Ég er úti í Oxford og hér eru hlýindi og stundum sól og hiti svo að þessi uppskrift ætti afskaplega vel við hér. Og líklega verður nú einhverntíma veður fyrir hana heima líka, þótt hún sé hugsuð sem sumareftirréttur á sólskinsdegi þarf ekkert endilega að bíða eftir sólinni.
Reyndar hef ég ekki séð mikið af sólinni í Oxford enn, hef verið inni mestallan tímann, setið á matarráðstefnu eða raðað í mig góðgæti í miklum veislum – en nú ætla ég að taka frí og slappa af í þrjá daga. Og halda áfram að raða í mig góðgæti auðvitað. Einhverju á borð við þetta sorbet, sem er heilmikið góðgæti, finnst mér. Ég gerði það upphaflega fyrir júníblað MAN.
Mér finnst engin ástæða til að nota fersk jarðarber í sorbetið sjálft, þau frystu duga alveg og þá býr sorbetið sig næstum því til sjálft – en reyndar er mjög gott að bera fersk, vel þroskuð jarðarber fram með.
Ég byrjaði á að taka 500 g af frosnum jarðarberjum og lét þau hálfþiðna – en bara til hálfs, ekki meira. Þvoði svo eina sítrónu og eina appelsínu og skar hálfa sítrónu og fjórðung af appelsínu í bita (með berki og öllu) …
… og setti í matvinnsluvél ásamt sykrinum og hálffrosnum berjunum.
Ég lét vélina ganga þar til allt var orðið að fíngerðu, hálffrosnu mauki. Ég smakkaði maukið og bragðbætti með aðeins meiri sítrónusafa en það er smekksatriði.
Setti sorbetið í skál eða box og í frysti. Ef berin voru enn hálffrosin þarf sorbetið ekki að vera þar nema hálftíma eða svo, en það má líka láta það harðfrjósa.
Þá þarf bara að muna að taka það úr frysti góðri stund áður en á að bera það fram.
Ég skreytti þa’ með ferskum jarðarberjum og basilíku (mintulauf kemur líka vel út).
En svo hafði ég gert það áður og þá átti ég bæði fersk jarðarber og hindber til að bera fram með.
Jarðarberjasorbet
Fyrir 4
500 g jarðarber, frosin
½ sítróna
¼ safarík appelsína
200 g sykur
e.t.v. sítrónusafi
e.t.v. fersk jarðarber
e.t.v. basilíku- eða mintulauf