Glútenlausar pönnukökur

Það er komið sumar á svölunum hjá mér. Jæja, kannski ekki hásumar, en svalagróðurinn minn hefur tekið vel við sér, það styttist í að ég geti farið að nota sum salötin sem ég er að rækta, kryddjurtirnar eru í góðum gír, runnarnir eru sumir á leiðinni að blómstra og það eru farin að koma blóm á jarðarberjaplönturnar. Og mig er farið að langa í pönnukökur með jarðarberjum. Það verður nú ekki strax – ekki með heimaræktuðum jarðarberjum allavega – en mér datt þessi pönnukökuppskrift í hug.

Þessar pönnukökur eru glútenlausar og sykurlausar en sósan er hins vegar ekki sykurlaus – auðvitað má nota aðrar sósur líka og ef ég væri að gera þetta fyrir sjálfa mig myndi ég sennilega bara nota svolítið sykurlaust berjamauk og svo rjóma með berjunum. En ég var ekki að gera þær fyrir mig, þetta var fyrir pönnuköku-, lummu- og vöffluþátt sem ég gerði fyrir MAN – ég hef áður birt uppskriftir úr þessum þætti, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér – ég held að þetta sé sú seinasta en er ekki alveg viss.

Í þessu tilviki gerði ég karamellusósu og notaði dulce de leche (niðursoðna, karamelliseraða mjólk sem má fá í  dósum eða krukkum), sem er ekki eins sæt og karamellusósan, sem ég lét líka fylgja uppskrift að og má nota í staðinn. En sú sem er á myndinni er dulce de leche-sósan.

_MG_6104 (1)

En ég byrjaði á að bræða 50 g af smjöri í potti og hellti svo 400 ml af mjólk út í og lét hana volgna aðeins. Tók svo pottinn af hitanum og hellti mjólkur-smjörblöndunni í matvinnsluvélina. Þeytti þremur eggjum og einni teskeið af vanilluessens saman við.

Svo blandaði ég saman 175 g af bókhveiti, 60 g af kartöflumjöli og 1/4 tsk af salti, setti það út í og hrærði vel saman. Bætti við mjólk eftir þörfum til að soppan yrði hæfilega þykk (eins og venjuleg pönnukökusoppa. Hitaði svo pönnukökupönnuna, bræddi örlítið smjör á henni og steikti þunnar pönnukökur á báðum hliðum við meðalhita. Bar örlítið smjör á pönnuna á milli en það er kannski óþarfi.

_MG_5418

Ég átti 250 g af dulce de leche í dós, afgang frá öðru, svo að ég notaði það bara, en það mætti vel komast af með minna og gera þá bara aðeins minni sósu.

_MG_5436

Ég setti þetta í pott með 100 ml af rjóma, hitaði og hrærði þar til blandan var jöfn og slétt.

En svo má líka gera karamellusósu, til dæmis setja 100 g  af púðursykri, 100 ml af rjóma, 80 g af smjöri og 1/2 tsk af vanillu í pott, hita að suðu og láta malla þar til blandan er gullinbrún og farin að þykkna.

_MG_5464 (1)

Svo tók ég nokkrar pekanhnetur og ristaði á þurri pönnu í nokkar mínútur en gætti þess að þær brynnu ekki. Bar þær svo fram með pönnukökunum, ásamt jarðarberjum og dulce de leche-sósu (eða karamellusósu).

Bókhveitipönnukökur með karamellusósu og pekanhnetum

50 g smjör, bráðið (og meira til steikingar)

400 ml mjólk, eða eftir þörfum

3 egg

1 tsk vanilluessens

175 g bókhveiti

60 g kartöflumjöl

1/4 tsk salt

 

*

pekanhnetur

jarðarber

*

 

 

Dulce de leche-sósa

250 ml dulce de leche

100 ml rjómi

*

Karamellusósa

100 g púðursykur

100 ml rjómi

80 g smjör

1/2 tsk vanilluessens eða vanillusykur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s