Lokapunkturinn

Jæja, þetta er orðið gott. Ég er búin að vera að gera þessa tilraun síðustu rúmar sex vikur, að lifa eingöngu á því sem ég átti til þegar ég fór í einangrun, og það er satt að segja búið að vera mjög skemmtilegt, ekki síst eftir að hráefnin fóru að klárast eitt af öðru og ég þurfti að hugsa upp nýjar leiðir, breyta uppskriftum, nota eitt hráefni í staðinn fyrir annað og svo framvegis.

Mjólkin kláraðist, rjóminn, osturinn, eggin, smjörið, olían, brauðhveitið, venjulega hveitið – og svo auðvitað grænmetið smátt og smátt, fyrst það forgengilega eins og salat, tómatar og þess háttar, svo eitt af öðru, þangað til í dag þegar grænmetisskúffan í ísskápnum leit svona út:

_MG_5767

Þarna var ég reyndar búin að taka síðustu kartöfluna en ekki búin að elda hana. – En ég var langt frá því að verða matarlaus, það var til töluvert af kjöti, fuglakjöti og grænmeti í frystinum, niðursoðnar baunir og grænmeti, ýmiss konar kornmeti, pasta og fleira, svo að það hefði alveg gengið í nokkrar vikur í viðbót.

En kaffið kláraðist í dag. Og það gengur náttúrlega ekki, það kemur ekkert í staðinn fyrir kaffi. Ekkert sem ég átti til allavega. Hvítvínið var búið líka en það gerði nú minna til (nóg til af rauðvíni). Svo að ég ákvað að hér með væri tilrauninni lokið og nú skyldi ég fylla á birgðirnar og panta allskonar úr búð. Aðallega grænmeti og ost og svona. Og auðvitað kaffi.

En ég eldaði samt eina lokamáltíð úr þessum sex vikna birgðum mínum og ákvað að hafa hana almennilega. Svo að ég sótti gæsabringu sem ég átti í frysti og opnaði dós af niðursoðnum grænum fíkjum. Og svo var það síðasta kartaflan. Ég vissi alveg hvað ég ætlaði að gera við hana og nú kom sér vel að ég á tölverðar birgðir af anda- og gæsafeiti, sem hefur reyndar verið eina feitmetið sem ég hef haft síðustu dagana og verið notað til steikingar og í ýmiss konar bakstri. Franskar kartöflur steiktar í gæsafeiti eru nefnilega ansi góðar.

_MG_5778

Ég byrjaði á að taka kartöfluna og skera hana í stauta, svona 1 cm á kant. Það má alveg flysja hana en ég sá enga ástæðu til þess. Skolaði stautana í köldu vatni, setti þá svo í pott með saltvatni og sauð í svona 3 mínútur. Þá hellti ég þeim í sigti, hvolfdi þeim svo á hreint viskastykki, þerraði þá og lét kólna alveg.

Á meðan tók ég Puy-linsubaunir sem ég átti, svona 100 g, og setti í pott með vatni, dálitlu þurrkuðu timjani, pipar og salti og sauð í svona 20 mínútur, eða þar til linsurnar voru rétt orðnar meyrar.

Ég bræddi gæsafeiti – magnið fer eftir stærðinni á pottinum og ég notaði litla wokpönnu úr steypujárni því að þannig finnst mér ég komast af með minni feiti en ella, en það þarf að fljóta vel yfir kartöflurnar – og hitaði hana í 120°C. Setti kartöflurnar út í og steikti þær í nokkar mínútur, þar til þær voru meyrar en ekki farnar að brúnast. Þá tók ég þær upp úr með gataspaða og setti á eldhúspappír til að láta renna af þeim. Þær mega kólna alveg og bíða drjúga stund.

_MG_5774

Þá var það gæsabringan – ég hafði tekið hana úr kæli með góðum fyrirvara svo að hún væri við stofuhita. Ég kryddaði hana með pipar og salti, bræddi gæsafeiti (nema hvað) á lítilli pönnu og brúnaði bringuna á báðum hliðum í svona 2 mínútur á hvorri hlið. Stakk svo pönnunni inn í 120°C heitan ofn í 10-12 mínútur. Svo tók ég bringuna út og lét hana bíða í nokkar mínútur á bretti.

_MG_5777

Mér fannst að fíkjur myndu passa með en maður á nú ekki ferskar fíkjur eftir sex vikna einangrun – þær væru annaðhvort myglaðar eða orðnar að gráfíkjum. En það vildi svo til að ég átti dós af niðursoðnum grænum fíkjum sem ég skar í tvennt. Hitaði pönnuna aftur og steikti fíkjurnar í kannski 2 mínútur á hvorri hlið.  (Ef mann langar í sósu má svo taka þær af, hella púrtvínsskvettu og svolitlu vatni á pönnuna, láta sjóða aðeins og þykkja ögn með sósujafnara.)

Ég hitaði svo gæsafeitin í svona 170°C, setti kartöflurnar aftur út í og steikti þær þar til þær voru stökkar og gullinbrúnar – það tekur kannski 2 mínútur eða svo. Tók þær svo upp úr með gataspaða og saltaði ögn.

_MG_5805

Ég skar svo bringuna í sneiðar og setti á disk með linsubaunum, fíkjum og sjóðheitum kartöflum. (Þetta rauða í linsubaununum eru þurrkuð rósablöð en þau eru bara skraut.) Og eins og ég sagði, það er enn til rauðvín.

Þetta fannst mér nú bara alveg passlegur endahnútur á sex vikna einangrunina mína.

*

Gæsabringa með steiktum fíkjum, puy-linsum,og þríelduðum frönskum kartöflum

1 gæsabringa, um 225 g

pipar og salt

1 msk gæsafeiti

nokkrar fíkjur, niðursoðnar (nú, eða ferskar)

*

Puy-linsur

100 g puy-linsubaunir

1/2 tsk timjan, þurrkað

pipar og salt

*

Þríeldaðar franskar kartöflur

1 bökunarkartafla, meðalstór

gæsa- eða andafeiti eftir þörfum (a.m.k. 500 g)

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s