta við ögn af hveiti (og svolítilli mjólk eða vatni ef hún er svo þykk að hún flýtur ekki út).

_MG_7401

Svo hitaði ég dálitla olíu – 1-2 msk – á pönnu, setti soppuklessur á pönnuna (svona 3 msk hverja, ég nota sósuausu og dreifði aðeins úr soppunni með ausubakinu). Steikti lummurnar við meðalhita í svona 2 mínútur á hvorri hlið. Í tvennu lagi, þetta urðu 8 lummur.

_MG_7439

Svo er bara að stafla upp 3-4 lummum og setja hráskinku og fáeinara fagurgrænar baunasprettur á milli laga. Skinka, sprettur og kúfuð teskeið af kotasælu ofan á og svartur pipar malaður yfir.

Auðvitað þarf ekkert að stafla lummunum, það er hægt að setja álegg á hverja fyrir sig og bera þær fram stakar. Mér fannst þær samt betri svona. Og fallegri, það skiptir máli líka.

Kotasælulummur með hráskinku og baunasprettum

2 egg

200 g kotasæla

2 msk ólífuolía

1 hvítlauksgeiri

1 vorlaukur, saxaður

lófafylli af baunasprettum

nýmalaður pipar

salt

60 g hveiti

¼ tsk lyftiduft

olía til steikingar

Ofan á/ á milli:

hráskinka

baunasprettur

kotasæla

nýmalaður pipar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s