Lítið en gott

Æi, þessir dagar fara alveg með matarlystina hjá manni … Ég borðaði bollur aftur í dag, í vinnunni, en það er of mikið að hafa tvo bolludaga í röð. Já, ég veit að gærdagurinn var ekki bolludagur en það vill nú svo til að ég þarf að hafa mitt árlega bollukaffi á frídegi og þá liggur sunnudagurinn beint við. Alveg þangað til búið verður að stytta vinnutímann. Eða kannski þangað til ég fer á eftirlaun og hætti að vinna og get bara verið heima alla daga og bakað bollur og allskonar. Það verður nú gaman. Eða kannski ekki …

En allavega, ég var ekki sérlega svöng þegar ég kom heim og lét nægja að taka svolítinn bita af löngu sem ég átti og nota hann í salat. Það dugði mér alveg. Uppskrift dagsins er kannski svolítið í samræmi við þetta, hér er ekki beint kvöldmatur á ferðinni, heldur smáréttur (sem verður auðvitað kvöldmatur ef maður borðar nógu mikið af honum), eða eiginlega hentar þetta best sem pinnamatur; ég var með þetta í áramótaþætti sem ég gerði fyrir MAN.

Ég notaði maísmjöl í lummurnar/buffin svo að þetta er glútenlaust ef þið eruð í þeim gírnum en reyndar má líka nota hveiti, það kemur ósköp svipað út. Úr þessu ættu að verða kannski svona 25 stykki.

IMG_3539

Ég byrjaði á að taka svona 150 g af litlum rækum og láta þær þiðna. Setti þær svo í matvinnsluvél ásamt grænu blöðunum af 3 vorlaukum og hakkaði þetta saman. Það á samt að vera frekar gróft og það má alveg láta nægja að saxa þetta smátt með hníf.

IMG_3542

Svo setti ég þetta í skál og blandaðu 150 g af maískorni saman við – ég var með frosið (og þítt) maískorn en það má eins vera niðursoðið.

IMG_3548

Svo hrærði ég 100 g af gulu maísmjöli, 3 egg, 1 hvítlauksgeira, 1 tsk af taílenskri fiskisósu, pipar og salt vel saman. Hellti þessu yfir rækjublönduna og blandaði öllu vel saman.

IMG_3552

Síðan hitaði ég  olíu á pönnu og steikti litlar lummur við meðalhita í um 2 mínútur á hvorri hlið. Tók þær svo af pönnunni og lét renna af þeim á eldhúspappír.

IMG_3609

Ég hrærði svo saman 200 ml af tómatsósu, 100 ml af chilisósu (ég notaði sriracha) og svolítinn saxaðan vorlauk og bar fram sem ídýfu með lummunum.

*

Rækju- og maíslummur

150 g rækjur, litlar

grænu blöðin af 3 vorlaukum

150 g maískorn, frosið eða niðursoðið

100 g maísmjöl (gult)

3 egg

1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður

1 tsk tailensk fiskisósa

pipar og salt

olía til steikingar

Tómat-chiliídýfa

200 ml tómatsósa úr flösku

100 ml sriracha-sósa eða önnur chilisósa (eða eftir smekk)

1 msk fínsaxaður vorlaukur (grænu blöðin)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s