Ég skal nú bara játa það að ég eldaði engan fisk í dag; en ég eldaði heldur ekkert annað. Í vinnunni hjá mér mætir fólk í búningum á öskudaginn og svo býður hún Þórhildur upp á heimatilbúna súpu í hádeginu – og ég mætti líka með gulrótasúpu með kasjúrjóma fyrir þá sem eru vegan. Og svo bakaði ég einar fjórar tegundir af brauði til að hafa með (brauðuppskriftirnar allar úr bókinni minni, Pottur, panna og Nanna, og þar af leiðandi bakaðar í steypujárnspotti)
Og svo myndaði ég norður-kýpverskt meze-hlaðborð í gær og kom með það allt (nema eina sort) til að gefa fólki að smakka; þetta étur sig ekki sjálft. Svo að nei, ég var bara ekkert svöng eða í skapi til að elda í kvöld. Ætla að fara snemma í rúmið og matarlaus.
En hér er samt uppskrift. Þetta er rauðspretta/skarkoli, ágætis matur. Dökka hliðin, sem er alveg eins góð og sú ljósa, bara svo að það sé á hreinu. Eitt lítið flak því þetta var bara fyrir mig, en auðvitað ekkert mál að stækka.
Ég byrjaði á að taka rauðsprettuflakið, sem var svona 200-250 g, kryddað það með dálitlu timjani, pipar og salti og lét það svo liggja á meðan ég eldaði grænmetið.
Ég átti svona 200 g af rósakáli sem ég snyrti – skar þunna sneið neðan af stönglinum og tók e.t.v. 1-2 ystu blöðin af ef eitthvað sá á þeim. Skar svo kálhausana í tvennt. Ég skar líka niðut tvo vorlauka og einn hvítlauksgeira. Hitaði 1 msk af olíu á pönnu, setti kál, vorlauk og hvítlauk á hana og steikti í nokkrar mínútur við meðalhita og hrærði oft á meðan. Kryddaði svo með kummini, pipar og salti.
Svo setti ég 50 g af kasjúhnetum á pönnuna, hellti 150 ml af vatni (nú, eða hvítvíni ef maður á það, en ég átti það semsagt ekki) á hana og lét krauma áfram þar til kálið var orðið meyrt og vökvinn gufaður upp.
Á meðan þetta mallaði tók ég aðra pönnu, hitaði hana, bræddi um 25 g af smjöri og steikti rauðsprettuflakið í svona 2 mínútur á hvorri hlið.
Ég setti svo lúkufylli af spínati á rósakálspönnuna, hrærði því saman við og lét krauma í 1-2 mínútur.
Ég setti svo kálblönduna á disk, setti rauðsprettuna ofan á og stráði svolítilli saxaðri steinselju yfir (má sleppa).
Þetta var nú ekkert slæmt.
*
Rauðspretta með rósakáli
200-250 g rauðsprettuflak
svolítið þurrkað timjan
pipar og salt
200 g rósakál
2 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
1/2 tsk kummin
50 g kasjúhnetur
150 ml vatn eða hvítvín
væn lúka af spínati
smjör til steikingar
söxuð steinselja (má sleppa)
[…] lax saman, bleikju, löngu, hörpudisk, rækjur (forsoðnar, tvisvar, og hráar), túnfisk, ýsu, rauðsprettu, saltfisk og karfa. Og nú er röðin komin að reyktum […]