Sumarið er grænt

Ég eignaðist slatta af sprettum um helgina. Ef þið eruð ekki klár á hvað það er, þá eru sprettur mjög ungar kryddjurta- og grænmetisplöntur, bara fáein lítil blöð hver, sem mér finnst mjög gaman að nota í matargerð – stundum bara sem skraut því að þær lífga sannarlega upp á flestan mat, stundum sem krydd eða bragðgjafi, því að það er sannarlega bragð af þeim, og stundum jafnvel sem eitt aðalhráefnið.

Svo að nú er ég að leika mér með þessar sprettur og set örugglega inn einhverjar uppskriftir á næstu dögum þar sem þær koma við sögu. Hvort sem verður sól eða ekki; í aðra röndina finnst mér svona grænn unggróður eiga best við þegar sólin skín og það gerði hún reyndar þegar ég kom heim úr vinnunni í dag og ég fékk hugljómun og útbjó í skyndi þrenns konar góðgæti til að borða á svölunum. Það tók í alvöru svona korter. Jæja, kannski tuttugu mínútur því að súpan þurfti að kólna aðeins.

_MG_7397

Og hér er uppskrift að súpunni. Ef ég væri í útlöndum og það væri þrjátíu stiga hiti eða meira hefði ég kannski borið hana fram kalda en það er nú kannski ekkert sniðugt. Mér finnst hún samt betri ef hún er ekki snarpheit. Uppskriftin er fyrir einn til tvo. Tvo sem forréttur, einn sem aðalréttur. Ég var ein svo að það varð enginn afgangur. Enda var þetta góð súpa.

Ég byrjaði á að hita 1 msk af jómfrúarolíu í litlum potti og svo saxaði ég 2-3 vorlauka smátt og lét krauma í nokkrar mínútur við vægan hita. Þá setti ég 100 g af frosnum grænum baunum út í (þetta er ekki móment fyrir Ora) og lét krauma áfram þar til baunirnar höfðu þiðnað. Opnaði á meðan eina dós af smjörbaunum, setti svona helminginn af þeim í sigti og lét renna af þeim og sturtaði þeim svo út í pottinn. Bætti við 150 ml af vatni, ½ tsk af grænmetiskrafti, salti og pipar, hitaði að suðu og lét malla í 3-4 mínútur. Þá tók ég súpuna af hitanum og lét hana kólna svolítið. Setti svo litla lófafylli af sprettum út í – það má nota ýmsar tegundir, til dæmis klettasalats- eða basilíkusprettur (og ef maður á engar sprettur er alveg í lagi að nota fullvaxnar kryddjurtir, bara smakka sig áfram).

_MG_7306

Svo hellti ég öllu saman í matvinnsluvél og maukaði súpuna vel. Hún á að vera þykk en sé hún of þykk má bæta við svolitlu vatni, ef hún er of þunn má setja meiri smjörbaunir. En hún var alveg mátuleg. Ég smakkað hana og bætti við meiri pipar (hún má alveg vera vel pipruð) og hellti henni svo gætilega á disk. Eða diska ef hún er fyrir tvo.

Svo grófsaxaði ég saman 3-4 heilar, afhýddar möndlur, svolítið af graskersfræjum og svolítið af sprettum. Setti þetta á yfirborð súpunnar (það má setja allt í miðjuna, strá jafnt yfir eða búa til mynstur eins og ég gerði:

_MG_7346

Og svo dreypti ég smávegis jómfrúarolíu yfir, en það má nú alveg sleppa því.

Sumarleg grænbauna- og smjörbaunasúpa

1 msk jómfrúarolía

2-3 vorlaukar

100 g grænar baunir

½ dós smjörbaunir

150 ml vatn

½ tsk grænmetiskraftur

pipar og salt

lítil lófafylli af sprettum (t.d. klettasalatssprettur eða basilíkusprettur)

Ofan á:

3-4 möndlur

1 tsk graskersfræ

nokkrar sprettur

smáskvetta af jómfrúarolíu (má sleppa)

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s