Eitthvað gult (nei, ekki sólin)

Túrmerik barst i tal i vinnunni i dag og þess vegna ætla ég að setja hér inn pistil um þetta ágæta krydd sem ég skrifaði og birti i MAN i vor. Og svo fylgir nátturlega grilluppskrift sem á að minna á solina – þið vitið, þetta gula þarna sem maður sá stundum á himninum hér á árum áður.

Túrmerik er allt í einu orðið að tískubylgju, allar heilsusíður eru uppfullar af lofgjörðum um það og upptalningum á alls konar lækninga- og heilsubætandi áhrifum þess. Ekki efast ég um að ýmislegt sé til í því, það hefur lengi verið talið til heilsubótarjurta í Indlandi og víðar og vísindarannsóknir hafa leitt í ljós að túrmerik – eða öllu heldur kúrkúmín og fleiri efni sem það inniheldur – virðast geta haft jákvæð áhrif á ýmsa sjúkdóma og almennt heilsufar. En ef allt væri rétt sem fullyrt er um lækningaáhrif túrmeriks væru Indverjar líklega með heilsuhraustasta og langlífasta fólki í heimi því þar er túrmerikneysla mjög mikil, um hálf teskeið á mann á dag.

Burtséð frá heilsubótaráhrifum, þá er túrmerik eitt algengasta krydd í heimi og hefur verið notað í matargerð á Indlandsskaga í a.m.k. 4500 ár og er enn mjög mikið notað þar og í allri Suður- og Suðaustur-Asíu. Guli liturinn er þar víða talinn heilagur eða er tákn um hátíð og gleði. Notkun þess barst einnig til vesturs, til arabalanda, og á nýlendutímanum tóku Bretar það upp á sína arma og notuðu í karríblöndur, sem einmitt hafa gula litinn frá túrmeriki.

Túrmerik er rót jurtar sem er skyld engifer. Rótin er ýmist notuð fersk eða hún er soðin, þurrkuð og möluð. Nú er hægt að fá ferska túrmerikrót en annars er langalgengast að nota duftið. Rétt er að hafa í huga að duftið og þó enn frekar ferska túrmerikið er afar litsterkt og getur litað hendur, föt, vinnuborð og annað heiðgult og það getur verið erfitt að ná blettunum úr. Notið endilega hanska þegar þið meðhöndlið ferskt túrmerik.

Túrmerikduft er til dæmis hægt að nota í alls konar indverska rétti en einnig í margar súpur, sósur, maríneringar, kjöt- og fiskrétti og ótalmargt annað. Til dæmis má gera sér túrmerik-te úr engifer- og túrmerikdufti, hunangi, sítrónusafa og heitu vatni og baka fagurgular kökur og smákökur með túrmeriki. Ferskt túrmerik þarf að flysja og rífa það síðan eða saxa smátt og strá því t.d. yfir salöt eða nota í drykki og fleira.

Túrmerik getur verið dálítið rammt þótt bragðið mildist við eldun og verður stundum yfirþyrmandi ef mikið er notað af því. Það er betra að nota lítið af því í marga rétti en mikið í einn.

Tvær kunningjakonur mínar, matreiðslubókahöfundarnir Helen Saberi og Colleen Taylor Sen (sem ég hitti einmitt báðar i Oxford á dögunum), sem eru sérfróðar um afganska og indverska matargerð, hafa skrifað saman rafbókina Turmeric – The Wonder Spice, sem ég held ég hafi nefnt hér áður og hefur að geyma fróðleik um túrmerik og uppskriftir. Þessi uppskrift er að mestu fengin frá þeim, með smábreytingum.

_MG_2910

Eg var með 750 g af skötusel (þetta er fyrir fjóra) og byrjaði a að snyrta hann og skera burt allar himnur. Svo skar ég hann í stóra bita, 4-5 cm á kant.

_MG_2903

Ég setti 200 g af grísk jógúrt, 1 msk af smátt saxaðri engiferrót, 2 smátt saxaða hvitlauksgeira, 1 1/2 tsk af túrmeriki, 1 tsk af kummini, 1 tsk af möluðum kóríanderfræjum, 1/4 tsk af ciliflögum, pipar og salt  í skál og blandaði vel.

_MG_2916

Setti svo fiskinn út í, blandaði vel og lét standa í um 2 klst. (þarf að standa i a.m.k 1 klst., gjarna mun lengur).

_MG_3016

Eg hitaði svo grillið og penslaði grindina vel með oliu. Tok fiskbitana úr kryddleginum og þræddi þá upp á teina, 3-4 á hvern og dreypti oliu yfir. Grillaði skötuselinn í 8-12 mínútur eftir stærð bitanna, eða þar til hann er rétt eldaður í gegn. Sneri honum tvisvar eða þrisvar.

A meðan setti ég afganginn af kryddleginum í lítinn pott, bætti við svolitlu vatni og hitaði rólega. Let malla í nokkrar mínútur og hrærði oft á meðan. Sósan gæti skilið sig svolítið en það er allt í lagi, þá er bara að hræra hana saman.

_MG_3042

 

Eg bar svo skötuselinn fram með sósunni (dreypti  dálitlu af henni yfir og bar afganginn fram með), ásamt til dæmis soðnum eða steiktum kartöflum, eða soðnum hrísgrjónum.

_MG_3066

Grillaður skötuselur með túrmerik-jógúrtsósu

Fyrir 4

 

750 g skötuselur

200 g grísk jógúrt

1 msk engiferrót, söxuð smátt

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1½ tsk túrmerik

1 tsk kummin

1 tsk kóríanderfræ, möluð

¼ tsk chiliflögur, eða eftir smekk

pipar

salt

olía

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s