Subbuleg svínarif

Ég stóð við kjötborðið í Nóatúni áðan og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti nú að hafa í kvöldmatinn handa mér og syninum því tengdadóttirin er einhvers staðar uppi á jökli að mæla einhvern fjandann. Og þá rak ég augun í svínarif og ákvað að vera nú verulega notaleg við litla drenginn minn. Honum þykja þau nefnilega dálítið mikið góð. Svo að ég keypti hálfa aðra lengju af rifjum.

_MG_8703

 

 

Þetta var svona 1,7 kg, held ég.

_MG_8705

 

Stundum hef ég rifjalengjurnar bara heilar – og hefði kannski gert það ef þær hefðu verið jafnstórar – en núna hjó ég þær í bita, þessa heilu í fjóra og hina í tvo.

_MG_8706

 

Svo blandaði ég kryddi saman í skál. Mældi nú ekki mjög nákvæmlega en þetta var einhvernveginn svona: 1 msk paprikuduft, 1 msk sinnepsduft, 1 msk púðursykur, 1 tsk lauksalt, 1 tsk hvítlaukssalt, 1 tsk flögusalt, 1/2 tsk chilikrydd. En það má hafa meira eða minna af einhverju af þessu eða nota annað krydd í staðinn.

_MG_8712

 

Svo nuddaði ég öllu kryddinu vel inn í báðar hliðar á kjötbitunum. Kveikti svo á grillinu og lét það hitna vel (lokað).

_MG_8714

 

Svo slökkti ég á brennaranum í miðjunni (þetta er lítið Weber-grill með einum brennara í miðju og öðrum sem liggur allan hringinn í kring) en hafði kveikt á þeim ytri. Raðaði kjötstykkjunum á miðjuna, þar sem enginn eldur var undir, og lét bitana standa upp á rönd og styðja hver við annan (tvo og tvo saman, eða bara eins og hentar). Lokaði grillinu …

_MG_8720

 

… og leit ekki einu sinni á það aftur fyrr en eftir meira en hálftíma, þá opnaði ég það aðeins til að gá hvort ekki væri allt í lagi (og taka mynd). Annars er best að opna grillið sem minnst svo að hitinn rjúki ekki burt.  Hann var einhvers staðar í kringum 200°C mestallan tímann (eða allavega í hvert skipti sem ég leit út um eldhúsgluggann, þaðan blasir hitamælirinn í grilllokinu við).

_MG_8723

 

Lokaði svo grillinu aftur og leit ekki á rifin fyrr en þau voru búin að vera í svona klukkutíma og korter á grillinu en þá voru þau líka tilbúin. Tveir bitanna höfðu reyndar dottið og lagst flatir og voru dálítið brenndir að neðan en það má bara skafa af þeim … Annars má líka hlífa kjötinu með því að setja álpappírsbút undir, ekki of stóran.

_MG_8727

Á meðan hafði ég soðið hrísgrjón og slumpað saman sósu sem var einhvern veginn svona: slatti af tómatsósu, dálítið sætt sinnep, væn skvetta af Frank’s Louisiana Hot Sauce (eða annarri chilisósu),  matskeið af ediki, matskeið af púðursykri, lauksalt, hvítlaukssalt, tvær teskeiðar herbes de provence, vatn eftir þörfum … ég er örugglega að gleyma einhverju en þetta var semsagt slumpasósa. Soðið saman í nokkrar mínútur.

_MG_8747

Þessi sjón gladdi nú litla drenginn minn töluvert.

_MG_8750

Flóknara þarf það nú ekki að vera. En auðvitað má hafa salat eða eitthvað svoleiðis með.

_MG_8751

 

_MG_8762

 

Þetta verður subbulegt borðhald. Maður borðar ekki rif í sparifötunum.

 

Þurrkrydduð grísarif á grillið

1,5-2 kg svínarif

1 msk paprikuduft

1 msk sinnepsduft (Colemans)

1 msk púðursykur

1 tsk lauksalt

1 tsk hvítlaukssalt

1 tsk flögusalt

1/2 tsk chilikrydd

um 1 klst – 1 klst 15 mín. við óbeinan hita á lokuðu grilli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s