Jæja, nú hefst fiskbrúar hér á bæ. Sem þýðir að eins og ég hef gert í febrúarmánuði síðustu ár ætla ég eingöngu að elda fisk. Eða kannski næstum eingöngu, það geta komið dagar þar sem maður þarf að gera einhverjar undantekningar. Veit til dæmis ekki enn hvað ég geri með sprengidag.
En annars er það fiskur, skelfiskur og annað af þeirri ættinni. Það þýðir þó ekki að það verði ekkert nema fiskuppskriftir hér á blogginu – en þær verða áreiðanlega í meirihluta. Svo að þið vitið á hverju þið eigið von.
Núna í kvöld hafði ég reyndar ekki tíma í eldamennsku (ég er að fara að kenna á eftir í Endurmenntun Háskólans, tveggja kvölda námskeið um íslenska matarhefð og matarsögu; ekki veit ég nú hvernig það gengur). Svo að ég henti saman rækjusalati með ögn af heimagerðu sinnepsmajónesi, eggjum og salatblöðum. Rækjur eru fiskmeti líka. En í staðinn kemur hér uppskrift sem ég átti til, birtist í MAN fyrir tveimur árum (gerði samt smábreytingar). Þetta er einfaldur en hollur og góður réttur; salatið má bera fram volgt eða kalt.
Ég var með perlubygg en það má líka nota venjulegt, eða þá t.d. hrísgrjón eða bulgurkorn eða kínóa eða hvað sem mann langar til. 150 grömm; sauð þau í léttsöltuðu vatni – perlubygg þarf um 15 mínútur, venjulegt bygg um 45 mínútur. Hellti því svo í sigti og lét renna af því.
Á meðan byggið mallaði bjó ég til sósuna. Hrærði saman150 ml af grískri jógúrt, 4 msk af ólífuolíu, 1-2 tsk af sinnepi, pipar og salti. Það getur verið gott að hafa ögn af hunangi en ég sleppti því nú eins og öllum sykri. Svo þynnti ég sósuna með dálitlu ísköldu vatni, þar til hún var hæfilega þykk.
Svo tók ég 600 g af laxaflaki, skar það í bita, kryddaði þá með pipar og salti og ýrði dálítilli sojasósu á þá. Hitaði 2 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og steikti laxinn við meðalhita í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt.
Svo tók ég hann af pönnunni og setti til hliðar en setti spínatið á pönnuna, lækkaði hitann dálítið, lagði lok yfir og lét krauma í 2-3 mínútur.
Þá hellti ég spínati og byggi í skál og blandaði.
Setti bygg- og spínatblönduna a á fat og dreifði laxabitunum yfir. Dreypti svolitlu af sósunni yfir og bar svo afganginn fram með.
Bygg- og spínatsalat með laxi
200 g bygg, gjarna perlubygg
600 g laxaflak
pipar
salt
sojasósa
2 msk olía
1 msk smjör
200 g spínat
*
Jógúrt-sinnepssósa
150 ml grísk jógúrt
4 msk ólífuolía
1-2 tsk sinnep
pipar
salt
½ tsk hunang (má sleppa)
ískalt vatn eftir þörfum
[…] er líka misjafnt; uppskriftirnar sem ég hef birt hér hafa innihaldið þorsk, meiri þorsk, lax, þorsk og lax saman, bleikju, löngu, hörpudisk, rækjur (forsoðnar, tvisvar, og hráar), […]