Kirsiber og möndlur

Ég átti erindi í Kringluna í gær og kom svo við í Hagkaupum að kaupa í matinn. Og þegar ég var í ávaxtadeildinni rak ég augun í þessi girnilegu kirsiber og féll fyrir þeim. Keypti tæplega hálft kíló. Þau voru ekkert ódýr svosem en það eru kirsiber reyndar aldrei. En þeirra tími er núna. Og mér þykja þau góð.

(NB: Ég skrifa alltaf kirsiber. Það er miklu fallegra en kirsuber, finnst mér. Og eldra í íslensku, minnir mig.)

Svo þegar heim kom fór ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera úr kirisberjunum. Það fyrsta sem mér datt í hug var clafoutis en um það hef ég nú skrifað hér áður svo ákvað ég að gera frekar böku – reyndar hálfgert clafoutis í bökuformi en ætli ég kalli þetta ekki frangipane – eða líklega annars best að sleppa frönskunni alveg. Ég kann svo lítið í henni hvort eð er. Þetta er bara kirsiberja-möndlubaka.

_MG_8233

 

Ljómandi lagleg kirsiber, alltsvo, mismunandi rauð á litinn. Ég lét nægja að kippa stilkunum af þeim, var ekkert að taka steinana úr. Ég á sérstakt tól til að steinhreinsa kirsiber en steinarnir gefa bragð í bökuna (sama með clafoutis og þess háttar) svo ég vildi hafa þá. En ef maður vill steinlausa böku má auðvitað steinhreinsa berin ef maður nennir.

_MG_8203

 

Ég setti 100 g af heilum möndlum í matvinnsluvélina …

_MG_8205

 

… og lét hana ganga þar til möndlurnar voru fínmalaðar. Ekki alveg í duft kannski, en býsna fínmalaðar samt. Hellti svo möndlumjölinu í skál.

_MG_8212

Svo vigtaði ég 200 g af hveiti og 50 g af möndlumjölinu og setti í matvinnsluvélina, ásamt 120 g af köldu smjöri, skornu í smábita, 3 msk af sykri og svolitlu salti. Lét vélina ganga þar til allt var orðið að fíngerðri mylsnu og bætti svo ísköldu vatni út í smátt og smátt (líklega svona 1 1/2 msk í allt) þar til auðvelt var að hnoða deigið saman og hægt að fletja það út en það var þó fremur lint og meðfærilegt, alls ekki þurrt eða stíft.

_MG_8218

 

Ég flatti það út á hveitistráðu borði í hring, nægilega stóran til að þekja meðalstórt bökumót – bæði botninn og hliðarnar – vafði deiginu gætilega utan um kökukeflið, lyfti því og lagði yfir formið.

_MG_8225

Ég þrýsti deiginu (ekki mjög fast) upp með hliðunum á forminu og snyrti brúnirnar með hníf. Ef kanturinn er þunnur eða rifinn einhvers staðar má nota afskurðinn til að bæta hann. Svo kældi ég deigið í hálftíma (eða lengur; en ef maður er að flýta sér má líka setja það í frysti smástund).

_MG_8245

Ég hitaði á meðan ofninn í 175°C og fór svo að gera fyllinguna. Setti í skál 2 egg, 4 msk af rjóma, 3 msk af sykri, 4 msk af möndlumjölinu, 1 msk af hveiti og 1 tsk af vanilluessens.

_MG_8246

Ég þeytti þetta vel saman.

_MG_8251

Ég náði svo í bökuskelina, dreifði kirsiberjunum í hana og hellti fyllingunni yfir.

_MG_8254

 

Að lokum stráði ég afganginum af möndlumjölinu (minnir að það hafi verið svona 3 matskeiðar) jafnt yfir, setti bökuna á næstneðstu rim í ofninum og bakaði bökuna í um 35 mínútur, eða þar til hún hafði tekið fallegan lit og fyllingin var stífnuð og berin mjúk.

_MG_8271

Ég lét hana kólna að mestu í forminu og losaði hana svo gætilega úr því (hér er afar mikill kostur að nota lausbotna bökuform) og setti hana á disk.

_MG_8296

 

Mér finnst bakan best örlítið volg eða við stofuhita, ekki köld.

_MG_8285

 

Og litbrigðin í kirsiberjunum koma skemmtilega út. Að ekki sé nú talað um bragðið …

 

Kirsiberja-möndlubaka

Bökuskelin:

200 g hveiti

50 g nýmalaðar möndlur

120 g smjör, ískalt

3 msk sykur

örlítið salt

ískalt vatn eftir þörfum

 

Fyllingin:

400-500 g kirsiber

2 egg

4 msk rjómi

3 msk sykur

50 g nýmalaðar möndlur

1 msk hveiti

1 tsk vanilluessens

 

175°C í 35-40 mínútur

One comment

  1. Vildi bara kvitta fyrir innlitið, gaman að lesa nýjustu færslurnar! Sit einmitt með böku sjálf, key lime jógúrtböku sem 5 ára systursonur minn útbjó handa okkur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s