Að læra að meta

Ég er stundum spurð hvort það sé eitthvað sem ég get ekki borðað. Og nú orðið er svarið einfaldlega ,,nei, eiginlega ekki“. Það er eitt og annað sem ég vil síður leggja mér til munns, ýmislegt sem ég sækist ekkert sérstaklega eftir, en ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu sem ég gæti ekki komið ofan í mig með nokkru móti. Engum venjulegum mat, allavega, og hvað mig varðar er hugtakið ,,venjulegur matur“ nokkuð víðtækt.

En í fjöldamörg ár átti ég svar við þessari spurningu. Ég gat ekki borðað reykta ýsu. Samt þótti mér hún góð en ég kom henni ekki inn fyrir mínar varir. Það tengdist ákveðinni minningu frá menntaskólaárunum þar sem reykta ýsan sjálf var reyndar blásaklaus. Hún lenti bara í þessu hlutverki alveg óforvarendis.

Svo tókst mér einhvernveginn að yfirvinna þetta fyrir nokkrum árum, mér til mikillar ánægju, því eins og ég sagði áðan þykir mér reykt ýsa ágæt og oft bara mjög góð. Mín persónulega skoðun er reyndar að það sé í flestum tilvikum hægt að yfirvinna mataróbeit en ég veit að það eru ekki allir sammála því. Allavega, þegar ég var í búð núna í vikunni og vantaði eitthvað í kvöldmatinn handa mér einni kom ég auga á smábita af reyktri ýsu í fiskborðinu og langaði samstundis í hann.

_MG_8910

 

Þetta var stirtlubiti, 185 grömm nánar til tekið – passlegt í kvöldmatinn handa mér og í nesti daginn eftir, en svolítið stærri biti væri fínn í mat fyrir tvo. Ég byrjaði á að roðfletta ýsuna og skera hana í bita. Kveikti svo á ofninum og stillti hann á 200°C því ég var búin að ákveða að gera einhvers konar gratín.

_MG_8914

 

Ég átti spínat og frosin maískorn og ákvað að hafa það í gratíninu. Setti 1 msk af smjöri í pott og bræddi rólega og svo setti ég spínatið og maísinn út í og lét krauma í 1-2 mínútur við fremur vægan hita og hrærði oft á meðan. Malaði líka svolítinn pipar yfir.

_MG_8916

Þegar spínatið var farið aö sölna og maísinn þiðnaður tók ég pottinn af hitanum.

_MG_8918
Ég ætlaði upphaflega að baka gratínið í litlu eldföstu móti en svo mundi ég eftir þessum litlu krúttlegu leirpottum sem ég eignaðist um daginn svo að ég smurði þá með dálitlu smjöri og skipti spínatinu og maísnum jafnt á þá. En það er auðvitað líka hægt að nota bara eitt form.
_MG_8919
Svo raðaði ég bitum af reyktri ýsu ofan á.
_MG_8922
Ég hafði ætlað mér að hella 36% sýrðum rjóma, e.t.v. þynntum með örlitlum rjóma eða mjólk, yfir fiskinn en þegar ég skrapp í Bónus rétt fyrir lokun var 36% rjóminn búinn. Svo að í staðinn ákvað ég að nota blöndu af rjóma og grískri jógúrt. 100 ml af rjóma og álíka eða aðeins minna af jógúrt, en eftir á að hyggja var þetta ívið of mikill vökvi – fjórar matskeiðar (60 ml) eða svo af hvoru hefðu verið hæfilegt. Ég hrærði þetta vel saman og kryddaði með pipar.
_MG_8925
Svo hellti ég blöndunni yfir fiskinn.
_MG_8933
Að lokum reif ég 3-4 msk af parmesanosti og blandaði saman við 2-3 msk af raspi. Ég notaði pankorasp en það má nota venjulegt brauðrasp. Stráði þessu jafnt yfir.
_MG_8937
Ég setti svo pottana á plötu, stakk henni í ofninn og bakaði í um 20 mínútur. Tíminn fer svolítið eftir stærð og lögun formsins/formanna; ef notað er eitt form, ekki mjög djúpt, gætu 15 mínútur dugað.
_MG_8955
Með þessu er nóg að hafa bara grænt salat og kannski brauð.
_MG_8964
Kannski ívið of þunnt og þess vegna mundi ég minnka vökvann svolítið (og gef upp lægri tölu í hráefnislistanum hér á eftir en ég notaði) en að öðru leyti mjög gott.
_MG_8974
Nei, ég sé nú ekkert eftir því að hafa lært að meta reykta ýsu á ný.
 *
Gratíneruð reykt ýsa með spínati og maís
(fyrir 1-2)
175-250 g reykt ýsa
100 g spínat
100 g frosið maískorn (eða niðursoðið)
1 msk smjör, og meira til að smyrja formið/formin
nýmalaður pipar
4 msk (60 ml) rjómi (eða mjólk)
4 msk grísk jógúrt
3-4 msk nýrifinn parmesanostur
2-3 msk rasp (ég notaði panko)
15-20 mínútur við 200°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s