Lítið og nett á indverskum nótum

Ég hef oft nefnt að stærsta vandamálið í eldamennskunni fyrir einbúa eins og mig er ekki matreiðslan sjálf (matreiðsla er reyndar yfirleitt ekki neitt vandamál fyrir mig en ég er nú að tala meira svona almennt), heldur innkaupin.  Þetta er auðvitað mjög misjafnt, til dæmis er yfirleitt ekkert mál fyrir mig að kaupa fiskbita sem hentar mér einni og  sama er með sumt kjöt -allavega ef maður fer í búð sem er með kjötborð – en það er ekki hægt að kaupa eina kjúklingabringu og oft ekki einu sinni tvær svo að ef ég er ein í mat og langar í kjúklingabringu þarf ég annaðhvort að plana þrjá ólíka kjúklingabringurétti sem ég get eldað dag eftir dag eða frysta eina eða tvær af bringunum, sem ég vil nú síður gera.

Stærri kjötstykki kaupir maður ekki nema þegar von er á mörgum í mat. Ég til dæmis kaupi yfirleitt ekki lambalæri nema ég sé að fá lágmark fjóra gesti. Stundum er reyndar hægt að fá hálft læri og svo má kaupa bóg. En það er nú alltaf skemmtilegast að elda heilt læri, finnst mér, og á dögunum rakst ég á læri í Bónus sem var ekki nema 1470 grömm og keypti það samstundis; sá að það væri akkúrat passlegt fyrir þrjá (eða jafnvel fjóra, en mitt fólk tekur oft hraustlega til matar síns). Og svo bauð ég syninum og tengdadótturinni í mat.

_MG_9024Það var semsagt ósköp lítið. Ég man eftir litlum lærum þegar sumrungum var slátrað í sveitinni í gamla daga en þau voru oft óttalega mögur og rýr, minnir mig. Þetta var það nú ekki..

_MG_9027

 

Það var nú alveg veður til að grilla en mig ekki í alveg hefðbundið grillað læri svo að ég ákvað að gera eitthvað semí-indverskt. Svona 2-3 klst. áður en ég ætlaði að setja það á grillið tók ég það úr kæli og náði svo í gríska jógúrt, svona 100 g, 2 væna hvítlauksgeira, 1 tsk af timjani, 1 tsk af kummini, 2 tsk af kóríanderfræi, 2 tsk af flögusalti, 1 tsk af svörtum pipar, 1/4 tsk af chilikryddi – já, og 3 msk af olíu, sem ekki eru á myndinni.

_MG_9030Ég setti svo hvítlaukinn og allt kryddið í skálina með jógúrtinni og hrærði vel saman.

_MG_9032Og hrærði svo olíunni saman við, þar til þetta var orðið að (nokkurn veginn) sléttu mauki.

_MG_9035Ég smurði þykku lagi af maukinu jafnt á allar hliðar lærisins með sleikju og lét það svo standa við stofuhita í svona tvo tíma eða rúmlega það – svo má líka láta það standa í kæli í allt upp í sólarhring en taka það þá út 1-2 klst. áður en á að grilla það.

_MG_9044Ég kveikti svo á grillinu og hafði það lokað. Þegar það var orðið vel heitt slökkti ég á brennaranum í miðjunni og setti lærið þar. Ég setti mjóa ræmu af álpappír (brotnum tvö- eða þreföldum) undir, bæði til að hlífa kjötinu og ekki síður til að auðvelda þrifin á grillinu því annars brennur jógúrtmaukið verulega fast …

_MG_9057Svo lokaði ég grillinu og lét lærið vera óhreyft í svona 50 mínútur (en tíminn fer eftir aðstæðum og hita á grillinu, eftir því hvað maður vill hafa kjötið mikið steikt (ég vil hafa það vel bleikt) og auðvitað eftir því hvað það er stórt því það er náttúrlega hægt að nota þessa uppskrift fyrir mun stærri læri.

Ég fór svo með lærið inn og lét það standa á hlýjum stað á meðan ég lauk við sósuna og meðlætið.

_MG_9046Ég gerði bara mjög einfalda karrísósu: Ég hitaði svolitla olíu í potti, saxaði lítinn lauk smátt og lét hann krauma í nokkra mínútur. Setti svo kúfaða teskeið af gulu taílensku karrímauki út í og hrærði vel og lét rauma aðeins.

_MG_9048Svo opnaði ég eina dós af kókosmjólk, hrærði saman við og lét malla í svona 10 mínútur. Bragðbætti með salti og pipar eftir smekk. Og smávegis sítrónusafa.

_MG_9051Ég var búin að sjóða hrísgrjón og svo saxaði ég nokkur grænkálsblöð gróft (skar sverasta hlutann af stilknum úr þeim fyrst). Bræddi 1 msk af smjöri á pönnu og lét grænkálið krauma smástund við fremur vægan hita.

_MG_9053Svo opnaði ég eina dós af smjörbaunum, lét renna af þeim í sigti og setti þær svo á pönnuna með grænkálinu. Hrærði oft og lét krauma áfram þar til baunirnar voru orðnar heitar og grænkálið farið að mýkjast. Kryddaði með pipar og dálitlu salti.

_MG_9075Svo blandaði ég soðnu hrísgrjónunum saman við, hellti öllu í skál og stráði ögn af þurrkaðri steinselju yfir. En það var nú bara uppá punt.

_MG_9067Nei, stórt er það nú ekki. En alveg ljómandi gott. Og passaði handa okkur þremur – reyndar dálítill afgangur sem ég notaði auðvitað í annan rétt daginn eftir, en meira um það seinna.

(Engin mynd af lærinu niðurskornu á diski því það voru allir orðnir svangir.)

*

Grillað lambalæri á indverskum nótum

1 lítið lambalæri

2 vænir hvítlauksgeirar

1 tsk timjan

1 tsk kummin

2 tsk kóríanderfræ, grófsteytt

1 tsk piparkorn

2 tsk flögusalt

1/4 tsk chilikrydd

3 msk olía

*

Karrísósa

1 tsk olía

1 lítill laukur, saxaður

1 kúfuð tsk gult karrímauk

1 dós (400 ml) kókosmjólk

pipar

salt

e.t.v. svolítill sítrónusafi

*

Hrísgrjón með grænkáli og smjörbaunum

200 g hrísgrjón

salt

nokkur grænkálsblöð

1 msk smjör

1 dós smjörbaunir

pipar

e.t.v. þurrkuð steinselja

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s