Ég er stundum spurð hvort það sé eitthvað sem ég get ekki borðað. Og nú orðið er svarið einfaldlega ,,nei, eiginlega ekki“. Það er eitt og annað sem ég vil síður leggja mér til munns, ýmislegt sem ég sækist ekkert sérstaklega eftir, en ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu sem ég gæti ekki komið ofan í mig með nokkru móti. Engum venjulegum mat, allavega, og hvað mig varðar er hugtakið ,,venjulegur matur“ nokkuð víðtækt.
En í fjöldamörg ár átti ég svar við þessari spurningu. Ég gat ekki borðað reykta ýsu. Samt þótti mér hún góð en ég kom henni ekki inn fyrir mínar varir. Það tengdist ákveðinni minningu frá menntaskólaárunum þar sem reykta ýsan sjálf var reyndar blásaklaus. Hún lenti bara í þessu hlutverki alveg óforvarendis.
Svo tókst mér einhvernveginn að yfirvinna þetta fyrir nokkrum árum, mér til mikillar ánægju, því eins og ég sagði áðan þykir mér reykt ýsa ágæt og oft bara mjög góð. Mín persónulega skoðun er reyndar að það sé í flestum tilvikum hægt að yfirvinna mataróbeit en ég veit að það eru ekki allir sammála því. Allavega, þegar ég var í búð núna í vikunni og vantaði eitthvað í kvöldmatinn handa mér einni kom ég auga á smábita af reyktri ýsu í fiskborðinu og langaði samstundis í hann.
Þetta var stirtlubiti, 185 grömm nánar til tekið – passlegt í kvöldmatinn handa mér og í nesti daginn eftir, en svolítið stærri biti væri fínn í mat fyrir tvo. Ég byrjaði á að roðfletta ýsuna og skera hana í bita. Kveikti svo á ofninum og stillti hann á 200°C því ég var búin að ákveða að gera einhvers konar gratín.
Ég átti spínat og frosin maískorn og ákvað að hafa það í gratíninu. Setti 1 msk af smjöri í pott og bræddi rólega og svo setti ég spínatið og maísinn út í og lét krauma í 1-2 mínútur við fremur vægan hita og hrærði oft á meðan. Malaði líka svolítinn pipar yfir.
Þegar spínatið var farið aö sölna og maísinn þiðnaður tók ég pottinn af hitanum.