Lambahakk (fyrst ég átti ekki geitahakk)

Ég er búin að vera í svo miklu skapi fyrir litríkan mat þessa vikuna því að litir skipta vissulega máli, bæði fyrir lundina og lystina. Ekki veitir nú af á þessu skrítna ári 2020, sem verður þó þrátt fyrir allt alls ekki alslæmt.

Og af því að það er föstudagur og ég átti lambahakk sem ég þurfti að nota (meira um það á eftir) steikti ég mér þykkan og mikinn lambaborgara og hafði stjúpu- og sprettusalat með honum og gerði svo eins manns jarðarberjaböku á eftir og drakk hvítvínsglas með.

Sumar á svölunum, jájá. Kannski verður þokkalegt veður um helgina. Nema maður sé fyrir norðan auðvitað.

En ég eldaði kjötbollur fyrr í vikunni. Reyndar líka um síðustu helgi, þá var ég með matarboð með indónesísku þema og einn af forréttunum var lambakjötsbollur að indónesískum hætti, veit svosem ekki hvort Indónesar myndu kannast við þær en uppskriftin var (að mestu) úr indónesískri bók. Sennilega upphaflega geitakjötsbollur samt. Rétt eins og rendangið sem var í aðalrétt var gert eftir uppskrift þar sem upphaflega hafði verið notað kjöt af vatnabufflum en uppskriftin sagði samt bara nautakjöt. Enda lítið um bufflakjöt í Krónunni og ég notaði osso buco. Það var fínt.

En það var til lambahakk þar – eins og oftast þessa dagana, sem ég er afskaplega þakklát fyrir því að lambahakk er alveg hreint ágætt í marga rétti. Það er selt í 500 g pökkum og ég keypti tvo, notaði annan í matarboðinu en svo þegar ég ákvað að gera bollur skipti ég hinum í tvennt og geymdi (í tvo daga – þess vegna var lambaborgari í kvöld). Hakkið er um 15% feitt, sem er bara akkúrat passlegt fyrir bollur, borgara og annað slíkt – ef fituprósentan er mikið lægri en það er hætt við að útkoman verði þurr og bragðlítil. En svo má auðvitað líka nota nautahakk. Ekki magurt samt.

_MG_7565

Ég setti semsagt 250 g af lambahakki í skál, ásamt einum pressuðum hvítlauksgeira, einum smátt skornum vorlauk, einni teskeið af garam masala (eða eftir smekk; ég notaði heimagerða blöndu en það má auðvitað nota hvaða garam masala-blöndu sem er), 1/2 tsk af rauðu karrímauki, 2-3 tsk af söxuðum kóríandersprettum af því að ég átti þær til, annars bara kóríanderlaufi, pipar, salti og einni eggjarauðu. Blandaði þessu öllu vel saman. Svo setti ég 4 msk af pankoraspi út í (má nota þurra brauðmylsnu), hnoðaði þetta saman og bjó til hnöttóttar bollur. Hjá mér urðu þetta átta bollur.

_MG_7570

Svo hitaðí ég svona 2 msk af olíu á pönnu og steikti bollurnar við meðalhita í svona 7-8 mínútur, eða þar til þær voru vel brúnaðar á öllum hliðum; sneri þeim og velti oft á meðan. Þá hellti ég hálfri dós af kókosmjólk á pönnuna, bætti við 125 ml af tómatpassata eða maukuðum niðursoðnum tómötum og 1/2 tsk af rauðu karrímauki, hrærði vel og lét bollurnar malla í þessu í 7-8 mínútur. Hrærði öðru hverju og jós sósu yfir bollurnar. Svo smakkaði ég og bætti við pipar og salti.

_MG_7606

Á meðan bollurnar mölluðu í sósunni skar ég niður þrjár litlar paprikur (má líka nota eina stærri, eða bita af þremur mismunandi litum paprikum). Ég dreifði klettasalati í hring á disk (hafði eyðu í miðjunni og dreifði paprikunum yfir það. Þegar bollurnar voru tilbúnar setti ég þær í miðjuna (ekki allar, skildi eftir í nesti fyrir morgundaginn), hellti sósu yfir og stráði svo kóríandersprettum yfir allt saman. (Nú, eða kóríanderlaufi.)

Jújú, þetta var bærilega litríkur matur.

Indónesískar lambabollur

250 g lambahakk

1 hvítlauksgeiri

1 vorlaukur

1 tsk garam masala

2-3 msk saxaðar kóríandersprettur eða kóríanderlauf

1/2 tsk rautt karrímauk

pipar og salt

1 eggjarauða

4 msk pankorasp

2 msk olía

Sósa:

1/2 dós kókosmjólk

125 ml tómatmauk (passata)

1/2 tsk karrímauk

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s