Ljóta rótin

Veturinn er tími rótargrænmetisins og það er svo sannarlega hægt að gera margt við það; gulrætur, gulrófur, rauðrófur, nípur og margt annað. Og svo sellerírótin, sem er nú kannski óásjálegust af þessu öllu saman en það þýðir svo sannarlega ekki að hún sé verst. Það er hægt að baka hana, pönnusteikja eða sjóða, gera úr henni stöppu eða súpu, gera eins konar „franskar“ eða flögur, rífa hana hráa út í salöt og margt annað.

Hér er uppskrift sem ég gerði fyrir rótargrænmetisþátt í MAN í fyrra; þetta er sellerírótarstappa en dálítið óvenjuleg því að hún er blönduð til helminga með mauki úr léttsteiktum perum.

Ég var með um 400 g af sellerírót sem ég var búin að flysja og snyrta (vigtuð eftir snyrtingu semsagt) og skar hana í bita, 2-3 cm á kant. Hitaði svo vatn í potti, setti sellerírótina út í ásamt svolitlu salti og lét hana malla þar til hún var orðin meyr, eða í 15-20 mínútur.

_MG_3396

Á meðan flysjaði ég 400 g af perum (best að þær séu hvorki of harðar né mjög mjúkar),  kjarnhreinsaði þær og skar í bita. Bræddi svo 2 msk af smjöri á pönnu og lét perurnar krauma í því þar til þær voru orðnar meyrar. Hrærði í öðru hverju.

_MG_3411

Ég hellti svo vatninu af sellerírótinni þegar hún var tilbúin og setti hana í matvinnsluvél. Svo hellti ég perunum og smjörinu af pönnunni saman við og maukaði þetta vel. Ég kryddaði maukið með pipar og salti eftir smekk og e.t.v. með rifnu múskati. Að lokum hrærði ég 100 ml af rjóma saman við.

Svo tók ég laxaflak (eða hluta af flaki), um 600 g, skar það í stykki og kryddaði með pipar og salti.

_MG_3424

Hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu, setti laxinn á hana með roðhliðina upp og steikti við nokkuð góðan hita í 2 mínútur. Þá sneri ég stykkjunum, lækkaði hitann ögn og steikti áfram þar til laxinn var rétt steiktur í gegn.

_MG_3432

Á meðan laxinn var á pönnunni sauð ég dálítið af frosnum, grænum baunum samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Bar svo laxinn fram með sellerírótar-perumaukinu og baununum og skreytti með fersku óreganói, af því að ég átti það til, en það mætti sleppa því eða nota aðrar kryddjurtir.

*

Sellerírótar- og perumauk með pönnusteiktum laxi

400 g sellerírót (vigtuð eftir snyrtingu)

salt

400 g perur

2 msk smjör

1/2 tsk múskat (má sleppa)

pipar

100 ml rjómi

*

Laxinn

600 g laxaflak

pipar og salt

1 msk olía

1 msk smjör

*

frosnar grænar baunir

e.t.v. ferskt óreganó eða aðrar kryddjurtir

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s