Spurningar

Ef þið eruð með einhverjar spurningar sem kannski tengjast ekki beint einstökum uppskriftum má setja þær inn hér og ég reyni þá að svara þeim ef ég get.

Auglýsingar

118 comments

 1. Sæl, er að skoða uppskrift að forrétti (Hangikjötssalat með ávöxtum og granateplum) – hvað er þessi hún hugsuð fyrir marga?

  • Sæl. Það kemur nú fram þarna að þetta sé hugsað fyrir fjóra en þá er ég að miða við léttan forrétt – ef maður vill heldur matarmeiri rétt er þessi skammtur fyrir tvo til þrjá.

  • Sæl, getur þú hjálpað mér með uppskrift að niðursoðnum rauðrófum? Get ég notað epla edik , rauðrofusafa ,jafnvel trönuberjasafa og negul kanil stöng . Kveðja Hildur

   • Sæl. Þú gætir prófað þessa; ég hef ekki notað trönuberjasafa en það er örugglega í lagi að nota hann í staðinn fyrir vatn.

    1 kg rauðrófur, soðnar eða bakaðar þar til þær eru meyrar, síðan kældar, flysjaðar og skornar í bita
    350 g sykur
    350 ml eplaedik
    350 ml vatn (eða trönuberjasafi eða eplasafi)
    1-2 kanelstengur
    1/2 tsk negulnaglar

    Allt sett í pott, hitað að suðu og látið malla í 10 mínútur. Þá er kryddið tekið (það er gott að hafa negulnaglana í grisju eða te-eggi svo að auðveldara sé að hreinsa þá frá). Rauðrófubitunum skipt á dauðhreinsaðar krukkur, best að hafa svona 1 cm borð á krukkunni, og svo er heitum vökvanum ausið í krukkurnar svo að rétt fljóti yfir rauðrófurnar. Lokað og ef á að geyma þetta eitthvað að ráði eru krukkurnar svo settar í pott með heitu vatni sem flýtur yfir þær og látnar malla í 30-35 mínútur. (Ekki skrúfa lokin mjög fast á.)

 2. Sæl Nanna. Ég var að baka pavlovu og hún varð svo seig hjá mér að það var erfitt að skera. Alltof karmellukennt. Hver er ástæðan? Fylgdi uppskriftinni alveg og lét hana kólna í ofninum yfir nótt. Keypti bókina þína og bakaði hæglyfta hveitibrauðið. Fylgdi uppskriftinni, þó mér þætti þetta mjög hár hiti, engin olía og annað, en brauðið var alveg frábært. Ekki síðra daginn eftir ristað. Búin að gera þetta brauð aftur og aftur. Eiginlega betra en normalbrauð. Takk fyrir þessa uppskrift og hlakka til að prófa aðrar uppskriftir í bókinni.

  • Svona til að upplýsa betur var pavlovu uppskriftin ekki frá þér. Sá hana á netinu á tveimur stöðum og um sömu uppskrift var að ræða svo ég fylgdi henni. Bara áhugavert að vita hvort ég hafi bakað of stutt eða of lengi, eða sett sykurinn of seint eða snemma í ferilinn. Hef aldrei áður notað edik í marengs svo það gæti líka verið málið.

 3. Sæl. Pavlova á náttúrlega að vera pínulítið seig – eða ekki seig, en heldur ekki alveg þurr og stökk í miðju og alls ekki eins og þú lýsir henni. Uppskriftin sem ég nota yfirleitt er 4 eggjahvítur, 200 g sykur, 1 tsk edik og 2 tsk maizenamjöl. Ég þeyti eggjahvíturnar þar til þær byrja að freyða, þeyti þá sykrinum saman við smátt og smátt þar til marensinn myndar stífa toppa og blanda þá edikinu og maizenamjölinu saman við. Baka við 115°C í 1 1/2 klst og læt svo kólna eitthvað í ofninum.

  Ef uppskriftin sem þú ert með er áþekk þessu en gengur samt ekki upp gætu ástæðurnar verið ýmsar. Mögulega þeyttirðu hvíturnar ekki alveg nógu lengi svo að topparnir eru ekki nógu stífir eða sykurinn ekki alveg uppleystur. Það getur verið til bóta að þeyta örlitlu salti saman við með sykrinum. Mögulega er hitastillirinn á ofninum þínum ekki nákvæmur svo að pavlovan þyrfti ívið lengri bakstur (það er þó ólíklegt ef þú lætur hana vera í ofninum yfir nótt). Það getur líka verið til bóta að hafa svolitla rifu á ofninum (stinga kannski sleifarskafti á milli ofns og hurðar til að halda ofninum örlítið opnum) til að auka loftflæði. Algengasta ástæaðan til þess að marens og pavlovur bakast ekki rétt er samt, merkilegt nokk, veðrið. Loftraki og lágur loftþrýstingur hefur slæm áhrif á marensbakstur og það á að forðast að baka marens í rigningu eða þegar mikill raki er í lofti. Þetta skiptir kannski heldur minna máli hér en sumstaðar erlendis, þar sem loftslag er heitt og rakt, en hefur þó áhrif.

