Knasandi kartöflubátar

Ég er svosem ekkert hætt að elda þótt ég sé ekki lengur í einangrun og matarkaupabindindi. Nema núna elda ég ekki alltaf bara fyrir mig eina og ég er búin að birgja mig upp með heimsendingum bæði frá Nettó og Heimkaupum. Ekki til að búa mig undir aðra sex vikna einangrun þó … Svo að hér er stutt og einföld uppskrift.

Ég var með hluta af fjölskyldunni í mat fyrr í vikunni og gaf þeim kindafillet (alveg eins gott og meyrt lambafillet en miklu ódýrara) en ég ætla nú ekkert að tala um það – kryddaði það bara með pipar, salti og timjani, brúnaði vel á grillpönnu (hefði kannski sett það á útigrillið ef það væri ekki gaslaust) og stakk svo í ofninn smástund. Nei, það voru kartöflurnar sem ég ætlaði að segja frá. Sinnepsbakaðir kartöflulbátar, ansi hreint góðir, fannst mér.

_MG_5977

Ég byrjaði á að hræra saman í skál vel kúfaðri matskeið af dijonsinnepi, 2 msk af ólífuolíu, 1 tsk af þurrkuðu óreganói, 1 tsk af grófsteyttu kóríanderfræi, rifnum berki og safa úr einni sítrónu, pipar og salti.

_MG_5978

Svo skar ég svona 1 kg af meðalstórum kartöflum (Gullauga) í 6-8 báta hverja (mér finnst þær betri með hýði en það má flysja þær ef manni sýnist svo), velti þeim vel upp úr sinnepsblöndunni og hellti svo öllu saman í eldfast mót – frekar stórt, kartöflurnar eiga að liggja sem minnst hver ofan á annarri. Setti þær svo í 200°C heitan ofn og bakaði þær í svona 40 mínútur, eða þar til þær voru stökkar að utan og vel meyrar að innan og höfðu tekið góðan lit. Hrærði í þeim einu sinni eða tvisvar.

_MG_5996

Þær voru býsna góðar, þótt ég segi sjálf frá. – Uppskriftin er fyrir 5-6 en það er alveg hægt að gera þetta fyrir einn.

*

Sinnepsbakaðir kartöflubátar

1 kg kartöflur (ætti að vera óþarfi að afhýða þær)

kúfuð matskeið dijonsinnep

2 msk ólífuolía

1 tsk óreganó, þurrkað

1 tsk kóríanderfræ

1 sítróna

pipar og salt

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s