Ég ætla bara að skjóta hér inn einni snöggri ídýfu eða mauki. Svona frekar af hollara taginu. Aðalhráefnið er rauðrófur og hvítar baunir og það er nú ekki mikil óhollusta í því. Nema ef maður fylgir einhverju mataræði þar sem maður á að forðast baunir. Eða rótargrænmeti. Eða eitthvað … En fyrir flesta er þetta alveg bráðhollt. Og gott líka, það er að segja ef maður kann að meta rauðrófur. Það er fólk í minni fjölskyldu sem kann það ekki og það finnst mér heldur verra.
Ídýfa, sagði ég og þetta mauk er mjög gott með kexi, flögum eða hráum grænmetissstautum. En það má líka nota maukið ofan á brauð, eitt sér eða með öðru áleggi, sem meðlæti með ýmsum réttum, t.d. kjöti eða kornmeti, með soðnum eggjum, jafnvel í pasta – já, og ótalmargt annað.
Hér er allt í lagi að kaupa rauðrófur sem búið er að elda (fást vakúmpakkaðar í grænmetisborðum, allavega sumstaðar) en það er auðvitað enn betra að þær séu nýbakaðar. Ég sker þær í tvennt eða fjórðunga, nema þær séu litlar, vef þær í álpappír sem ég hef borið svolitla olíu á og baka þær við 180°C eða svo í 45-60 mínútur, eða þar til þær eru meyrar (prjónn sem er stungið í þær, gegnum álpappírinn þess vegna, rennur auðveldlega í gegn). Svo læt ég þær kólna ögn á álpappírnum og flysja þær svo. Álpappírinn er samt ekkert nauðsynlegur, hann sparar manni hins vegar uppþvott. Og ef maður vill forðast að fá rauðar hendur er gott að nota hanska. Að öðru leyti er þetta pís of keik.
Þetta er semsagt úr þætti sem ég gerði fyrir MAN fyrir hátíðarnar, þar voru meðal annars fimm ídýfur. Ég held það fari ekkert milli mála hver er rauðrófuídýfan. Þetta er ekki stór uppskrift en ekkert mál að stækka hana.
Þetta er ekki flókin uppskrift: ég opnaði dós af cannellini-baunum (eða öðrum hvítum baunum, hellti leginum af þeim í sigti og setti 200 g af þeim í matvinnsluvél, ásamt 150 g af grófsöxuðum rauðrófum, 1 msk af tahini, 1 tsk af kóríanderdufti, safa úr 1/2 sítrónu, smáklípu af chiliflögum, 2 msk af ólífuolíu og pipar og salti. Maukaði allt vel saman.
Svo er bara að smakka og bragðbæta eftir þörfum – ég bætti við meiri sítrónusafa. Og ef maður vill hafa maukið aðeins þynnra má hræra dálítið meiri olíu saman við.
Rauðrófu- og baunaídýfa
200 g cannellini-baunir eða aðrar hvítar baunir
150 g soðnar eða bakaðar rauðrófur, grófsaxaðar
1 msk tahini
1 tsk kóríanderduft
safi úr 1/2-1 sítrónu
smáklípa af chiliflögum
2 msk góð ólífuolía
pipar og salt eftir smekk
[…] í áramótaþætti sem ég gerði fyrir MAN, hinar hafa áður birst og eru hér og hér og hér. Ég finn ekki myndir af undirbúningnum og kannski tók ég aldrei neinar en það kemur svo sem […]