Þrefaldar engiferkökur

Ég var á ráðstefnu í Oxford um helgina, matarráðstefnu sem ég hef sótt á hverju sumri undanfarin tíu ár. Eða reyndar var ég þar alls ekki, ég sat heima hjá mér í stofusófanum eða borðstofunni/bókaherberginu eða var eitthvað að stússa í eldhúsinu – en ráðstefnan var flutt yfir á netið og ég fylgdist með fyrirlestrum og var á zoom-fundum allan daginn, ýmist með hundruðum einstaklinga eða í litlum hópum, hitti gamla vini og kynntist nýju fólki frá öllum heimshornum. Og þótt þetta væri auðvitað að mörgu leyti ólíkt öllum fyrri ráðstefnum var það samt líka ótrúlega líkt – svo líkt reyndar að á sunnudagskvöldið, að ráðstefnunni lokinni, fannst mér einhvernvegin eins og ég væri nýkomin heim frá Oxford, hefði verið þar í raun og veru – og ég heyri á mörgum öðrum sem þarna voru að þeim leið dálítið svipað.

Einn stór kostur við að gera þetta svona er líka að hópurinn sem þarna hittist var enn fjölbreyttari en venjulega. Margir – ekki síst úr þriðja heiminum og frá löndum hinum megin á hnettinum – sem ekki hafa getað komið hingað til, m.a. vegna þess að ferðalagið er tímafrekt og dýrt eða vegna þess að þeir hafa ekki fengið vegabréfsáritun eða af öðrum ástæðum – fengu þarna tækifæri til að „sækja“ ráðstefnuna og taka þátt í störfum hennar og kynnast fólki – sem er jú einn mikilvægasti þátturinn við svona ráðstefnur, ég hef á liðnum árum myndað ómetanleg tengsl við matreiðslubókahöfunda, fræðimenn, kokka, mataráhugafólk og bara alls konar fólk víða um lönd.

Hér má sjá lítið brot af ráðstefnugestunum. Bara á þessu skjáskoti sé ég að minnsta kosti átta manns sem ég á bækur eftir (ókei, ef ég tel sjálfa mig með).

Þetta er líka fólk sem er meira og minna innilokað hvert í sínu heimshorni og margir töluðu um þegar ráðstefnunni lauk að hún hefði bjargað sumrinu – og sálarástandinu. Ég ætla nú ekki að ganga svo langt en þetta var afskaplega skemmtilegt og upplyftandi.

Eitt var þó sem ekki var hægt að gera í gegnum netið: stór þáttur í þessari ráðstefnu eru sameiginlegar máltíðir, tveir kvöldverðir og tveir hádegisverðir, hver með sitt þema, sumir skipulagðir af frægum kokkum eða matreiðslubókahöfundum, aðrir af fulltrúum einhvers lands eða staðar, enn aðrir af fólki úr grasrótinni, ef svo má segja – fólki frá Borough Market í London, konunum sem settu upp sameiginlegt eldhús eftir Greenfell Towers-brunann, til dæmis. En nú gekk það ekki upp. Það var samt búið að skipuleggja máltíðirnar og semja matseðla að mestu þegar ráðstefnan var færð yfir á netið og þess vegna var brugðið á það ráð að senda út uppskriftirnar sem hefðu verið notaðar og hvetja fólk til að elda einhverja rétti af matseðlunum heima hjá sér á meðan ráðstefnan stæði yfir.

Ég gerði þetta einmitt, valdi einn eða fleiri rétti af hverjum matseðli og útbjó þá í eldhúsinu, var með tölvuna hjá mér og hlustaði og horfði á meðan á fyrirlestra um svikin og útþynnt krydd, kannabis í matargerð, glæpavæðingu zaatar-tínslu og margt fleira áhugavert.

Þema ráðstefnunnar var nefnilega krydd og kryddjurtir. Og ein máltíðin var sett saman af meistarakokkinum og matreiðslubókahöfundinum David Tanis og Jill Norman, sem er goðsögn í matarheiminum, ritstýrði m.a. bókum Elizabeth David og hefur sjálf samið frábærar bækur, m.a. alfræðibók um krydd og kryddjurtir. Máltíðin þeirra bar yfirskriftina One Good Spice og þau notuðu bara eitt krydd í hvern rétt. Ég gerði kúrbítslummur (kryddaðar með dilli) og laukbrauð (kryddað með kummini). Og svo bakaði ég engiferkökur. Með engifer, auðvitað, en reyndar þrenns konar engifer: dufti, ferskum og sultuðum. Þær voru ansi hreint góðar, ég stalst til að smakka eina þótt þær innihaldi sykur. Mætti svo með þær í vinnuna í morgun og þær slógu í gegn. Og hér er uppskriftin:

Ég byrjaði á að hræra saman 225 g af linu smjöri og 150 g af sykri. Uppskriftin sagði reynar 170 g en mér fannst 150 g alveg nóg. Svo átti að nota ósaltað smjör en bæta svo við hálfri teskeið af salti, ég sé nú aldrei alveg fídusinn í því svo ég notaði bara venjulegt smjör en bætti við svolitlu salti. Svo hrærði ég tveimur eggjarauðum saman við og síðan 1 tsk af sítrónuberki, 1 msk af engiferdufti og 1 msk af rifnu engifer. Síðan vigtaði ég 80 g af sultuðum engifer (er yfirleitt í bökunarvörudeildinni í stórmörkuðum, við hliðina á kokkteilberjum og svoleiðis) og skar í litla bita. Hrærði saman við deigið og síðan 270 g af hveiti í nokkrum skömmtum.

Deigið á að vera frekar lint og klessast svolítið við hendurnar. Mér fannst mitt dálítið þurrt (eggin sem ég notaði voru reyndar frekar lítil) svo að ég bætti við ögn af eggjahvítu. Svo breiddi ég tvær bökunarpappírsarkir á eldhúsbekkinn, skipti deiginu jafnt á þær, mótaði í lengjur og vafði þær inn í pappírinn og rúllaði fram og aftur til að fá þær alveg sívalar, svona 4 cm í þvermál. (Þær eru minni í uppskriftinn sem ég var með en ég vildi hafa þær í stærra lagi.) Svo kældi ég rúllurnar vel, gjarna yfir nótt. En þar sem ég hafði gleymt að lesa uppskriftina til enda stakk ég þeim bara í frysti í svona hálftíma.

Svo hitaði ég ofninn í 180°C, skar rúllurnar í um 1 cm þykkar sneiðar, raðaði þeim á bökunarpappír – það þarf ekki að vera neitt mjög mikið bil á milli þeirra en maður þarf nú líklega tvær plötur – og bakaði þær ofarlega í ofni í svona 12-14 mínútur, eða þar til þær voru gullinbrúnar og aðeins farnar að brúnast á jöðrunum.

Þrefaldar engiferkökur

225 g smjör, lint

150 g sykur

salt á hnífsoddi

2 eggjarauður

1 tsk fínrifinn sítrónubörkur

1 msk engiferduft

1 msk rifin engiferrót

80 g sultaður engifer

270 g hveiti

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s