Eins manns veisla

Risahörpuskel er ekki ódýrt hráefni, sannarlega ekki, og maður er kannski ekki að bjóða tíu manns í mat og hafa risahörpuskel sem aðalrétt (ég tími því allavega ekki en ég er nú frekar nísk). En það getur verið mjög gott að hafa hana sem forrétt í góðu matarboði, þá þarf ekki nema kannski tvö – þrjú stykki á mann og það er nú alveg viðráðanlegt. Og af því að hún er seld í pakkningum þar sem er yfirleitt hægt að losa skelfiskana í sundur frosna og taka bara eins marga og maður þar, þá er hörpuskelin líka upplögð fyrir einn – svona þegar mann langar að gera vel við sjálfa sig og útbúa eitthvað fallegt og gott til að setja á borðið með öðru góðmeti og halda eins manns veislu.

Og það var einmitt það sem ég gerði um daginn, ég átti risahörpuskel í frysti og opnaði pokann, tók fjóra skelfiska, setti á disk og þíddi í ísskápnum yfir nótt. (Ef ekki er tími til þess er best að þíða hörpuskelina í lokuðum plastumbúðum undir köldu, rennandi vatni.) Ég ætlaði reyndar bara að nota þrjá skelfiska en tók einn auka af því að ég ætlaði að mynda réttinn og vildi vera viss um að hafa varaskeifu ef einn yrði ekki nógu fallegur – sem reyndar gerðist, einn klofnaði í steikingunni …

_MG_7458

Þegar að eldamennskunni kom þerraði ég skelfiskinn mjög vel með eldhúspappír. Það er nefnilega mikilvægt, ef maður vill láta hörpuskelina taka góðan lit án þess að ofsteikja hana, að yfirborðið sé sem þurrast. Og til að það yrði nú enn þurrara, þá blandaði ég saman 1 msk af hveiti, pipar og salti og dýfði endunum á hörpuskelinni í blönduna. Ekki velta henni upp úr hveitinu, það á ekki að fara á hliðarnar, og ekki þrýsta henni niður svo að of mikið hveiti fari á hörpuskelina.

Svo hitaði ég pönnu (helst steypujárn en OK, það er ekki skylda) vel. Setti 1 msk af ólífuolíu á hana og setti svo hörpuskelina á hana og steikti við háan hita í 1 1/2-2 mínútur, ekki lengur. Bætti 1 tsk af smjöri á pönnuna rétt áður en ég sneri hörpuskelinni við og steikti jafnlengi á hinni hliðinni. Tók hana svo strax af pönnunni.

_MG_7471

Ég raðaði hörpuskelinni á disk (þessum þremur sem litu best út, þann fjórða át ég strax). Var búin að skera tvær radísur í mjög þunnar sneiðar og dreifði þeim í hring, ásamt sprettum (ég var með klettasprettur og rambósprettur (radísusprettur), en það mætti líka nota t.d. kryddjurtir eða klettasalat eða eitthvað ámóta.  Síðan dreypti ég dálítilli góðri ólífuolíu yfir og af því að ég rækta nú lavender á svölunum, þá setti ég eitt blóm ofan á hvern hörpuskelfisk. En það mætti vel nota einhver önnur lítil, æt blóm – eða bara sleppa því.

Ég held að þetta gæti nú verið ljómandi huggulegur forréttur. En hjá mér var rétturinn partur af veislu fyrir einn.

Steikt hörpuskel með radísum og sprettum

3-4 risahörpuskelfiskar

1 msk hveiti

pipar

salt

1 msk ólífuollía + ögn meira

1 tsk smjör

1-2 radísur

lófafylli af sprettum

e.t.v. lavenderblóm eða önnur lítil, æt blóm

 

Færðu inn athugasemd