Ég var semsagt á árlegri matarráðstefnu í Oxford, þar sem koma saman fræðimenn, matreiðslubókahöfundar og bara almennir matarnördar víða að úr heiminum og flytja og hlusta á erindi tengd mat á einn eða annan hátt. Hver ráðstefna hefur ákveðið þema og þemað 2014 var Matur og markaðir – þetta er hins vegar mjög teygjanlegt og því fór fjarri að þarna væri bara verið að lýsa einum matarmarkaðnum af öðrum. En þarna var bæði fjallað um 3000 ára gamla markaði á grísku eyjunum og matarmarkaðinn í Hollywood. Og allt þar á milli, til dæmis vændismarkaðinn í London á 18. öld …
Á þessari ráðstefnu eru haldnar miklar veislur, einar fjórar alls, sem tengjast á einhvern hátt þemanu og oft einnig tilteknum löndum, og oft eru það þekktir breskir kokkar sem sjá um matseldina. Á föstdagskvöldið var það til dæmis Allegra McEverdy, einn stofnenda Leon og matreiðslubókahöfundur, sem bar fram rétti tengda nokkrum frægum matarmörkuðum – mikið af fersku grænmeti, svínakjötssamlokur, stökksteikt svínseyru og fleira. Á laugardaginn var sovéskur hádegisverður, valinn af Anyu von Bremzen, höfundi Mastering the Art of Soviet Cooking – fantagóð rauðrófusúpa, rússneskar kjötbollur með bókhveiti og kartöflusalati og ávextir með sesamsósu. Um kvöldið var dansk/skandinavískt þema sem Tine Hahneman (hún hefur skrifað nokkrar bækur um norræna matargerð) sá um – léttgrafinn lax, soðið lambakjöt með fenniku, svörtu byggi og sellerírót, danskir ostar og súrmjólkursúpa með berjum og muldum tvíbökum.
Þetta var allt saman alveg ljómandi ágætt en eftirminnilegasta máltíðin var samt hádegisverðurinn á sunnudaginn. Margir fyrirlesaranna höfðu minnst á nýtingu og sóun á mat og þessi málsverður var gerður var úr leifum frá hinum máltíðunum og matarlistamennirnir litríku, Joseph Michael Patricio og Alicia Rios, sáu um hann. Á undan flutti Harvardprófessorinn Janet Beizer stórskemmtilegt erindi um básana á Les Halles í París þar sem leifar af borðum höfðingjanna voru seldar fátæklingum fyrir lítið.
Þar má segja að hugtakið fingrafæði hafi virkilega verið haft í öndvegi því það var ekki nóg með að engin hnífapör fylgdu með matnum – það hefur gerst áður – heldur fengum við enga diska (en reyndar skálar undir súpuna). Það voru bara strengdar lengjur af álpappír eftir langborðunum.
Fyrst fengum við súpu sem gerð var að mestu úr afgöngum frá skandinavíska málsverðinum kvöldið áður – en engar skeiðar svo það þurfti að drekka hana. Sessunautur minn, sem er þarna að sötra súpuna sína, er Paul Levy, sem bjó til orðið foodie og skrifaði The Penguin Book of Food and Drink, og í baksýn glittir í matreiðslubókahöfundinn Claudiu Roden. (Þið getið haft ykkar leikara og poppstjörnur, þetta eru mín seleb.)
Það var ekkert mál að drekka súpuna en smávesen með kjötbitana þótt það hefðist. Einn borðfélagi minn dró nú einfaldlega upp penna og krakaði kjötið upp úr skálinni með honum …
Og svo var það aðalrétturinn – sovésku kjötbollurnar hakkaðar saman við bókhveiti og bygg, grænmetisafgangar notaðir í nýja og skemmtilega rétti, grísakjötið skorið í strimla, kryddað og steikt – og þetta var allt mjög gott og óvenjulegt og skemmtilegt að borða það svona – bara pínulítið subbulegt …
Sem gerði samt ekkert til, það var nóg af servíettum og svo voru skolskálar fullar af vatni, ilmandi kryddjurtum og blómum – hreinasta listaverk í sjálfu sér. Svo þetta var skemmtileg upplifun. Alvöru fingramatur sem sagt.
En uppskriftin sem hér kemur tengist Oxford ekki neitt, þannig séð. Nema hvað þetta er fingramatur – bara í öllu hefðbundnari merkingu. Ég var með smáréttaþema (að hluta) í þættinum mínum í MAN í maí og þetta var þar, ásamt kókosrækjum sem sjást þarna á mynd en uppskriftin að þeim kemur seinna.
Þetta eru semsagt sætkartöfluklattar með beikoni (alltsvo beikonið er ekki skilyrði, það mætti alveg setja eitthvað annað á þá). Úr þessu ættu að verða svona 25-30 klattar en auðvitað má hafa þá stærri ef maður vill og þá getur þetta jafnvel verið aðalréttur með brauði og salati, eða meðlæti með ýmsu kjöti.
Ég notaði 400 g af sætri kartöflu, 1 egg, 5 msk af rjóma (má vera mjólk), 80 g af hveiti, 1 tsk af paprikudufti, 1/2 tsk af salti. 1/4 tsk af nýmöluðum pipar og ólífuolíu til að steikja upp úr. Og sýrðan rjóma og beikon, en meira um það seinna.
Ég byrjaði á að flysja sætu kartöfluna og rífa hana gróft. Mér finnst best að nota rifjárnið í matvinnsluvélinni því þá fæ ég nokkuð langar ræmur.
Síðan setti ég egg, rjóma, hveiti, paprikuduft, salt og pipar í skál og hrærði þar til blandan var slétt.
Svo setti ég sætu kartöfluna út í og blandaði vel saman.
Svo hitaði ég 3-4 msk af ólífuolíu á pönnu. Setti kartöflublönduna á hana með skeið (ég notaði kúfaða teskeið) og bjó til litla klatta. Steikti þá við meðalhita í um 3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þeir voru orðnir meyrir og fallega gullinbrúnir.
Ég tók svo klattana af pönnunni með spaða og lét renna af þeim á eldhúspappír. Steikti afganginn af klöttunum á sama hátt og bætti við olíu eftir þörfum.
Ég hellti afganginum af olíunni af pönnunni og steikti beikonsneiðarnar á henni þar til þær voru stökkar. Lét renna af þeim á eldhúspappír og skar þær svo í bita. Setti ½-1 tsk af sýrðum rjóma á hálfkalda eða kalda klattana og lagði beikonbita ofan á.
Sætkartöfluklattar með beikoni
400 g sæt kartafla
1 egg
5 msk rjómi eða mjólk
80 g hveiti
1 tsk paprikuduft
½ tsk salt
¼ tsk nýmalaður pipar
ólífuolía til steikingar
sýrður rjómi (36 eða 18%)
6-8 beikonsneiðar