Punkturinn yfir i-ið

Ég er nú ekkert oft með eftirrétti – sjaldan fyrir mig eina og ekkert alltaf þegar ég er með fjölskylduna í mat, eða hluta hennar. Dóttirin, tengdasonurinn og dótturdóttirin komu í mat áðan og ég hafði reyndar gert vanillu-döðluís sem ég bauð þeim en þau afþökkuðu öll, búin að fá ríflega fylli sína af paellunni sem ég eldaði – náði í stóru paellupönnuna mína sem annars hangir svo hátt uppi á vegg að ég þarf stiga til að sækja hana og eldaði kjúklingapaellu. Ja, svona nokkurs konar, ég er nú ekki viss um að Spánverjar myndu alveg samþykkja þetta sem paellu. En hún var alveg ljómandi góð samt.

_MG_8085

En uppskrift dagsins er ekki paella, neinei. Ekki heldur ísinn sem enginn vildi (nema ég á eftir að laumast í hann reglulega á næstunni, nema kannski ef Baldur Hrafn kemur í heimsókn. Hann sonarsonur minn, sem er fimmtán mánaða, er nefnilega nýbúinn að uppgötva ís og finnst svoleiðis mikið sælgæti. Við sjáum nú til.

En eftirréttur er það samt, einn af þeim sem ég gerði í síðustu viku þegar ég var í miklu kokkastuði og útbjó þrjá rétti að minnsta kosti á hverjum degi. Afskaplega einfaldur, mjög auðvelt að gera hann fyrir einn, litríkur og fallegur – hvað vill maður hafa það betra?

_MG_7495

Ég átti eina nektarínu (má líka vera ferskja) og nokkur rauð vínber. Skar nektarínuna í báta og skipti vínberjunum í litla klasa. Eftir á að hyggja hefði kannski verið betra að taka þau öll af stilkunum, það er auðveldara að borða þau þannig – en þau eru nú meira fyrir augað ef þau eru í klösum, allavega sum. Dreifði þessu í eldfast mót, klætt bökunarpappír og ýrði svona 1 tsk af góðri ólífuolíu yfir. Svo datt mér í hug að setja svolítið timjan með (mitt er blómstrandi) en áttaði mig reyndar á því seinna að það voru mistök, timjanbragðið skilaði sér lítið sem ekkert og timjanið brann bara. Sennilega hefði verið betra að sleppa því eða skreyta með því rétt áður en rétturinn er borinn fram.

_MG_7507

Ég hitaði svo ofninn í 200°C og bakaði ávextina í 20-25 mínútur, eða þar til nektarínubátarnir voru meyrir og farnir að taka lit og vínberin farin að verða hrukkótt. Þessi skammtur myndi alveg duga handa tveimur. Nema maður sé svangur. En ég var ein og ekkert svo svöng svo að ég tók helminginn frá til að borða seinna.

_MG_7540Ég setti svo nektarínubáta og vínber á disk, dreifði nokkrum pistasíum í kring (má sleppa), setti kúfaða skeið af sýrðum rjóma (36%) í miðjuna. Til að gera þetta nú reglulega huggulegt og vænt og svolítið grænt  og fá punkt yfir i-ið á þessum eftirrétti sem sjálfur er upplagður punktur yfir i-ið á sumarlegri máltíð, þá dreifði ég fáeinum skjaldfléttusprettum yfir. Það mætti líka nota basilíku, annaðhvort sprettur eða lítil basilíkulauf. Eða mintu upp á útlitið en bragðið passar ekki alveg, finnst mér.

Já, og með sýrða rjómann: Mér finnst 36% rjómi langbestur hér, ef hann er ekki notaður væri best að nota t.d. mascarponeost eða rjómaís. Mögulega þeyttan rjóma. Alls ekki einhvern magran sýrðan rjóma sem á það nafn alls ekki skilið …

Bökuð vínber og nektarína

vínber, kannski svona 75 g

1 nektarína eða ferskja

1 tsk jómfrúarolía

e.t.v fáeinar pistasíur (eða aðrar hnetur)

sýrður rjómi, 36%

skjaldfléttusprettur

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s