Það þarf ekkert að vera súpa …

Ég var með gesti í mat í gær og bauð þeim aðallega upp á mat úr frystiskápnum. Nema grænmetið reyndar, það var nýkeypt. Þetta var eiginlega ekki planað fyrirfram, það bara vildi svo til að allt sem mér datt í hug að hafa á boðstólum átti ég einmitt til … Frystiskápurinn minn er líka ein af þessum ótæmandi hirslum sem er stundum svolítið eins og veskið hennar Mary Poppins. En nú er farið að liggja á að affrysta skápinn svo ég verð að tæma hann og kemst þá að því nákvæmlega hvað er þar að finna. Kannski.

Fyrir matinn bauð ég upp á litlar flatbrauðssnittur með gæsalifrarkæfu og margreyktu hráu hangikjöti frá Djúpadal, hvorttveggja fundið í frystinum. Forrétturinn var humarsalat, aðalrétturinn andalæri með kartöflum, nípum og sellerírót steiktum í andafeiti. Ég ætla ekkert að koma með uppskrift að því þar sem andalærin voru mjög svipuð þessu hér, nema hvað ég steikti kartöflurnar og grænmetið sér. Og eftirrétturinn var nú bararabarbaragrautur, að vísu með bláberjum út í, og rjómabland með.  En ég ætla að setja humarsalatið hér.

Ég átti semsagt kíló af smáum súpuhumri í frystiskápnum. Var fyrst að hugsa um að gera súpu en langaði svo meira í eitthvað allt annað, það er ekki skylda að elda súpu þótt þetta sé kallað súpuhumar …. Tók hann út og lét þiðna og svo skelfletti ég humarinn og hreinsaði hann. Það tók smástund því þetta voru ansi hreint margir humrar.

_MG_8987

 

Ég setti 2 msk af ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnu og hitaði. Saxaði 2 hvítlauksgeira og blöðin af einni rósmaríngrein smátt (það má nota aðrar kryddjurtir eða sleppa), setti út á og steikti í svona 1 mínútu.

_MG_8994

Svo setti ég helminginn af humrinum á pönnuna (má setja allt ef hún er stór en það borgar sig ekki að vera með of mikið á pönnunni í einu).

_MG_8998

 

Ég steikti humarinn við háan hita í svona 2 mínútur og hrærði oft á meðan. Kryddaði með pipar og salti.

_MG_8991

 

Svo tók ég hann af pönnunni með gataspaða og setti á disk. Ætlaði fyrst að setja hann á eldhúspappír og láta renna af honum en áttaði mig svo á að auðvitað vildi ég ekki að safinn/soðið sem rennur af honum færi til spillis. Svo að ég setti hann alltsvo á djúpan disk. Steikti svo afganginn af humrinum og setti hann líka á diskinn. Það má bæta við svolitlu smjöri eða olíu ef þarf.

_MG_9004

 

Svo hellti ég svona 4 msk af hvítvíni á pönnuna. Þetta var vínið sem var svo drukkið með forréttinum en ef maður á ekki hvítvín má líka nota vatn með smákreistu af sítrónusafa. Lét þetta sjóða aðeins, hellti svo því sem runnið hafði af humrinum á pönnuna og lét sjóða þar til 3-4 msk af vökva voru eftir. Hellti því svo af pönnunni og lét kólna ögn.

_MG_9005

 

Á meðan setti ég litla lófafylli af spínati og sama af steinselju í matvinnsluvél ásamt 2 hvítlauksgeirum og saxaði í mauk.

_MG_9008

 

Hellti svo soðinu smátt og smátt út í og þeytti vel saman.

_MG_9010

 

Og endaði á að bæta við svona 2 msk af furuhnetum og mala þær saman við. Ef sósan er mjög þykk má þynna hana aðeins með því að þeyta svolitlu köldu vatni saman við.

Ég var líka búin að sjóða 100 g af sykurbaunum í léttsöltuðu vatni í 2 mínútur og kæla og svo flysjaði ég hálft mangó og skar í litla bita og skar nokkra litla kirsiberjatómata í tvennt og 3-4 radísur í þunnar sneiðar.

_MG_9015

Ég tók stóra, svarta steinflís sem ég á (en það má líka nota fat eða bakka) og stráði svona tveimur lúkum af blönduðum salatblöðum á hana. Dreifði sykurbaununum yfir salatið og svo humrinum yfir baunirnar. Síðan dreifði ég tómötum, radísum og mangóbitum yfir, ásamt ögn af grófsaxaðri steinselju og 1-2 msk af graskersfræjum.

_MG_9020 - Version 2

 

Að lokum dreypti ég dálitlu af sósunni yfir og setti afganginn í skál og bar fram með, ásamt snittubrauði.

Þetta var bara alveg ágætt.

*

Humarsalat

fyrir 6-8

1 kg súpuhumar í skel

2 msk ólífuolía

2 msk smjör

2 hvítlauksgeirar

1 rósmaríngrein

pipar

salt

4 msk þurrt hvítvín

100-150 g blönduð salatblöð

100 g sykurbaunir

75 g litlir kirsiberjatómatar

1/2 mangó, vel þroskað

3-4 radísur

1-2 msk graskersfræ

e. t.v. svolítil steinselja

 

Steinselju-spínatsósa

lófafylli af spínati

lófafylli af steinselju

2 hvítlauksgeirar

4 msk soð af pönnunni

2 msk furuhnetur

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s