 4. Sæl Nanna
  Um daginn fékk ég, á veitingahúsi á Tenerife, heilsteiktan fisk sem líktist karfa. Hann var mjög góður og nú langar mig að spyrja þig hvernig þú myndir heilsteikja karfa?

  • Sæl. Ég elda stundum karfa en hef reyndar aldrei heilsteikt hann; hins vegar hef ég heilsteikt ýmsa aðra fiska og reikna með að ég myndi meðhöndla karfann svipað. Ég myndi þá byrja á að skafa roðið vel (en varlega, það er ekki gott að stinga sig á karfabeini) og leggja hann svo í saltvatn dálitla stund. Þerra hann síðan og krydda að utan og innan með pipar og salti.
   Svo er ágætt að setja eitthvað inn í kviðarholið, til dæmis hvítlauk, engifer, sítrónubáta, ferskar kryddjurtir (timjan, óreganó, steinselju eða bara það sem hugurinn girnist og maður á til). Ef maður vill austurlenskan keim má líka búa til lög úr hvítlauk, límónusafa, sojasósu, söxuðu chili og engifer og kannski nokkrum dropum af hunangi og hella yfir fiskinn að utan og innan.
   Hita svo ofninn í 180°C, klæða eldfast mót eða bökunarplötu með bökunarpappír, bera svolitla olíu á hann, leggja fiskinn ofan á, ýra aðeins meiri olíu yfir og baka í – tja, kannski 25-30 mínútur, eftir því hvað fiskurinn er þykkur. Láta hann kannski bíða í örfáar mínútur áður en hann er borinn fram.

 5. Sæl og blessuð
  Er í lagi að geyma mat í steypujárnspotti, til dæmis yfir nótt, ef maður ætlað að hita afganginn upp daginn eftir?
  Vilborg

  • Ef hann er emileraður er það í sjálfu sér í lagi – þ.e. í kæli. Ef potturinn er óhúðaður myndi ég ekki láta mat standa í honum lengi, að minnsta kosti ekki ef það er eitthvað sem er með tómötum eða inniheldur sýru. – Hins vegar kólnar matur hægar í steypujárnspottum en öðrum; það er kostur þegar maður vill halda matnum heitum en það sem maður ætlar að geyma er auðvitað best að kæla sem hraðast. Svo að ef ég ætla að geyma eitthvað sem eldað var í steypujárnspotti – hvort sem hann er emileraður eða ekki – set ég það oftast í annað ílát, bæði til að það kólni hraðar og til að auðveldara sé að geyma það í ísskápnum. Set það svo aftur í pottinn til að hita það.

  • Mín uppáhaldslagkaka er gamaldags íslensk vínarterta með sveskjumauki, sem ég baka fyrir hver jól, veit ekki hvort þú ert með eitthvað slíkt í huga. Ég er að hugsa um að setja inn uppskrift að henni á eftir.

 6. Sæl Nanna, mig langar að vita hvort þú lumar á rjúpnaforrétti. Mér áskotnuðust nokkrar rjúpur sem duga ekki í aðalrétt. Áður fyrr þegar auðvelt var að fá rjúpur var ég með léttsteiktar bringur og sauð lærin fyrir sósuna.

  Bestu kveðjjr Margrét

  • Grafnar rjúpnabringur, rjúpnasúpa, rjúpnasalat, rjúpnabollur (sem mætti nota út í súpuna eða salatið)? eða eitthvað annað? Ég hugsa að ég geti nú fundið þessar uppskriftir hjá mér ef ég leita. Uppskriftin að bringunum er reyndar hér á blogginu, ég notaði að vísu skoskar rjúpur þar en þær íslensku eru auðvitað enn betri.

 7. Sæl, ég er að hugsa um að baka eggjalausar sörur eftir þinni uppskrift en þar notar þú rjómaost í kremið (millilagið). Er það venjulegur rjómaostur eða myndir þú ráðleggja að nota Philadelphiu rjómaostinn sem er aðeins mildari? Var þá að hugsa um hvort það yrði of mikið rjómaostabragð af millilaginu ef venjulegur rjómaostur yrði notaður eða er það bara rugl í mér? Með kærri kveðju, Guðrún.

  • Fyrirgefðu að ég var ekki búin að svara, sá þetta ekki fyrr en núna. Ég notaði venjulega rjómaost og fannst ekki of mikið rjómaostsbragð en það er bara smekksatriði, philadelphiuosturinn ætti að vera fínn. Um að gera að smakka sig áfram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s