Apríkósur, camembert og basilíkusprettur

Ég er að elda litríkan mat þessa dagana. Og fallegan, finnst mér. Af því að það skiptir mig máli að maturinn gleðji augun rétt eins og bragðlaukana. Hann verður girnilegri og maður nýtur hans betur og ég er ekki frá því að hann bragðist betur. Auðvitað er bragðið nákvæmlega það sama, maður myndi ekki finna mun ef bundið væri fyrir augun á manni og settir fyrir mann tveir diskar með nákvæmlega sama mat, nema í öðru tilvikinu væri öllu bara hrúgað á diskinn en í hinu væri hugað að uppstillingunni og útlitinu. En ég er líka viss um að manni þætti maturinn á báðum diskunum bragðast betur ef augnbindið væri tekið, því að sjónin er hluti af matarnautninni (líka þegar öllu er skellt í hrúgu og maturinn ekkert puntaður).

Ein ástæða fyrir litagleðinni þessa dagana (fyrir utan það að ég á slatta af sprettum sem ég er að gera tilraunir með) er að ég er að reyna að kalla fram aðeins meira sumar. Sumar í sálinni, allavega, og af því að akkúrat núna er ég í skapi til að mynda allt sem ég elda fer ég með diskana út á svalir og mynda þá þar með svalagróðurinn í baksýn til að fá meira sumar. Það tekst ágætlega og mest af því á eftir að rata hér inn. Hér er til dæmis það sem ég eldaði núna áðan:

Þessar uppskriftir koma örugglega seinna. En núna ætla ég frekar að setja inn einfaldan og sumarlegan eftirrétt sem ég útbjó fyrr í vikunni. Hann er svo einfaldur að það er engin þörf á neinum myndum af undirbúningnum. Uppskriftin er fyrir einn en getur auðvitað verið fyrir hundrað manns þess vegna.

_MG_7378

Ég átti fallegar og vel þroskaðar apríkósur sem ég skar niður í fjórðunga – mér fannst hæfilegt að nota eina og hálfa apríkósu svo að það urðu sex fjórðungar, sem ég raðaði á aflangan disk (hann þarf auðvitað ekkert að vera aflangur). Skar svo fimm mjóa geira af góðum camembertosti (þessi var franskur) eða öðrum hvítmygluosti og raðaði þeim á milli apríkósubátanna. Best er að osturinn sé hæfilega mjúkur og komi ekki beint úr ísskápnum. Svo dreypti ég kannski tæplega hálfri teskeið af þunnu hunangi eftir endilangri lengjunni, tíndi fáein ber af hélurifsrunnanum sem ég er með á svölunum (má sleppa eða nota önnur ber) og setti þau ofan á og að lokum tók ég dálítið af fjólubláum basilíkusprettum og dreifði yfir. Auðvitað má alveg eins nota græna basilíku, annaðhvort sprettur eða lítil blöð.

_MG_7357

Mér fannst þetta nú bara frekar huggulegt. Og gott var það.

*

Apríkósur, ostur og sprettur

1½ apríkósa, vel þroskuð

smábiti af camembert eða öðrum osti

¼-½ tsk hunang

sprettur

e.t.v. fáein ber (hér hélurifs)

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s