Það verður nú sjálfsagt hægt að grilla eitthvað á næstunni – einhvern tíma, einhvers staðar – þótt veðurspáin sé hreint ekki spennandi. Og þess vegna kemur hér grilluppskrift, ættuð frá Kýpur, þar sem ég var í vetur. Kýpur-Grikkir grilla souvlaki, kjötbita á teini, gjarna maríneraða í blöndu af olíu, sítrussafa og kryddjurtum. Kjötið er oftast svínakjöt þótt ýmiss konar kjöt sé í boði fyrir ferðamenn. Hér tek ég hins vegar fremur mið af Norður-Kýpur, en þar er notað lambakjöt, nautakjöt eða kjúklingur og maríneringin er aðallega ólífuolía og kryddjurtir. Þar kallast þetta shish kebab. Grænmeti er yfirleitt ekki haft með á teinunum.
Svo er hér líka uppskrift að einföldu en góðu kýpversku kartöflusalati með miklu af kryddjurtum. Mér finnst það passa mjög vel með kebabinu og reyndar ýmiss konar grilluðum og steiktum mat.
Best er að nota kjöt af læri eða bóg og skera það niður í bita sem eru 2 1/2–4 cm á kant; auðvitað er þægilegast að kaupa niðurskorið lambagúllas en það er oft of smátt skorið til að henta almennilega fyrir kebab. Svo að ég var með hálft læri sem ég úrbeinaði og skar í bita – þetta var hátt í kíló af kjöti.
Ég blandaði saman 4 msk af ólífuolíu, 1 1/2 tsk af óreganói og svona 3/4 tsk af nýmöluðum svörtum pipar í skál, setti kjötið út í, veltu því upp úr olíunni og lét það standa í nokkra klukkutíma eða til næsta dags. Hrærði í kjötinu tvisvar eða þrisvar á meðan það maríneraðist. Þræddi það svo upp á teina, nokkuð þétt, og saltaði það.
Ef það er sumar (sem er vafamál þessa stundina) og sæmilegt grillveður er auðvitað best að hita útigrillið vel og grilla kjötið svo við góðan hita í samtals 8-10 mínútur, eða þar til það er hæfilega eldað. Snúa því nokkrum sinnum á meðan.
En ég tók reyndar bara grillpönnuna, hitaði hana vel og steikti pinnana á henni við háan hita.
En á meðan gerði ég kartöflusalatið. Eða ég var reyndar búin að sjóða kartöflurnar áður. Hér þarf að ntoa mjöllitlar kartöflur, t.d. rauðar, Gullauga eða Premier. Ég flysja þær ekki nema hýðið sé þeim mun þykkara en það er smekksatriði. Ég sauð þær þrar til þær voru meyrar, lét þær kólna dálítið og skar þær svo í bita. Tók svo 4-5 vorlauka, lófafylli af steinselju, lófafylli af mintu og dálítið af kóríanderlaufi (má sleppa) og saxaði þetta. Setti það svo í skál ásamt 75 ml af ólífuolíu, safa úr 1 sítrónu, pipar og salti. Blandaði svo kartöflunum saman við.
Ég bar svo kebabið fram eins og ég hafði fengið það á götuveitingahúsi í norðurhluta Nikósíu, með kartöflusalati og grískri jógúrt, hrærðri með ólífuolíu, pipar og salti.
*
Lamba-kebab með kartöflusalati
1 kg lambakjöt
4 msk ólífuolía
1 1/2 msk óreganó, þurrkað
nýmalaður svartur pipar
salt
*
Kýpverskt kartöflusalat
1 kg kartöflur, mjöllitlar
4–5 vorlaukar
lófafylli af steinselju
lófafylli af mintu
lítil lófafylli af kóríanderlaufi (má sleppa)
75 ml ólífuolía
safi úr 1 sítrónu
pipar og salt