Heimkomusalat

Gærdagurinn varð svolítið langur hjá mér. Vaknaði eldsnemma á hótelinu minu í Oxford, kláraði að pakka, dröslaði töskunni niður stigann (af hverju er ég alltaf að kaupa þessar þungu bækur?), tékkaði mig út, setti töskuna í geymslu og rölti svo eftir Banbury Road í bæinn og fékk mér morgunkaffi og croissant aux amandes í rólegheitum á Maison Blanc. Cotswold Lodge er að flestu leyti hið notalegasta hótel en ég er ekkert hrifin af morgunmatnum þar (ég hef verið á þessu hóteli áður) og hann var ekki innifalinn svo ég sleppti honum alltaf.

Svo fór ég í Boswells, sem er 275 ára gamalt vöruhús í miðbænum. Innréttingarnar eru ekki alveg svo gamlar en þetta er ekkert mjög trendí. Hins vegar er mjög fín eldhúsdóts- og dippidúttabúð í kjallaranum. Ég hafði keypt eitt og annað þar á mánudaginn en var búin að afráða að ég gæti alveg bætt við mig nokkrum hlutum (bara ef þeir væru ekki þungir, bækurnar sigu alveg nógu mikið í) og gerði það. Hefði vel getað keypt miklu miklu meira …

Svo fór ég á Ashmoleansafnið, þar sem er alltaf nóg að sjá, og endaði á veitingahúsin á efstu hæðinni. Þurfti að drepa tímann og veðrið var frábært til að sitja úti á veröndinni með útsýni yfir þökin í Oxford – sólarlaust að mestu en hlýtt og notalegt – svo að ég borðaði þríréttaðan hádegismat og var ekkert að flýta mér að því – paprikusúpu, steiktan þorsk með steiktum kartöflum og grænmeti og ylliberjahlaup með stikilsberjum og rjómafroðu. Alveg ágætt bara. Sat þarna næstum þar til kominn var tími til að rölta aftur á hótelið (10 mínútna gang frá miðbænum, nema af því að þetta er ég tók það 15), sækja þungu töskuna og taka leigubíl á rútustöðina. Þurfti eiginlega ekkert að bíða þar og rútuferðin til Heathrow var þægileg. Biðin á Heathrow var – ja, eins og bið á flugvelli er vön að vera (en ég var svolítið þung á mér því ég hafði fært bækurnar yfir í handfarangurstöskuna til að þurfa ekki að borga yfirvigt) og flugvélin var bara korteri of sein í loftið eða svo. Flugið var fínt en veitingarnar freistuðu mín ekki. Tók svo rútu og leigubíl og stóð á tröppunum heima hjá mér rétt fyrir eitt í nótt og … fann ekki húslykilinn.

Ég leitaði fram og aftur í veskinu og handfarangurtöskunni (var búin að taka allar bækurnar upp úr henni og leggja á tröppurnar) í hátt í tíu mínútur og var að því komin að opna ferðatöskuna þarna á gangstéttinni og leita að lyklunum í henni (þótt ég væri alveg viss um að þeir væru þar ekki). Venjulega þegar ég læsi mig úti (já, það kemur fyrir …) hringi ég í soninn, sem býr rétt hjá og er með lykil og er ekkert endilega farinn að sofa klukkan eitt að nóttu. Dóttirin er líka með lykil en hún býr lengra frá og er yfirleitt sofnuð á skikkanlegum tíma; hefði nú samt bjargað aldraðri móður sinni frá þvi að þurfa að sofa úti í garði. En þá fann ég loksins lyklana inni í tímariti sem ég hafði verið með í veskinu. Og var afskaplega fegin þegar ég var búin að drösla öllu upp og komin heim til mín.

Ókei, þetta er inngangur að því að þegar ég vaknaði í morgun, ekki mjög snemma, var ég frekar svöng en ósköp fátt ætilegt til. Dóttirin hafði samband og spurði hvort hún mætti koma í hádegismat og ég hélt það nú. Fór út í Bónus til að bæta birgðastöðu heimilisins. Langaði reyndar í fisk en úrvalið í Bónus var ekki álitlegt og ég nennti ekki lengra. Svo að ég keypti kjúklingabringur (ósprautaðar eins og alltaf). Og kúrbít, kirsiberjatómata, salat, radísuspírur og fleira.

