Æ, í svona rigningatíð er ég oft ekki í miklu eldunarstuði. Allavega ekki til að elda fyrir mig eina – mér finnst að þetta sé veður fyrir pottrétti, matarmiklar súpur og eitthvað slíkt og það borgar sig sjaldan að gera í smærri skömmtum. Auðvitað er hægt að frysta hluta en það vill svo til að frystiskápurinn minn er fullur (já, nú þarf ég að fara að grisja hann einu sinni sem oftar). Svo að líklega útbý ég mér eitthvert gott salat á eftir og baka kannski brauð. Eitthvað sem verður spilað af fingrum fram en svo líkt einhverju sem ég hef sett hér inn áður að ég fer ekkert að setja inn uppskrift að því.
En á meðan er hér uppskrift sem hefði kannski bara átt að fylgja sætkartöfluklötunum í gær, gerði þetta allavega samhliða og myndaði saman. Þetta er semsagt fingurfæði/pinnamatur en gæti reyndar alveg eins verið forréttur, eða þá aðalréttur með góðu salat eða snöggsteiktu grænmeti og ídýfu, til dæmis sætri chilitómatsósu. Þá eru rækjurnar bornar fram heitar en ef þær eru fingrafæði má hafa þær hvort heldur er heitar eða kaldar. Þá má stinga tannstöngli í hverja rækju en það er líka hægt að setja hverja rækju á stórt spínatblað eða lítið salatblað og bera fram þannig, þá þarf engan tannstöngul eða gaffal.
Reyndar held ég að þessar rækjur geti alveg átt við í rigningu og það er alveg hægt að gera bara lítinn skammt – 8 -10 rækjur – ef manni sýnist svo.
Ég tók af einhverri ástæðu engar myndir af matartilbúningnum en hráefnið var 500 g tígrisrækjur, hráar (ætli það séu ekki svona 25-30 rækjur), 200 g kókosmjöl, 100 g hrísmjöl (venjulegt Pama, bara), 2 stór egg (eða 3 minni), chilipipar á hnífsoddi, nýmalaður pipar, salt og olía til steikingar.
Ég byrjaði á að láta rækjurnar þiðna alveg og skelfletti þær. Blandaði svo hrísmjöli, chilipipar, pipar og salti saman í skál, braut eggin í aðra skál og hrærði þau saman og setti dálítið kókosmjöl í þá þriðju (best að setja ekki allt strax, heldur bæta bara við eftir þörfum).
Svo hitaði ég olíu í víðum potti (eða á pönnu) – hún þarf að vera a.m.k. 4 cm djúp. Velti rækjunum vel upp úr kryddaða hrísmjölinu, síðan úr eggjunum og loks úr kókosmjölinu. Prófaði svo olíuna með því að setja brauðbita út í; ef bullsýður í kringum hann er olían orðin nógu heit. Setti 8-10 kókosþaktar rækjur út í olíuna í einu og steikti þær við góðan hita í 1-2 mínútur; sneri þeim einu sinni og fylgdist vel með, kókosmjölið er fljótt að brenna.
Þegar rækjurnar voru orðnar fallega gullinbrúnar tók ég þær upp með gataspaða og lét renna af þeim á eldhúspappír. Steikti svo næsta skammt. Ef bera á rækjurnar fram heitar er gott að stinga þeim í 100°C heitan ofn á meðan lokið er við að steikja allt saman.
Rækjurnar má semsagt bera fram heitar, volgar eða kaldar, gjarna með sætri chilisósu eða einhverri góðri ídýfu.
Kókosrækjur
500 g tígrisrækjur, hráar
100 g hrísmjöl
chilipipar á hnífsoddi
nýmalaður pipar
salt
2-3 egg
200 g kókosmjöl, eða eftir þörfum
olía til steikingar