Ekki fyrir augað en góður samt

Hér áður fyrr keypti ég oft heila fiska, hausaða eða með haus, og flakaði þá sjálf. Nú, eða skar þá í sneiðar eftir því sem við átti. Nú sér maður sjaldan óflakaða fiska, nema kannski helst silung. Og svo á ég það til að kaupa heila karfa, sem stundum eru til í fiskbúðinni. Karfi er nefnilega fjári góður fiskur. Eða getur verið það.

 

_MG_4914

Ég þekki margar konur sem unnu í frystihúsi á sínum yngri árum og geta ekki hugsað sér að borða karfa. Og ég skil það reyndar ágætlega, gerði það ekki sjálf árum saman og þusaði töluvert um hvað karfi sem væri búinn að vera dauður í þrjár vikur væri lítið freistandi matur. Maður skildi bara ekkert í þessum vesalings útlendingum sem létu hafa sig í að éta þetta, þeir væru nú ekki góðu vanir. Og það voru þeir kannski ekki.  En það var svosem ekki verið að vanda verkunina oní þá, karfinn var látinn sitja á hakanum þar til búið var að vinna allan annan fisk.

En mörgum árum seinna komst ég að því að svona þarf karfi hreint ekki að vera.

_MG_4915

Ég hafði semsagt keypt þennan karfa heilan svo að ég þurfti að flaka hann; ég var svosem aldrei neinn sérstakur flakari en ég kann þetta nú. En það má auðvitað bara kaupa karfaflök. Svona 400 g fyrir tvo.

Það er í sjálfu sér ekkert mál að flaka karfa, þarf bara að passa sig að stinga sig ekki á karfabeinum. Það er ekki gott. En ég hef nú alltaf sloppið við það.

Svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C. Tók svo 15 cm bita af blaðlauk og skar niður, hitaði 1 msk af olíu á pönnu, setti setti blaðlaukinn á hana og lét krauma í nokkrar mínútur við fremur vægan hita.

_MG_4921

Og af því að ég vann nú í karfa hjá Kaupfélagi Skagfirðinga (þ.e. Fiskiðjunni) þarna fyrir 45 árum eða hvað það nú var, þá tók ég KS-diskinn minn. (Eða hvaða djúpa disk sem er.) Setti á hann 100 ml (1 dl) af brauðraspi – ég notaði panko-rasp og finnst það best í svona en það er ekki nauðsynlegt – og blandaði saman við það hálfri teskeið af paprikudufti, sama af þurrkaðri basilíku, pipar og salti. Braut svo eitt egg á annan disk (já, ég á nokkra kaupfélagdiska), skar karfa flökin í nokkra bita og velti þeim upp úr egginu …

_MG_4933

… og síðan upp úr raspblöndunni. Raðaði bitunum svo á grind sem ég setti yfir pappírsklædda ofnskúffu og setti ofarlega í ofninn. Þetta ætti að vera til eftir 8-12 mínútur, eftir þykkt bitanna.

_MG_4925

Ég var líka búin að skera niður annað grænmeti sem ég átti til – nokkra rósakálshausa, hálfa papriku, tvö eða þrjú blöð af svartkáli (nú, eða grænkáli – eða bara hvaða grænmeti annað sem maður á til), setti þetta á pönnuna og lét krauma við vægan hita þar til það var nærri meyrt. Að síðustu hellti ég 100 ml af hvítvíni (eða bara vatni) á pönnuna, bætti á hana nokkrum sykurbaunum sem ég var búin að skera aðeins niður og lét malla í 2-3 mínútur í viðbót.

Screen Shot 2018-02-10 at 00.16.39

Svo setti ég grænmetið á diska (eða fat) og fiskinn ofan á. Ég sé á myndinni að ég hef greinilega haft einhvers konar heimagert pestó með þessu en skal alveg játa að ég man ekki fyrir mitt litla líf hvað var í því – en það skiptir nú ekki máli, það má líka sleppa því eða nota pestó úr krukku eða eitthvað.

En ég man að þetta var alveg hreint ágætis karfi.

*

Ofnsteiktur karfi í raspi

400 g karfaflök

1 msk olía

15 cm biti af blaðlauk

100 ml rasp, helst panko

½ tsk paprikuduft

½ tsk basilíka, þurrkuð

pipar og salt

1 egg

 

1 hvítlauksgeiri

rósakál

svartkál

paprikubiti (eða annað grænmeti)

100 ml hvítvín eða vatn

sykurbaunir (má sleppa)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s