Afgangslæri

Maður á aldrei of margar uppskriftir að kjúklingalærum. Finnst mér allavega. Þau eru bragðmeiri  – og yfirleitt bragðbetri – en bringurnar, safaríkari og það eru miklu minni líkur á að þau verði þurr. Og svo eru þau ódýrari. Jú, það eru bein í þeim (nema þau hafi verið úrbeinuð og þá eru þau ekkert ódýrari en bringurnar og heldur ekki eins safarík) en það ætti nú ekki að trufla neitt að ráði.

Ég eldaði kjúklingapaellu handa fjölskyldunni á sunnudagskvöldið eins og ég hef áður nefnt og hún var alveg ljómandi góð. En ég hafði keypt of mörg læri því að ég vissi ekki alveg hvort dóttursonurinn og kærasti dótturdótturinnar kæmu í mat; báðir eru töluverðir matmenn. Var samt búin að komast að því áður en ég byrjaði að elda matinn að annar kæmi örugglega ekki og tók því tvö kjúklingalæri úr pakkanum og setti aftur í ísskápinn til að elda seinna. (Hinn kom svo ekki heldur þannig að það voru afgangar af paellunni sem dugðu mér í nestið tvo daga í röð.)

_MG_8144

En ég átti semsagt þessi tvö læri sem ég eldaði í fyrrakvöld – þau voru fremur lítil og því passlegur skammtur fyrir einn. En þetta er þannig uppskrift að það er ekkert mál að stækka hana, maður býr bara til meira af kryddleginum/sósunni. Ég ákvað að maka sinnepskryddlegi á lærin og ofnsteikja þau.

Ég byrjaði á að krydda þau vel með pipar og salti. Svo hrærði ég saman í skál 1 msk af ólífuolíu, 1 msk af dijonsinnepi, 1 msk af sætu sinnepi, 2 pressuðum hvítlauksgeirum, svolitlum sítrónusafa og chiliflögum á hnífsoddi. Hellti 1 msk af olíu í lítið eldfast mót, makaði kjúklingalærin vel í sinnepsleginum og setti þau í mótið og skóf afganginn úr skálinni yfir.

Ég var búin að hita ofninn í 215°C og setti nú mótið í hann og steikti lærin í um 35 mínútur (ef þau virðast ætla að dökkna um of má breiða álpappír lauslega yfir). Svo tók ég þau út, setti á fat eða disk og lét standa í nokkrar mínútur undir álpappír. Ég hellti svo leginum úr fatinu (nema því sem var brunnið fast) yfir, strái ögn af söxuðum kóríander eða steinselju yfir (ekki nauðsynlegt, það er bara uppá útlitið) og bar fram með salati (en það má auðvitað líka vera með hrísgrjón, bakað grænmeti eða eitthvað annað.

Salatið er blanda af salatblöðum sem ég rækta á svölunum og flysjuðum og kjarnhreinsuðum perum, skornum í geira.

Afbragðsgott, nema maður sé ekkert fyrir sinnep.

Ofnsteiktur sinnepskjúklingur

2 kjúklingalæri

pipar og salt

2 msk ólífuolía

1 msk dijonsinnep

1 msk sætt sinnep

2 hvítlauksgeirar

safi úr einum sítrónubát.

chiliflögur á hnífsoddi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s