Ég ákvað að prófa að breyta um útlit á blogginu, var búin að vera með það sama frá því að ég byrjaði að blogga í wordpress, eða í meira en tvö ár. Veit samt ekki alveg hvernig mér líst á þetta, ætla að sjá til. Kannski breyti ég aftur í eitthvað allt annað. Eða bara í það gamla aftur.
En allavega – já, það er náttúrlega farið að rigna aftur. En helgin var annars búin að vera ágæt, ég fór á götumatarmarkað í gær í blíðuveðri og svona. Það var fínasta grillveður en ég grillaði nú samt ekkert – en hér kemur þó grilluppskrift. Sem mætti samt alveg eins elda inni, á grillpönnu eða steikarpönnu.
En ég semsagt grillaði kindalundir í vor, fyrir júníblað MAN, eldaði pólentu með og hafði kryddjurtavinaigrettu með öllu saman. Auðvitað má líka nota lambalundir í þennan rétt en mér finnst kindalundirnar bragðmeiri og betri og svo eru þær líka töluvert ódýrari. Reyndar má líka nota annað meyrt kjöt, svo sem hryggvöðva eða innralæri, og haga grilltímanum eftir því.
Ég ætlaði satt að segja að gera venjulega pólentu úr grófu maísmjöli (pólentumjöli) en fann það ekki í búðum sem ég fór í. En svo mundi ég eftir pólentuuppskrift frá Ottolenghi, þar sem notað eru fersk maískorn, skorin af stönglum. Ég ákvað að styðjast við hana að mestu en nota frosin, laus maískorn. Það kom alveg ljómandi vel út og ég á sannarlega eftir að gera þetta oftar.
Ég byrjaði á að tína til hráefnið í maríneringuna á kjötið: nálar af 2 rósmaríngreinum og nokkrar timjangreinar (má auðvitað líka nota þurrkað timjan en ég mundi nota ferskt rósmarín ef mögulegt er), 2-3 hvítlauksgeira, þunnt flysjaðan gula börkinn af 1/2 appelsínu, safa úr 1/2 sítrónu og 1/4 tsk af chiliflögum (eða eftir smekk), pipar, salt og 4 msk af ólífuolíu.
Setti allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukaði saman og þeytti svo olíunni saman við.
Ég var með 800 g af kindalundum og nú tók ég þær, skar burt himnur og raðaði þeim í eldfast mót.
Helltu maríneringunni yfir lundirnar. Láttu liggja í 1-2 klst og snúðu einu sinni eða tvisvar.
Á meðan gerði ég pólentuna: tók 450 g af frosnu maískorni (má auðvitað alveg nota fersk maískorn sem eru þá skorin utan af stönglinum) og setti í pott ásamt 1/2 l af vatni. Kryddaði með dálitlum pipar og salti, hitaði að suðu og lét malla í um 10 mínútur.
Ég setti svo sigti yfir skál, hellti öllu úr pottinum í sigtið og setti svo maískornið í matvinnsluvél ásamt dálitlu af soðinu. Lét vélina ganga í nokkrar mínútur, þar til maísinn var orðinn að fínu, frekar þunnu mauki og bætti við meira soði eftir þörfum.
Ég setti svo maukið aftur í pottinn, hitaði það rólega og lét malla við meðalhita nokkra stund, þar til það hafði þykknað og var eins og kartöflustappa. Hrærði mjög oft á meðan. Svo hrærði ég 25 g af smjöri og 100 g af muldum fetaosti saman við og lét malla í tvær mínútur í viðbót, þar til smjörið og osturinn hafa bráðnað saman við. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.
Á meðan hafði ég hitað grillið vel og svo tók ég lundirnar úr maríneringunni og stráði ögn meira salti yfir þær. Grillaði þær svo í 3 mínútur á annarri hliðinni og 2 á hinni en hafði grillið lokað því það var gola og frekar kalt í veðri. En það má alveg grilla þær örlítið minna eða meira, eftir smekk.
Svo tók ég þær af grillinu og lét bíða í 3-4 mínútur.
Á meðan bjó ég til vinaigrettuna: Tók vænan slatta (2-3 handfyllir) af ferskum kryddjurtum eftir smekk – ég átti til rósmarín, timjan og steinselju – 1 msk af hvítvínsediki, 1 msk af balsamediki, pipar, salt og 100 ml af góðri ólífuolíu.
Ég saxaði kryddjurtirnar og setti þær í matvinnsluvél ()eða mortél með edikinu, pipar og salti. Maukaði allt vel saman og þeytti svo ólífuolíunni smátt og smátt saman við.
Svo setti ég polentuna á diska, skar lundirnar í bita og setti ofan á og dreypti kryddjurtavinagrettu yfir.
Grillaðar kindalundir með pólentu og kryddjurtavinaigrettu
Fyrir 4
Pólenta
450 g maískorn, frosin eða fersk
½ l vatn
salt
pipar
25 g smjör
100 g fetaostur, mulinn
Kryddjurtavinaigretta
2-3 lófafyllir af ferskum kryddjurtum eftir smekk, t.d. basilíka, timjan og steinselja
1 msk hvítvínsedik
1 msk balsamedik
pipar
salt
100 ml ólífuolía
Grillaðar lundir
800 g kinda- eða lambalundir
nálar af 2 rósmaríngreinum
nokkrar timjangreinar
2-3 hvítlauksgeirar
guli börkurinn af ½ appelsínu
safi úr ½ sítrónu
¼ tsk chiliflögur, eða eftir smekk
pipar og salt
4 msk ólífuolía
[…] ætlaði ég að gera eitthvað svipað þessu hér – með fagurgrænni kryddjurtavinaigrettu – en það strandaði á því að ég átti […]