Ég ætlaði að skrifa eitthvert nöldur um veðrið og fór að leita að heimildum um „sumarið sem aldrei kom“ til að vitna í en komst þá að því að í áranna rás hefur fjöldi sumra fengið þann titil og sum hafa verið bara reglulega vond, þetta sem er núna (og júní ekki einu sinni hálfnaður) er bara eins og Majorkadvöl við hliðina á sumum þeirra. Það getur barasta vel verið að þetta eigi eftir að skána töluvert og kannski verða júlí og ágúst einstaklega sólríkir og góðir mánuðir. Og ef ekki má setja traust sitt á september – það rætist úr þessu. Einhverntíma.
Og í ljósi þess kemur hér réttur sem er bara frekar sumarlegur, finnst mér. (Nei, það er enn ekki tími fyrir köldu súpurnar.) Gulur og grænn. Grænn fyrir gróðurinn, sem sprettur reyndar alveg þokkalega, en gult er fyrir þetta þarna kringlótta sem hefur stundum sést á himninum, ef ykkur rámar enn í það. Ég notaði semsagt gulan kúrbít en það er auðvitað hægt að nota bara venjulegan grænan kúrbít. Það er samt skemmtilegt að hafa a.m.k. annan kúrbítinn gulan.
Ég var alltsvo með tvo kúrbíta og skar þá í þunnar ræmur eftir endilöngu; notaði flysjunarjárn en það mætti líka nota ostaskera. Nokkrar sneiðar úr miðjunni verða líklega ónothæfar vegna fræjanna en þá má taka þær frá og notað e.t.v. í súpu eða annað.
Ég skar líka tvo vorlauka smátt og hafði grænu blöðin sér. Svo saxaði ég einn hvítlauksgeira smátt.
Ég hitaði svo 2 msk af ólífuolíu á stórri pönnu og lét hvíta hlutann af vorlauknum og hvítlaukinn krauma við meðalhita í 2-3 mínútur. Þá setti ég kúrbítsræmurnar og græna hluta vorlauksins á pönnuna og steikti í svona 2 mínútur; hrærði oft á meðan. Kryddaði vel með pipar og salti.
Ég tók svo lófafylli af basilíkublöðum, saxaði þau gróft og hrærði þeim svo saman við kúrbítíinn á pönnunni. Svo kreisti ég safann úr sítrónunni yfir.
Setti síða eina eða tvær lúkur af salatblöðum á fat og hellti kúrbítsræmunum yfir. Skreytti með basilíku.
Kúrbítssalat með basilíku
2 kúrbítar, gulir eða grænir
2 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
2 msk ólífuolía
pipar og salt
lófafylli af basilíkublöðum
1/2 sítróna
blönduð salatblöð