_MG_8078

 

Ég byrjaði á að setja nokkrar kartöflur (skornar í fjórðunga) í pott og sjóða. Svo tók ég tvær bringur, lagði þær á bretti og skar þær í tvennt á þykktina.

_MG_8081

Setti svo bringuhelmingana með smámillibili á plastfilmu (það má líka nota bökunarpappír eða álpappír) og breiddi meiri filmu yfir.

_MG_8083

Svo tók ég kökukefli og barði bringurnar – ekkert of fast, bara til að þynna þær aðeins og fletja út. Kryddaði þær svo með dálitlu timjani, nýmöluum pipar (ég var með fimmlitan regnbogapipar en það má alveg nota hvítan eða svartan) og flögusalti á báðum hliðum.

_MG_8085

 

Ég setti 1 msk af smjöri og 1 msk af olíu á pönnu og hitaði. Setti svo bringurnar á pönnuna og steikti í um 4 mínútur á annarri hliðinni.

_MG_8087

Ég skar hálfan kúrbít (eftir á að hyggja hefði ég átt að nota heilan) í um 1 cm sneiðar og skar þær svo í tvennt. Sneri kjúklingabringunum og dreifði kúrbítnum á milli. Steikti í 3-4 mínútur og þá tók ég bringurnar af pönnunni (en ekki kúrbítinn).

_MG_8089

Kartöflurnar voru orðnar meyrar og ég hellti vatninu af þeim og lét þær standa í 1-2 mínútur í pottinum til að láta rjúka af þeim. Svo bætti ég meira smjöri á pönnuna, setti kartöflur og nokkra kirsiberjatómata út á og steikti grænmetið við góðan hita þar til það var allt farið að taka lit.

Á meðan grænmetið kraumaði setti ég salatblöð á fat (en hafði eyðu í miðju) og skar kjúklingabringurnar í 3-4 hluta þvert yfir. Afhýddi eina litla lárperu og skar hana í bita og skar tvær radísur í þunnar sneiðar. Svo tók ég grænmetið af pönnunni með gataspaða og setti á mitt fatið, dreifði kjúklingabringubitunum yfir og dreifði lárperubitum og radísusneiðum í kring. Skreytti með radísuspírum fyrst ég átti þær til (en lárpera, radísur og radísusneiðar er fyrst og fremst skraut).

_MG_8101

 

Ég var búin að hræra sósu úr 1 dós af hreinni jógúrt, 4 msk af paprikumauki, 1 msk af ólífuolíu og pipar og salti og bar hana fram mð salatinu.

Þetta var nú alveg ljómandi gott bara.

 

Volgt kjúklingasalat með paprikusósu

(fyrir 2)

 

5-6 kartöflur, meðalstórar

2 kjúklingabringur

1/2 tsk timjan

nýmalaður pipar

salt

1 msk olía

2 msk smjör

1/2-1 kúrbítur

nokkrir kirsiberjatómatar

1 lítil lárpera

2-3 radísur

e.t.v. radísuspírur

 

Paprikusósa

1 dós (180 ml) hrein jógúrt

3-4 msk paprikumauk (eða t.d. rautt pestó)

1 msk ólífuolía

pipar

salt

2 comments

 1. kjúlli í heimkomusalatið? Harðfiskur með sméri fæst einnig í bónus…

  Ágætis uppskrift samt en kannski sú fyrsta á blogginu sem ég er ekki allveg að fíla.

  Góða helgi Nanna og velkomin heim ❤

  *Kveðjur,*

  *Korinna Elísabet*

  • Ég var nú bara búin að vera í burtu í sex daga og fékk bæði graflax og lambakjöt og þorsk í útlandinu svo það var ekki alveg þörf fyrir harðfisk …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s