Nú er það rautt

Þessi indverski kjúklingaréttur er fljótlagaður og ekki flókinn. Nigellafræjunum sem yfirleitt eru í honum má sleppa því þau eru torfengin en ég hef notað sinnepsfræ með góðum árangri. Og hann er vel rauður, það vantar ekki. Þar sem hann inniheldur tómata er hann auðvitað náttúrulega rauður en kannski ekki alveg eins rauður og hann er á myndinni. Indverjar nota hins vegar stundum matarlit út í svona rétti og það gerði ég líka – bara nokkra dropa – en auðvitað má sleppa því, það skiptir náttúrlega engu upp á bragðið og rétturinn verður rauður. Bara ekki alveg eins. Og þetta er bara venjulegur matarlitur, eins og maður notar til að lita kökukrem og þess háttar.

Ég var með heilan, lítinn kjúkling, tók hann af beinunum. Mér finnst það yfirleitt best þegar ég elda kjúklingapottrétti. Það má alveg nota bringur eingöngu en þeim hættir til að verða of þurrar ef maður eldar þær of lengi. Ég veit að sumum er illa við að snerta mikið á hráum kjúklingi en það er nokkuð sem borgar sig að yfirvinna ef hægt er – það er ekki víst að það verði erfitt.

_MG_2459

Ég skar svo kjúklingakjötið í munnbitastærð. Og ef maður er með t.d. kjúklingabringur eða annað beinlaust kjúklingakjöt er það auðvitað fyrsta skrefið.

_MG_2463

Ég hitaði svo 2 msk af olíu á stórri pönnu, setti 1 tsk af fennikufræjum og 1 tsk af nigella- eða sinnepsfræjum á hana og steikti þar til fræin fóru að „poppa“.

Á meðan saxaði ég einn lauk, 3-4 hvítlauksgeira, 3 cm bita af engifer, 1-2 chiliandin (fræhreinsuð) og 200 g af tómötum – ég var með kirsiberjatómata en það má nota hvaða vel þroskaða tómata sem er. Steikti þetta í nokkar mínútur og hrærði oft á meðan.

Þá bætti ég kjúklingabitunum og 2 msk af tómatkrafti (paste) á pönnuna, stráði yfir 1 msk af chilikryddblöndu, 2 tsk af kummini, cayennepipar á hnífsoddi, pipar og salti, hrærði og lét krauma þar til kjúklingurinn var allur byrjaður að taka lit. Hrærði oft í á meðan.

_MG_2470

Svo hellti ég um 200 ml af vatni á pönnuna, hitaði að suðu, setti lok yfir og lét malla í um 10 mínútur, eða þar til kjúklingurinn var eldaður í gegn. Þá smakkaði ég, bragðbætti með nýkreistum límónusafa og kryddi eftir smekk og hrærði fáeinum dropum af rauðum matarlit saman við (en það er semsagt ekki nauðsynlegt).

_MG_2511

Svo stráði ég dálitlu söxuðu mintulaufi (eða kóríanderlaufi) yfir og bar fram með soðnum hrísgrjónum og/eða indversku brauði.

*

Indverskur tómatkjúklingur – Teekah murgh 

um 700 g kjúklingakjöt

2 msk olía

1 tsk nigella (svört laukfræ) eða sinnepsfræ

1 tsk fennikufræ

1 laukur, saxaður

3–4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

3 cm biti af engifer, saxaður smátt

1–2 chilialdin, fræhreinsuð og söxuð smátt

200 g tómatar, saxaðir

2 msk tómatkraftur (paste)

1 msk chilikrydd (ekki chilipipar)

2 tsk kummin

cayennepipar á hnífsoddi (eða eftir smekk)

pipar og salt

vatn eftir þörfum

safi úr 1/2 límónu

e.t.v. nokkrir dropar af rauðum matarlit

mintulauf eða kóríanderlauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s