Allt að klárast …

Nú eru liðnar sex vikur síðan ég keypti síðast eitthvað matarkyns og það er, ykkur að segja, búinn að vera býsna skemmtilegur tími af því að ég er búin að gera svo mikið af því sem mér þykir skemmtilegast – hugsa um mat, fá hugmyndir, gera tilraunir með mat, elda og auðvitað borða góðan mat – því að þótt ég segi sjálf frá hefur þetta yfirleitt verið alveg ljómandi góður matur. Svolítið misjafn kannski en ég hef ekki eldað neitt sem mér hefur þótt vont eða hefur verið alveg misheppnað.

Ég á nóg til af mat ennþá, gæti alveg lifað á honum í margar vikur í viðbót, en það er samt ansi margt farið að klárast og þótt ég eigi oft eitthvað sem hægt er að nota í staðinn reynir stundum töluvert á hugkvæmnina, og það er hætt við að matargerðin fari að verða fábreyttari og minna spennandi. Og ég er að verða kaffilaus. Ég fer þess vegna bráðum að hætta þessu, enda bjóst ég aldrei við að endast svona lengi. Tvær vikur eða svo, hélt ég upphaflega.

En ekki í dag, ég á enn eftir kaffi í tvo eða þrjá bolla. Og ég var búin að taka kjúklingalifur úr frysti. Skipti henni reyndar í tvennt, svona 225 g hvort hluta, og gerði kjúklingalifrarkæfu úr helmingnum. Maður þarf nú að eiga eitthvað ofan á brauð.

Eiginlega ætlaði ég að gera eitthvað svipað þessu hér – með fagurgrænni kryddjurtavinaigrettu – en það strandaði á því að ég átti hvorki réttu kryddjurtirnar (eða allavega mjög lítið af þeim) né ólífuolíu, nema svona eina matskeið og það var bara ekki nóg. Ég þeytti saman það sem ég átti til  (smávegis ferskt timjan og rósmarín, einn hvítlauksgeira, þessa einu ólífuolíuskeið og smáskvettu af balsamediki) en þetta var of lítið til að verða að mauki, tættist bara gróft í sundur. Bragðið var þó í lagi en þetta var hálfmisheppnað.

Ég ákvað að gera ferska pólentu – úr maískorni, ekki mjöli – og byrjaði því á að setja 200 g af frosnu maískorni í pott með svona 350 ml af vatni og sjóða í 10 mínútur. Svo hellti ég þessu í sigti sem ég setti yfir könnu og setti maískornið í matvinnsluvél. Ég er vön að bæta við muldum fetaosti og smjörbita en í þetta skipti var það seinasta klípan úr mascarponedósinni (það er ansi margt „síðasta“ þessa dagana), kannski svona 40 g, og 1 msk af gæsafeiti. Maukaði þetta mjög vel saman, þynnti með maíssoðinu eftir þörfum, og kryddaði með pipar og salti.

_MG_5751

Ég var búin að leggja síðustu þurrkuðu sveppina – svona 2-3 matskeiðar af blönduðum skógarsveppum – í bleyti í 75 ml af heitu vatni í svona hálftíma. Tók þá svo upp úr (geymdi vatnið), kreisti úr þeim bleytuna og saxaði þá gróft. Saxaði líka síðasta laukbitann smátt. Bræddi 1 msk af gæsafeiti (nú, eða smjöri) á lítilli pönnu, lét laukinn krauma í 2-3 mínútur og setti svo sveppina á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur í viðbót.

_MG_5752

Þá skar ég lifrina (225 g) í minni bita, hækkaði hitann, setti lifrina á pönnuna, kryddaði með pipar og salti og steikti í 3-4 mínúr og hrærði oft á meðan. Hellti svo sveppavatninu á pönnuna og lét sjóða í 3-4 mínútur í viðbót, þar til vökvinn var gufaður upp og lifrin tilbúin (hún á helst að vera aðeins bleiki í miðju). Ég hrærði svona 30 g af frosnum, grænum baunum saman við og tók pönnuna af hitanum.

_MG_5759

Ég setti svo pólentuna á disk, hrúgaði kjúklingalifrinni ofan á  og dreifði svo ekki-vinaigrettunni yfir. (Jú, þetta hefði verið flottara með fagurgrænni kryddjurtasósu. En það var ekkert að bragðinu.)

*

Kjúklingalifrarragú á ferskri pólentu

225 g kjúklingalifur

2-3 msk þurrkaðir sveppir

75 ml sjóðandi vatn

1/4 laukur

1 msk gæsafeiti (eða smjör eða olía)

pipar og salt

30 g frosnar, grænar baunir

kryddjurtavinaigretta eða ferskar kryddjurtir

*

Fersk pólenta

200 g maískorn

350 ml vatn

40 g mascarponeostur (eða fetaostur)

1 msk gæsafeiti

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s