Það er svo merkilegt að þótt erfðarannsóknir hafi sýnt að formæður okkar á landnámsöld hafi margar hverjar komið frá Bretlandseyjum virðist það afskaplega lítið hafa skilað sér í áhrifum á íslenska matarmenningu. En eitt af því fáa sem líklega er þaðan komið er neysla á sölvum. Söl voru ekki höfð til matar í Noregi svo vitað sé en þau voru borðuð á Írlandi og hafa verið nýtt á Íslandi frá fornu fari, eins og sjá má í Íslendingasögum og fleiri gömlum ritum.
Söl teljast til rauðþörunga og finnast víða við landuð en mest er um þau við Vestur- og Suðurland. Þau voru í miklum metum áður fyrr og sölvafjörur þóttu mikil verðmæti. Þau hurfu þó að mestu leyti úr fæðu manna á fyrri hluta 20. aldar en hafa svo aftur orðið algengari á síðustu árum.
Söl voru löngum talin lækningajurt og víst er það að þau innihalda mikið af næringarefnum, meðal annars kalsíum, kalíum, magnesíum, sink, járn og ekki síst joð, sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi skjaldkirtilsins.
Sölin má borða eins og þau koma fyrir og þau voru gjarna borðuð með harðfiski og smjöri áður fyrr en þeim var einnig blandað saman við mjöl og þau notuð í grauta og brauð. Þau voru líka soðin í mjólk eða í vatni með smjöri. Nú á tímum eru þau meðal annars notuð í súpur, salöt og jafnvel í pastarétti, svo og í brauð. Það er líka tilvalið að djúpsteikja þau í olíu, þá verða þau brakandi stökk og létt. Svo er hægt að nota þau í eggjakökur, bökur og pottrétti. Oft eru þau snöggsoðin áður en þau eru notuð en það er oftast nóg að leggja þau í bleyti í smástund til að mýkja þau.
Það er líka hægt að rista sölin á þurri pönnu þar til þau eru stökk og mala þau síðan og nota sem nokkurs konar krydd, t.d. til að strá á salöt eða kannski bara á smurt rúgbrauð, ein sér eða með síld eða öðru.
En hér er uppskrift að léttsýrðu grænmeti (grænmetissalati) með sölvum. Grænmetið er skorið í þunnar og mjóar ræmur sem látnar eru liggja í ediksblönduðum kryddlegi nokkra stund, nógu lengi til að fá í sig svolítið súran og frísklegan kryddkeim, og sölin gefa dálítið sjávarbragð. (Reyndar má líka sleppa sölvunum, salatið er ágætt án þeirra, bara dálítið öðruvísi.)
Ég byrjaði á að taka nokkrar (4-5) meðalstórar gulrætur. Flysjaði þær og skar þær svo í frekar þunnar ræmur með grænmetisflysjara. Það er líka hægt að nota ostaskera.
Svo tók ég svona 15 cm langan bút af gúrku, skar hann líka í þunnar sneiðar með flysjaranum og skar svo sneiðarnar í tvennt eftir endilöngu, nema þær mjóstu.
Og svo tók ég 4-5 vorlauka , skar þá í tvennt og síðan í ræmur eftir endilöngu. Setti gulrætur, gúrkur og vorlauk í skál.
Ég setti 3 msk af hvítvínsediki, 1 msk af balsamediki, 2 msk af ólífuolíu, smáklípu af chiliflögum og svolítið af pipar og salti í hristiglas og hristi saman. Svo hellti ég þessu yfir grænmetið, blandaði vel, setti í kæli og lét standa í 1-2 klst.
Ég lét lófafylli af sölvum í kalt vatn í smástund, þar til þau voru orðin mjúk. Þá kreisti ég úr þeim vatnið, skar þau smátt og blandaði saman við grænmetið.
Þetta salat er til dæmis gott t.d. með laxi og öðrum feitum fiski. Ég hef reyndar líka borið það fram með steiktu slátri, það var nokkuð gott …
Léttsýrt grænmeti með sölvum og spírum
4-5 gulrætur, meðalstórar
15 cm bútur af gúrku
4-5 vorlaukar
3 msk hvítvínsedik
1 msk balsamedik
2 msk ólífuolía
klípa af chiliflögum
pipar
salt
lófafylli af sölvum
lófafylli af radísuspírum (má nota aðrar spírur eða sleppa)