Þakklát önd. Eða ekki.

Mér finnst, ykkur að segja, að fólk eigi bara að nota öll hugsanleg tækifæri (sem það langar að nota) til þess að gera eitthvað skemmtilegt eða ánægjulegt (nema ef manni leiðist að skemmta sér, sem ég hef fullan skilning á), til að hittast og koma saman (nema auðvitað ef maður er einfari, sem er þá bara allt í lagi) og náttúrlega til að borða góðan mat (og þar er enginn svigi því það er alltaf ástæða til að borða góðan mat (eða það er auðvitað svigi en það er bara af því að ég er mikið fyrir sviga)).

Og þess vegna á ég svolítið bágt með að skilja alla sem eru að nöldra yfir því að einhverjir aðrir séu að halda til dæmis þakkargjörðarhátíð. Af því að þetta sé amerískur siður og innleiddur af kaupmönnum sem vilji selja manni eitthvað og það sé þá nær að taka upp aftur íslenska hátíðisdaga eins og töðugjöld eða eitthvað. En við erum með fullt af erlendum siðum hvort eð er og þeir amerísku eru svosem ekkert verri en aðrir og jújú, kaupmenn reyna að selja en maður ræður nú líklega sjálfur hvort maður kaupir. Og sjálfsagt að taka upp töðugjöld ef einhver vill en þau voru um miðjan ágúst og það var gjarna borðaður grjónagrautur eða bygggrautur með smjöri og sírópsmjólk eða eitthvað slíkt. Og kannski hangikjöt ef eitthvað var eftir frá haustinu áður. Sem er allt annað en kalkúni í nóvemberlok.

Og hvað kemur það fólki eiginlega við hvernig aðrir vilja haga sínu tilhaldi og matarboðum? Skil þetta ekki …

Neinei, hér kemur ekki kalkúnauppskrift í framhaldinu, enda eldaði ég engan kalkúna og  held ekki þakkargjörðarhátíð (né heldur töðugjöld). En fugl er það samt, svolítið kínverskættaður en ekki amerískur. Það er ekkert verra samt. Bara ein andarbringa …

Það eru pönnukökur með og ég byrjaði á að steikja þær. Glútenlausar. En það má alveg nota bara venjulegar pönnukökur líka.

Ég byrjaði á að vigta 125 g af bókhveiti og 100 g af maísmjöli og setja í matvinnsluvél (eða blandara) ásamt 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti, skar svo 2-3 vorlauka í bita, setti út í og þeytti saman. Bætti svo við 3 eggjum og 50 g af bráðnu smjöri og þeytti saman við og síðast 300 ml af mjólk. Þeytti þar til soppan var alveg slétt; ef hún er þykk má bæta við dálitlu köldu vatni. Það getur vel verið að nota megi vatn í staðinn fyrir mjólkina en ég hef ekki prófað.

_MG_5432

Svo hitaði ég örlitla olíu á pönnu og steikti þunnar pönnukökur úr soppunni. – Ég man ekki alveg hvað komu margar pönnukökur úr þessu en þær voru þónokkrar og hefðu alveg dugað  fyrir fjóra og þá er maður með tvær bringur. En ég var bara með eina. Pönnukökurnar urðu ekkert ónýtar samt.

_MG_5439

Ég hitaði ofninn í 180°C. Gerði skáskurði í fitulagið á andabringunum og kryddaði hana með pipar og salti. Svo hitaði ég litla pönnu setti bringuna á hana með fitulagið niður og steikti við meðalhita í 6 mínútur. Þá sneri ég bringunni við og steikti í 1 mínútu á hinni hliðinni. Hellti svo fitunni af pönnunni og setti hana svo í ofninn (ef maður notar pönnu sem ekki þolir að fara í ofninn er bringan bara færð yfir í eldfast fat sem búið er að hita) og steikti hana í 8-10 mínútur í viðbót. Tók hana svo út og lét kólna smástund.

_MG_5513

Á meðan blandaði ég 4 msk af hrísgrjónaediki (sé það ekki til, þá eplaediki) og 1 msk af sykri saman í lítilli skál. Skar 3-4 vorlauka í búta og síðan í mjóar ræmur og setti í skálina ásamt lófafylli af baunaspírum, blandaði vel og lét standa smástund.

 

_MG_5514

Ég tók svo andabringuna úr ofninum og lét hana standa í svona 5 mínútur. Skar hana svo í þunnar sneiðar á ská.

_MG_5530

Svo setti ég pönnuköku á disk, hellti dálítilli hoisinsósu á miðjuna, raðaði nokkrum andabringusneiðum ofan á, setti vorlauks- og spínublöndu þar ofan á og dreifði kóríanderlaufi yfir.

_MG_5544

Vorlaukspönnukökur með önd og léttsýrðu grænmeti

2 andabringur

pipar og salt

4 msk hrísgrjóna- eða eplaedik

1 msk sykur

3-4 vorlaukar

lófafylli af baunaspírum, gjarna blönduðum

lófafylli af kóríanderlaufi

hoisinsósa

*

Vorlaukspönnukökur

3 egg

2-3 vorlaukar, saxaðir

50 g smjör, bráðið

125 g bókhveiti

100 g maísmjöl

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

300 ml mjólk

vatn eftir þörfum

olía til steikingar

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s