Ég ætlaði eiginlega að setja aðra uppskrift núna en svo er nú þokkalegasta veðurspá fyrir helgina, að minnsta kosti hér á suðvesturhorninu, svo að kannski fara einhverjir í pikknikk eða bústað og vantar nesti. Svo að hér er uppskrift sem ég var með í júlíblaði MAN, þar sem þemað var einmitt nesti.
Fyrir 15-20 árum eða svo fannst mér ég alltaf vera að rekast á myndir af holuðu, fylltu brauði í matreiðslublöðum og ég gerði þau líka stundum sjálf á þeim árum. Svo hafa þau líklega dottið úr tísku, að minnsta kosti hef ég ekki séð þau lengi. Þetta er hins vegar frábær hugmynd sem er alveg þess virði að nýta – svona brauð tekur sig til dæmis vel út á pikknikkborði eða þegar sest er við hádegissnarl á veröndinni í bústaðnum. Það er auðvitað best sama dag og það er gert en geymist líka vel til næsta dags í kæli, helst í bréfpoka.
Fyllingin getur verið hvaða álegg sem er (og helst sem fjölbreyttast) – eða hvað sem þú gætir hugsað þér að hafa saman í samloku eða á brauðsneið. Hér mætti hafa alls konar kjötálegg og pylsur, kjúkling, papriku, gúrkur, grillað grænmeti, ost – nú, eða reyktan eða ferskan lax eða annan fisk, harðsoðin egg og ótalmargt annað.
Ég notaði súrdeigsbrauð úr Sandholtsbakaríi en í sjálfu sér er hægt að nota hvaða brauð sem er, svo framarlega sem það er sporöskjulaga eða kringlótt. Magnið af áleggi er það sem ég notaði en það má minnka eða auka það eftir stærð brauðsins.
Ég byrjaði á að skera brauðið í tvennt eftir endilöngu, nokkuð fyrir ofan miðju. Svo skar ég hring, 1-2 cm fyrir innan skorpuna, og holaði brauðið að innan.
Ég gerði svo eins við efri hlutann. Innmatinn má t.d. frysta og nota í brauðrétt seinna eða þurrka og búa til rasp.
Ég setti svo neðri hluta brauðsins á vinnuborð. Tók lófafylli af salatblöðum og dreifðu á botninn. Svo skar ég tómatana í sneiðar og dreifði helmingnum yfir salatið. Dreypti síða 1 msk af ólífuolíu yfir og kryddaði með pipar og salti.
Ég setti svo hitt áleggið ofan á í lögum: lárperu í sneiðum, basilíkublöð …
… skinku, ólífur í sneiðum, saxaðan vorlauk, annað lag af tómötum krydduðum með ólífuolíu, pipar og salti …
… og loks meira salat. Þetta er það sem er í brauðinu á myndinni en það má hafa hvaða álegg sem mann langar í og í þeirri röð sem manni sýnist brauðið þarf bara að vera fullt og góður kúfur upp úr því.
Svo lagði ég lokið ofan á, batt borða eða seglgarn utan um til að halda lokinu föstu, vafði viskastykki (eða pappír) um brauðið og þá er það tilbúið að taka með með í lautarferðina.
Mundu bara að hafa brauðbretti og góðan brauðhníf meðferðis.
*
Fyllt nestisbrauð
1 brauð, ekki mjög lítið
salatblöð
3-4 vel þroskaðir tómatar
2 msk ólífuolía
nýmalaður pipar
salt
1 lárpera, vel þroskuð
½ knippi basilíkublöð
150 g skinka
nokkrar ólífur
1-2 vorlaukar
omg hvaða brauð er þetta???
Súrdeigsbrauð frá Sandholt. Rándýrt reyndar en hentaði mjög vel í þetta. En það má nota hvaða gott brauð sem er.