Hörpuskel á þorra

Ég eldaði nú ekki fisk frá grunni í kvöldmatinn því að þegar fjölskyldan kom í mat í fyrrakvöld og fékk lúðu og lax varð dálítill afgangur af hvorutveggja og nú stappaði ég það saman, hrærði eggi, dálitlu panko-raspi, paprikudufti, cayennepipar, pipar og salti saman við, mótaði lítil buff úr þessu og brúnaði á pönnu handa mér. En afgangaeldamennska er eldamennska líka og mætti raunar stundum leggja meiri áherslu á hana. Kannski ætti ég að gera afgangamatreiðslubók; fólk hefur oft nefnt við mig hvað það sé ánægt með að í Maturinn hennar Nönnu eru tillögur við hvern einasta rétt um hvað gera megi úr afgöngunum.

En uppskrift dagsins er samt engin afgangauppskrift, öðru nær. Þetta er hörpudisksréttur sem ég gerði í fyrra (einmitt í fiskbrúar). Getur vel getur verið forréttur og kannski myndu flestir bera hann fram þannig en ég hef stöku sinnum hörpudisk í aðalrétt þegar ég er ein – það er svo upplagt að eiga hann frosinn og taka bara það magn sem maður þarf úr pokanum og láta þiðna. Ókei, þessi stóri er kannski of dýr til að nota hann þannig – en sá litli er fínn líka.

Ég var semsagt með 150 g af smáum hörpuskelfiski. Lét hann þiðna í sigti svo að rynni vel af honum og svo hellti ég honum á eldhúsrúllublað, breiddi annað blað ofan á og þerraði hann vel. Lét nann svo líggja nokkra stund og þorna betur. Það skiptir nefnilega máli að yfirborðið sé sem þurrast þegar skelfiskurinn er steiktur ef hann á að brúnast almennilega.

_MG_3831

Á meðan gerði ég sósuna: tók litla lófafylli af basilíku og aðra af steinselju og setti í hakkara (eða matvinnsluvél) ásamt einum söxuðum hvítlauksgeira, 1 tsk af chilisósu (sriracha), 1 msk af balsamediki, pipar og salti. Maukaði þetta vel og þeytti svo 5 msk af ólífuolíu smátt og smátt saman við. Eða eins miklu og þurfti til að sósan yrði hæfilega þykk. Smakkaði hana og bragðbætti með ögn meiri chilisósu.

_MG_3832

Ég tók líka 100 g af frosnum, grænum baunum og 75 g af sykurbaunum (snjóbaunum, mega vera hvort heldur er ferskar eða frosnar) sem ég skar í bita, hitaði léttsalstað vatn að suðu í potti, setti baunirnar út í og lét sjóða í 3 mínútur eða svo. Hellti baununum svo í sigti, lét renna af þeim og lét þær kólna dálítið.

 

_MG_3841

Svo hitaði ég þykkbotna pönnu (steypujárnspönnur eru bestar …) vel, setti 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á hana, setti svo hörpuskelfiskinn á hana og steikti við háan hita í 2-3 mínútur, eða þar til hann hafði tekið góðan lit en var ekki ofsteiktur. Tók hann þá strax af pönnunni og setti á disk.

_MG_3860

Svo setti ég væna lófafylli af klettasalati á disk eða fat, dreifði hörpuskelinni yfir, dreypti dálitlu af sósunni yfir hana, setti dálítið af spírum ofan á (það má sleppa þeim en þær eru bæði hollar og góðar og skreyta réttinn).

Svo bar ég afganginn af sósunni fram með. Og hvítvínsglas.

*

Hörpudiskssalat

150 g hörpuskelfiskur, lítill (þerraður)

grænar baunir

sykurbaunir

salt

olía og smjör

lófafylli af klettasalati

lítil lófafylli af spírum (má sleppa)

*

Kryddjurta-chilisósa

lófafylli af basilíku

lófafylli af steinselju

1 hvítlauksgeiri

1 tsk chilisósa (sriracha)

1 msk balsamedik

pipar og salt

5 msk ólífuolía, eða eftir þörfum

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s