Fótbolti og fálkaorða

Það er víst fótboltamót í gangi. Ég er ekki áhugasöm um boltaleiki yfirhöfuð og læt þetta framhjá mér fara en kemst nú ekki hjá því að verða vör við það samt og það truflar mig svosem ekki mikið. Nema það var eitt: Ég ek ekki bíl, heldur fer yfirleitt minna ferða í strætó, sem er ágætt, Efstalandið liggur vel við strætósamgöngum í flestar áttir. Þó kemur stöku sinnum fyrir að ég þarf á bílfari að halda og fæ þá gjarna dótturdóttur mína eða dóttur til að skutla mér. En núna um síðustu helgi voru þær báðar í Moskvu og raunar öll dótturfjölskyldan. Og skemmtu sér konunglega.

En það hittist svo á að ég átti erindi suður á Bessastaði á 17. júní. Svo að ég bað son minn og tengdadóttur að bjarga mér, sem var sjálfsagt mál – nema hvað bíll tengdadótturinnar bilaði og fór á verkstæði fyrir helgina. Og ég hef grun um að strætósamgöngur við Álftanesið á stórhátíðum séu kannski ekki mjög tíðar og stoppistöðin kannski ekki alveg á hlaðinu á Bessastöðum svo að ég sá alveg fyrir mér að ég yrði þarna kjagandi um nesið í rigningunni að leita að stoppistöð með fálkaorðuna dinglandi í barminum, sem ég held að samræmist kannski ekki alveg virðuleika orðunnar (um virðuleika minn gegnir öðru máli). En svo fékk nú doktor Tobba, tengdadóttir mín, lánaðan bíl foreldra sinna svo að þetta bjargaðist allt.

Orðan, já. Sumum finnst svona orðuveitingar vera óttalegt pjatt. Sjálfsagt er eitthvað til í því en mér þótti afskaplega vænt um þessa viðurkenningu; að finna að það sem ég hef verið að fást við öll þessi ár mér til ánægju þyki vert einhvers. Það er góð tilfinning. Og mér þótti líka vænt um að sjá hve fjölbreyttur hópurinn sem fékk orðu að þessu sinni var.

Sumir hafa sagt að fólk sé að fá orðuna fyrir það eitt að vinna – eða bara mæta í – vinnuna sína. Æ, það má vera að það geti stundum átt við en þó kannski frekar áður fyrr.  Ég hef unnið nær alla starfsævina við ritstjórn hjá bókaforlagi og skyld störf og ég held mér sé alveg óhætt að fullyrða að þótt ég hafi mætt sæmilega og reynt að leysa vinnuna vel af hendi er ég ekki að fá viðurkenningu fyrir það, heldur fyrir það sem ég hef eytt mestöllum frítíma mínum í síðustu 25 árin eða svo. Tengdamóðir sonar míns fékk fálkaorðuna fyrir nokkrum árum. Hún er yfirlæknir líknardeildar Landspítalans og fékk vissulega orðuna fyrir brautryðjandastörf sín þar en ég held að engum sem þekkir til dytti í hug að segja að hún sé „bara að vinna vinnuna sína“.

Nóg um það. Mig langar bara til að þakka innilega öllum sem hafa sent mér kveðjur og hamingjuóskir; ég met það mikils.

En það var þetta með heimsmeistarakeppnina í fótbolta. Ég er örugglega ekki að fá gesti í fótboltafjör og gúmmilaði fyrir framan sjónvarpið (það verður slökkt á því) en ég á samt alveg slatta af uppskriftum sem gætu hentað í svoleiðis. Og hér er ein af þeim; spínat- og beikonídýfa í brauðskál. En það má líka sleppa beikoninu og nota smátt skorið léttsteikt grænmeti í staðinn, t.d. papriku, kúrbít, spergilkál o.fl.

Ég tók fyrst eitt kringlótt brauð og hér er langbest að nota súrdeigsbrauð með góðri skorpu, það heldur sér best og jafnvel hægt að geyma það til næsta dags og hita það þá upp, vafið í álpappír. Ég byrjaði á að skera lok ofan af brauðinu …

IMG_3458

… og svo holaði ég það að innan; skar hring niður í brauðið, næstum en ekki alveg niður að botni, reif innmatinn úr því og geymdi hann. Svo kveikti ég á ofninum og hitaði hann í 180°C.

IMG_3447

Ég tók svo 4 vorlauka og saxaði þá smátt. Svo saxaði ég líka niður 250 g af mögru beikoni. Ég hitaði svo 2 tsk af olíu á pönnu og steikti vorlauk og beikon í nokkrar mínútur, þar til beikonið var aðeins farið að taka lit.

IMG_3450

Ég saxaði svo tvo hvítlauksgeira smátt og setti á pönnuna ásamt 100 g af spínati (gott að grófsaxa það ef blöðin eru stór, þessi voru það ekki). Lét þetta krauma í um tvær mínútur og hrærði oft í á meðan.

IMG_3453

Svo bætti ég 250 g af rjómaosti og 200 g af kotasælu á pönnuna og hrærði þar til þetta var byrjað að bráðna. Þá tók ég  pönnuna af hitanum og hrærði 50 g af nýrifnum parmesanosti saman við, ásamt pipar.

IMG_3461

Ég tók svo brauðið og fyllti það með blöndunni, lagði lokið ofan á, pakkaði brauðinu inn í álpappír og setti það svo í ofninn og bakaði það í 15-20 mínútur. Á meðan skar ég innmatinn úr brauðinu í bita.

Spínat- og beikonídýfa (5)

Ég tók svo álpappírinn af brauðinu þegar það var tilbúið og setti það á fat. Raðaði brauðbitum og e.t.v. kexi í kring og bar þetta fram heitt (eða volgt).

*

Spínat- og beikonídýfa í brauðskál

1 kringlótt brauð, helst súrdeigsbrauð

4 vorlaukar

250 g magurt beikon

2 tsk olía

2 hvítlauksgeirar

100 g spínat

250 g rjómaostur

200 g kotasæla

50 g parmesanostur, rifinn

pipar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s