Skyndilax

Eins og ég segi nú svo oft: fiskur er hinn eini sanni skyndibiti. En það fer auðvitað svolítið eftir meðlætinu. Það tekur bara nokkrar mínútur að steikja fisk – nú, eða sjóða hann eða grilla ef því er að skipta – en það tekur aðeins lengri tíma að sjóða til dæmis kartöflur eða hrísgrjón, eða ofnbaka grænmeti. En ef valið er fljótlegt meðlæti getur fiskurinn vel verið kominn á borðið eftir 10-12 mínútur.

Ég eldaði mér einmitt lax á dögunum og það tók nú ekki langan tíma. Og svo var hann bæði fallegur og góður. Og örugglega rosalega hollur líka. Ég keypti bita af laxaflaki, rétt rúm 200 g, hæfilegt fyrir einn – en auðvitað má hafa fleiri bita, meira af kryddleginum og baununum og sprettunum …

_MG_7720

Ég byrjaði á að blanda saman 1 msk af sojasósu, 2 tsk af olíu, 1 tsk af sriracha-sósu (eða einhverri annarri chilisósu), svolitlum sítrónusafa og pipar. Penslaði laxinn vel með leginum og setti afganginn til hliðar. Svo hitaði ég 1 tsk af olíu á pönnu við meðalhita og setti laxinn á pönnuna með roðhliðina upp.

_MG_7722

Ég steikti laxinn í svona 3 mínútur og sneri honum svo við. Ég átti hálfa dós af smjörbaunum (það má líka nota aðrar hvítar baunir), hellti leginum af þeim og setti þær á pönnuna og lét þetta krauma í svona 2 mínútur.

_MG_7724

Ég átti til bæði sólblómasprettur og baunasprettur. Það mætti líka nota bara baunasprettur, eða nota eitthvað annað í staðinn – til dæmis saxað grænkál. Ég setti lófafylli af sólblómasprettum á pönnuna, hellti afganginum af kryddleginum (ef einhver er) yfir og lét malla í 2-3 mínútur í viðbót, eða þar til laxinn var rétt steiktur í gegn (fer eftir þykktinni á stykkinu). Þá setti ég baunaspírurnar á pönnuna tók laxinn af, hrærði og steikti í 1-2 mínútur í viðbót.

_MG_7766

Svo setti ég baunirnar og spretturnar á disk, setti laxinn ofan á og skreytti með aðeins meiri baunasprettum (mér finnst þær svo skemmtilegar og svo eru þær reyndar góðar líka).

*

Lax með smjörbaunum og sprettum

biti af laxaflaki, um 200 g

1 msk sojasósa

1 msk olía

1 tsk sriracha (eða önnur chilisósa)

safi úr einum sítrónubát

pipar

1/2 dós smjörbaunir eða aðrar hvítar baunir

lófafylli af sólblómasprettum

lófafylli af baunasprettum

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s