Túnfiskur úr krukku

Bolludagurinn er ekki fyrr en á morgun en ég er nú samt búin að vera að baka bollur og setja á bollur og bera fram bollur og háma í mig bollur í allan dag – eða ekki allan, auðvitað, svo slæmt er það nú ekki. En ég var allavega ekkert sérlega svöng þegar leið að kvöldmatartíma, eldaði engan fisk en lét nægja að fá mér hálft flak af maríneraðri síld með smurðu flatbrauði. Einhver fiskur verður nú að vera …

En hér er samt uppskrift frá því í fiskbrúar í fyrra og hún er að túnfisksalati. Þegar túnfisksalat er nefnt dettur líklega mörgum í hug majónessalat á samloku, oft hvorki sérlega girnilegt né gott. Þetta er ekki svoleiðis túnfisksalat þótt túnfiskurinn sé vissulega úr dós. Og þótt það sé majónes …

_MG_4465

Jæja, eða krukku. Það er náttúrlega ekki sama hvernig túnfiskur er notaður, hann er afar misjafn að gæðum. Þessi var ansi góður, í ólífuolíu. Ég hellti olíunni af honum í skál og setti til hliðar. Og svo setti ég tvö egg í pott og sauð þau í 7 mínútur, ég vildi ekki hafa þau alveg harðsoðin. Kædi þau og skurnfletti.

_MG_4466

Tók svo eitt egg enn, aðskildi rauðu og hvítu og setti rauðuna í matvinnsluvél (eða hakkara; hvítan er ekki notuð). Bætti við 10-12 basilíkublöðum, einum hvítlauksgeira, svolitlum sítrónusafa (svona 1 tsk), pipar og salti. Ég maukaði þetta vel saman og svo þeytti ég fyrst olíunni af túnfiskinum saman við smátt og smátt og bætti svo meiri olíu (bragðmildri, t.d. repju- eða sólblómaolíu) við, þar til majónesið var hæfilega þykkt.

_MG_4471

Svo tók ég einn vorlauk, svona 6-8 cm bita af gúrku og svona fjórðung af appelsínugulri og fjórðung af rauðri papriku og skar allt í teninga eða bita. Setti þetta allt í skál, ásamt lúkufylli af klettasalati og túnfiskinum, og blandaði gætilega saman – ég vildi ekki láta túnfiskinn fara alveg í mauk.

_MG_4472

Hellti svo hluta af basilíkumajónesinu yfir og blandaði áfram gætilega.

Að lokum skar ég eggin í bita og blandaði mjög lauslega saman við. Þetta er skammtur sem dugði mér í kvöldmat og líka í nestið daginn eftir en gæti líka dugað fyrir tvo með nógu af góðu brauði og kannski einhverri súpu.

_MG_4496

Túnfisksalat með basilíkumajónesi

1 dós túnfiskur í ólífuolíu

2 egg

1/2 paprika, gjarna 2 litir

1 vorlaukur

6-8 cm biti af gúrku

lófafylli af klettasalati

*

Basilíkumajónes

1 eggjarauða

10-12 basilíkublöð

1 hvítlauksgeiri

svolítill sítrónusafi

pipar

salt

olían af túnfiskinum og viðbót eftir þörfum

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s