Rambó og Stilton

Þegar mig langar í eitthvað einfalt og gott og ódýrt (oftast) sem ekki þarf að eyða miklum tíma í en má samt alveg taka sinn tíma að elda, þá baka ég mér stundum kartöflu. Eina væna bökunarkartöflu og set einhverja fyllingu í hana, létta eða matarmikla eftir því hvernig á stendur. Reyndar gerði ég þetta ekki oft áður fyrr því að mér óx dálítið í augum að hita ofninn fyrir eina kartöflu – það er nú töluverð orkueyðsla í því – og sama gilti um margt annað sem mér fannst of lítið fyrir heilan stóran ofn. Það eru tveir ofnar í eldavélinni minni en mér fannst eiginlega það sama um minni ofninn líka.

En í fyrra ákvað ég svo að kaupa mér lítinn (eða reyndar ekkert mjög lítinn) borðofn einmitt fyrir eins manns skammta og núna nota ég hann satt að segja langmest af ofnunum mínum þremur. Og hef ekkert samviskubit yfir einni kartöflu. Svo að það eru bara nokkuð oft bakaðar kartöflur í matinn hjá einbúanum, með mismunandi fyllingum.

En áður en lengra er haldið: ég er enn í þriggja rétta gírnum eins og síðustu daga og hér er það sem ég útbjó áðan:

Uppskriftin sem kemur núna – bakaða kartaflan – er ekki þarna, ég eldaði hana í gær. Auðvitað má baka margar kartöflur í einu en ég þurfti semsagt bara eina meðalstóra bökunarkartöflu. Pikkaði hana nokkrum sinnum með gaffli á öllum hliðum, setti hana í lítið eldfast mót, hellti 1 msk af ólífuolíu yfir og velti kartöflunni upp úr henni og kryddaði með pipar og salti. Svo hitaði ég ofninn í 200°C (borðofninn er 4-5 mínútur að hitna, það er önnur ástæða til þess að ég nota hann frekar), setti fatið í ofninn og bakaði kartöfluna í svona klukkutíma.

_MG_7673

Þá tók ég kartöfluna út – hún var meyr í gegn og hýðið stökkt – lét hana bíða í nokkrar mínútur og skar svo djúpan kross ofan í hana og ýtti með fingurgómunum á alla fjóra fjórðungana til að opna hana.

Ein uppáhaldsfyllingin mín í bakaðar kartöflur er gráðaostur og parmesan. Og það vill svo til að ég á afbragðsgóðan enskan Stilton-ost í krukku, sem ég þarf að fara að nota (ég myndi alveg geyma hann árum saman í lokaðri krukku en það var búið að opna þessa svo að ég ákvað að nota hann bara, það reyndist ekkert slæm ákvörðun). En það má auðvitað bara nota gráðaost eða einhvern annan blámygluost. Nú, eða einhvern allt annan ost fyrir þá sem ekki kunna að meta gráðaosta.

_MG_7674

Ég muldi ostinn ofan í kartöflukrossinn, kannski 2-3 matskeiðar. Svo af því að ég átti nú slatta af sprettum stráði ég dálitlu af sinnepssprettum yfir – en það er líka mjög gott að nota t.d. smátt saxaðar rósmarínnálar. Ofan á þetta stráði ég svo 2-3 matskeiðum af parmesanosti. Ég var búin að hita ofninn upp í 225 gráður og setti kartöfluna aftur í hann í 12-15 mínútur, eða þar til parmesanosturinn var bráðinn og farinn að taka góðan lit.

_MG_7695

Svo setti ég kartöfluna á disk og stráði rambósprettum (radísusprettum) allt í kring og ofan á, þetta varð hálfgert salat. En það mætti líka nota eitthvað annað, salatblöð eða kryddjurtir. Ég borðaði kartöfluna bara eina sér en hún gæti auðvita líka verið meðlæti. Það má bera fram smjör eða góða ólífuolíu með en mér fannst kartaflan ekki þurfa þess.

*

Rambókartafla

1 bökunarkartafla, meðalstór

1 msk ólífuolía

pipar og salt

2-3 msk Stiltonostur, gráðaostur eða annar ostur, mulinn

nokkrar sinnepsspretur (eða kryddjurtir eftir smekk)

2 -3 msk rifinn parmesanostur

væn lófafylli af rambósprettum (eða öðrum sprettum, kryddjurtum eða salatblöðum)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s