Svona fyrir ykkur sem eruð í boltanum, þá eru hér tvær einfaldar ídýfur fyrir morgundaginn, önnur mexíkóættuð (eru Mexíkómenn annars nokkuð að spila á morgun? nei, líklega ekki), hin af óvissum uppruna en örugglega bráðholl samt.
Þessar ídýfur voru ásamt nokkrum öðrum í áramótaþætti sem ég gerði fyrir MAN, hinar hafa áður birst og eru hér og hér og hér. Ég finn ekki myndir af undirbúningnum og kannski tók ég aldrei neinar en það kemur svo sem ekki að sök.
Fyrst gerði ég pico de gallo, tók 125 g af vel þroskuðum kirsiberjatómötum (þetta er lítill skammtur, bara ein lítil skál en auðvitað hægt að margfalda, 1/4 lauk (venjulegan eða rauðlauk), fjórðung af lítilli rauðri papriku (eða reyndar átti ég smábita af gulri og annan af rauðri og notaði þá), nokkur jalapeno-aldin úr krukku og lófafylli af kóríanderlaufi og saxaði þetta allt frekar smátt og setti í skál. Svo tók eg eina límónu (eða tvær, eftir smekk og eftir því hvað þær eru safaríkar), kreisti safann úr henni og blandaði saman við, ásamt 1 msk af ólífuolíu og dálitlu salti.
Svo gerði ég klettasalats- og radísuspírupestó: Setti 50 g af klettasalati, lófafylli af radísuspírum, 2 grófsaxaða hvítlauksgeira, safa úr 1/2 sítrónu, 8-10 pekanhnetukjarna (líka hægt að nota t.d. valhnetur) í matvinnsluvél/blandara ásamt pipar og salti og maukaði allt vel saman. Svo þeytti ég 4 msk af ólífuolíu smátt og smátt saman við, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum, setti pestóið í skál og setti dálítið af radísuspírum ofan á.
Pico de gallo
125 g vel þroskaðir kirsiberja- eða konfekttómatar
1/4 laukur
2-3 msk jalapeno-chili úr krukku
1/2 lítil rauð paprika (eða biti af rauðri og biti af gulri)
lófafylli af kóríanderlaufi
safi úr 1-2 límónum
1 msk góð ólífuolía
salt
*
Klettasalats- og radísuspírupestó
50 g klettasalat, grófsaxað
lófafylli af radísuspírum
2 hvítlauksgeirar, grófsaxaðir
safi úr 1/2 sítrónu, eða eftir smekk
8-10 pekan- eða valhnetukjarnar
pipar og salt
4 msk góð ólífuolía