Ég hef ekkert á móti fótbolta. Ég hef ekki minnsta áhuga á honum en fótboltaáhugi annarra truflar mig nákvæmlega ekki neitt. Reyndar hef ég afskaplega takmarkaðan áhuga á íþróttum yfirhöfuð, nema þá helst frjálsíþróttum kannski, en það er nú mest af því að dóttursonurinn er efnilegur tugþrautarmaður og ég reyni að vera viðræðuhæf (það gengur illa).
En ég veit samt ekki alveg hvað ég á að gera af mér á næstunni. Mér sýnist allt ætla að snúast um fótbolta, í fjölmiðlum, á vinnustöðum, í búðum (maður getur ekki snúið sér við í matvörubúð án þess að sjá eitthvað fótboltatengt) og bara allstaðar. Og ég er nú bara töluvert utangarðs … Ég get ekki einu sinni rætt um frjálsar íþróttir við dóttursoninn því að hann er farinn til Rússlands. Eins og ég segi, ég hef ekkert á móti fótbolta, ég er bara ekki með á nótunum. Og ekki segja mér að byrja bara að horfa á leik og sjá hvort ég hrífst ekki með. Ég hef prófað það.
En ég get náttúrlega eldað.
Og hér er uppskrift að nautakjötssamlokum sem væri kannski bara alveg tilvalið að bjóða upp á meðan verið er að horfa á leik. Kannski á laugardaginn meiraðsegja. Að vísu skilst mér að það verði líklega ekki mjög grillvænt veður en það ætti nú að bjargast samt.
Ég var með svona 500 g af nautafilleti (uppskriftin er fyrir fjóra) og tók það úr kæli a.m.k. hálftíma áður en það átti að fara á grillið. Svo tók ég nokkrar timjangreinar, saxaði þær smátt og blandaði saman við grófmalaðan svartan pipar og flögusalt. Neri þessu vel inn í kjötið og lét liggja nokkra stund, eða á meðan grillið var að hitna (mjög vel).
Ég ýrði svo ögn af olíu yfir kjötið og setti það á vel heitt grillið. Grillaði það við háan hita í 6–8 mínútur, eftir þykkt og smekk, og sneri því við á einnar til tveggja mínútna fresti.
Ég tók svo átta sneiðar af góðu brauði (fjórar duga ef þær eru mjög stórar) og penslaði þær með dálítilli ólífuolíu. Færði kjötið út á jaðarinn á grillinu og lét það vera þar í tvær til þrjár mínútur í viðbót, eða þar til það var hæfilega steikt, en settu brauðið á meðan á grillið og ristaði það.
Ég setti kjötið á bretti og lét það bíða smástund.
Ég tók svo 200 g af kirsiberjatómötum – gjarna tv- eða þrílitum en það er ekki nauðsynlegt – og saxaði þá gróft ásamt nokkrum greinum af fersku estragoni. Blandaði þessu saman við pipar, salt og ólífuolíu. Svo setti ég fjórar brauðsneiðar (eða tvær stórar) á bretti, lagði nokkur salatblöð ofan á og hrúgaði svo tómatblöndunni yfir.
Svo skar ég kjötið í þunnar sneiðar á ská og raðaði þeim ofan á, lagði brauðsneið yfir og skar samlokurnar í tvennt (þessar voru nefnilega stórar).
*
Grillaðar nautakjötssamlokur með tómat-estragonsalsa
500 g nautafillet
nokkrar timjangreinar
nýmalaður pipar og salt
ólífuolía
8 sneiðar af góðu brauði (eða 4 stórar sneiðar)
*
200 g kirsiberjatómatar, gjarna tví- eða þrílitir
nokkar greinar af fersku estragoni
nýmalaður pipar og salt
2 msk ólífuolía
salatblöð