Sprengidagsýsa …

Jájá, það var sprengidagur og ég eldaði saltkjöt og baunir handa fjölskyldunni, svona upp á hefðina, og fékk mér auðvitað líka, ég er ekki í neinu kjötbindindi þannig séð. En ég var nú líka að elda djúpsteikta sjávarréttablöndu í dag og borðaði eitthvað af henni, svona á meðan ég var að koma baunasúpunni af stað – rauðvínsglas með af því að það var nú til og ekki drekkur maður rauðvín með saltkjöti og baunum (eða ég geri það allavega ekki). Svo að það telst með …

Uppskriftin í dag er hins vegar frá í fiskbrúar í fyrra og hér er ýsa á ferð, aldrei þessu vant. Eða nei, það er nú ekki alveg rétt, það kemur alveg fyrir að ég elda ýsu (gerði til dæmis fiskbollur úr henni í síðustu viku) en ég held meira upp á aðra fiska. Þessi var alveg ágæt samt.

Þetta er uppskrift fyrir einn, ýsubitinn sem ég átti var ekki nema svona 250 grömm en var nokkuð þykkur. En það er ekkert mál að stækka uppskriftina auðvitað.

_MG_3770

Ég kryddaði ýsuna með pipar og salti. Hitaði olíu og smjör á þykkbotna pönnu og steikti fiskinn við góðan hita í svona 3 mínútur á hvorri hlið. Saxaði tvo vorlauka og setti á pönnuna þegar ég var búin að snúa ýsunni við.

 

_MG_3774

Svo tók ég fiskinn af, setti á disk og hélt honum heitum en hellti hálfri dós af söxuðum tómötum á pönnuna. Bætti við nokkrum litlum kvistum af spergilkáli (stönglar skornir í þunnar sneiðar), dálitlu vatni og svona 100 ml af rjóma.

Hrærði svo 1 tsk af karrídufti, 1/2 tsk af túrmeriki, 1/2 tsk af kummini, cayennepipar á hnífsoddi og dálitlu salti saman við (já, og lítilli lófafylli af jarðhnetum, en þeim má sleppa) og lét sjóða í nokkrar mínútur.

_MG_3778

Þegar spergilkálið var orðið meyrt setti ég fiskinn aftur á pönnuna, smakkaði og bragðbætti sósuna með svolitlum límónusafa.

_MG_3779

Svo bar ég þetta fram með soðnum hrísgrónum og salatblöðum, ásamt límónubátum.

_MG_3785

Ef einhver er að velta fyrir sér litnum á sósunni (hér virðist hún rauðgul, en gul á myndunum sem voru teknar af henni á pönnunni), þá minnir mig að liturinn hafi verið einhvers staðar þarna á milli …

*

Ýsa í karrísósu

250-300 g ýsuflak

pipar og salt

1 msk olía

1 msk smjör

2 vorlaukar

½ dós tómatar

100 g spergilkál

100 ml vatn

100 ml rjómi

1 tsk karríduft

1/2 tsk túrmerik

1/2 tsk kummin

cayennepipar á hnífsoddi

salt

lítil lófafylli af jarðhnetum

límóna

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s