Bleiku grjónin

Nú fást marglitar regnbogagulrætur í búðum, skemmtileg tilbreyting frá þessum venjulegu appelsínugulu sem lengst af hafa verið allsráðandi. En reyndar voru fyrstu gulræturnar sem ræktaðar voru í Evrópu líklega fjólubláar og ljósgular; rauðgular og rauðar gulrætur voru aftur á móti ræktaðar í Mið-Austurlöndum a.m.k. frá því á tíundu öld og þær bárust smátt og smátt vestur á bóginn.

Í ritinu Le Ménagier de Paris frá 1393 (sem er skrifað af – eða í minnsta kosti í nafni – aldraðs góðborgara sem ráðleggingar til kornungrar eiginkonu hans um húshald, matargerð og hvernig góðar konur eigi að hegða sér) er þess einmitt getið að þetta appelsínugula sem sé nýfarið að fást á grænmetismarkaðnum sé einmitt gulrætur í nýjum lit.

Þær hafa verið allsráðandi síðan, í Evrópu og Ameríku að minnsta kosti, en núna á allra síðustu árum hafa nýir litir verið að birtast í verslunum og á grænmetismörkuðum – einmitt fjólubláar og ljósgular – svo að það má segja að þetta sé ákveðið afturhvarf til fortíðarinnar. Bragðið er svipað en það er gaman að leika sér með litina. Reyndar skilst mér að verið sé að gera tilraunir með að rækta fram fleiri liti.

Eitt af því sem þarf að athuga með fjólubláu gulræturnar er að liturinn er sterkur og smitast mikið úir þeim við suðu. Og þá er komið að sögunni á bak við uppskriftina, sem er að þessu sinni úr nýju bókinni minni, Pottur, panna og Nanna, og gert í steypujárnspotti (en það má nota aðra potta ef þið eigið ekki svoleiðis). Pílaffið er ekki sett í ofninn, heldur er potturinn hafður á hellunni og því er sérlega mikilvægt að lokið sé þétt og gjarna fremur þungt. Ef eldavélin gefur ekki möguleika á mjög vægum hita er samt líklega best að setja pottinn í ofninn svo að grjónin brenni ekki í botninn.

En það er best að nota tækifærið og plögga bókina aðeins, frábær bók og á góðu verði og allt það:

Screen Shot 2017-08-03 at 21.44.17

 

Ég hafði semsagt ákveðið að vera með hrísgrjónapílaff í bókinni og var búin að gera tilraunir og setja sama uppskrift sem ég var ánægð með. Og þá var komið að myndatökunni.  átti ég blöndu af venjulegum og fjólubláum gulrótum og mér datt í hug að nota eina af þessum fjólubláu til að fá litríkara pílaff. Það var samt nokkuð litríkt fyrir, appelsínugult, grænt, brúnt auk hvíta litsins á grjónunum.

hrísgrjónapílafz (3)

Ég flysjaði gulræturnar og skar þær í 5–6 cm langa búta og hvern bút í mjóar ræmur. Eins og sjá má eru fjólubláu gulræturnar ekki fjólubláari í gegn, þær eru rauðgular í miðjunni. Svo setti ég 200 g af basmatihrísgrjónum í sigti og skolaði þau undir kalda krananum þar til vatnið sem rann af þeim var alveg tært. Þetta er gert til að skola burtu sterkju og er til bóta (en ég hef reyndar gleymt þessu og það hefur nú ekki skaðað matinn stórkostlega).

Ég tók svo einn lauk og tvo hvítlauksgeira, bræddi 40 g af smjöri í steypujárnspotti (sá sem ég var með er frekar lítill en það má nota stærri) og lét lauk og hvítlauk krauma við fremur vægan hita í um 10 mínútur.

Svo reif ég börkinn af hálfri appelsínu og setti til hliðar, hann er ekki notaður strax. Setti svo  hrísgrjónin og gulræturnar í pottinn með lauknum, hrærði og láttu krauma í 3–4 mínútur. Þá bætti ég hálfum lítra af vatni og 2 tsk af grænmetiskrafti (eða kjúklingakrafti) í pottinn, kreisti safann úr hálfu appelsínunni út í, kryddaðu með svolitlum pipar og salti og hitaði að suðu. Stillti svo á lægsta mögulega hita, setti lok á pottinn og lét grjónin malla alveg óhreyfð í 15 mínútur.

hrísgrjónapílafz (6)

Þá tók ég pottinn af hitanum, tók lokið af honum og hálfbrá eiginlega. Ég var búin að gleyma hvað liturinn smitast mikið úr fjólubláum gulrótum í suðu og bleiku grjónin komu á óvart. Og mér fannst líka merkilegt hvernig laukurinn og gulræturnar settust ofan á og eins og í hring í kringum grjónin.

Svo smakkaði ég og bætti við pipar og salti eftir þörfum. Grófsaxaði svona 40 g af pekanhnetum (já, ég veit, ég hef töluvert dálæti á þeim), setti þær út í ásamt lófafylli af saxaðri basilíku og 1 tsk af rifnum appelsínuberki og hrærði vel.

pílaff (4)

Mér finnst bleiki liturinn setja skemmtilegan svip á pílaffið og gera það býsna óvenjulegt svo að ef þið eigið fjólubláa gulrót mæli ég með að nota hana. Bragðið er þó það sama, hvort sem hrísgrjónin eru bleik eða hvít.

*

Hrísgrjónapílaff

200 g basmatihrísgrjón

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

40 g smjör

2 gulrætur (önnur e.t.v. fjólublá)

½ appelsína

½ l vatn

2 tsk grænmetis- eða kjúklingakraftur

pipar

salt

40 g pekanhnetur

lófafylli af basilíku

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s