Litríkt og karótínríkt …

Það eru dálítið oft gulrætur í matinn hjá mér þessa dagana, ég keypti nýlega fimm kíló af alveg hreint ágætis gulrótum af gulrótaræktanda svo að ég er vel birg. Fimm kíló eru nú engin ósköp svosem en ég er oft að elda fyrir mig eina svo að þær brenna ekkert upp. Þetta nú ekkert vandamál samt, mér finnst gulrætur alveg hreint ágætar og það er hægt að nota þær á svo ótalmarga vegu. En ég er búin að vera að gera gulrótabuff og gulrótasúpur og bakaðar gulrætur og soðnar gulrætur og gulrótapottrétti og fleira. Þetta er nú líklega ekki svo mikið karótín að ég sé að fara að breyta um lit og verða appelsínugul samt. En þið látið mig vita ef þið sjáið mig tilsýndar og ég er farin að glóa …

„Gulrótin er ein af jurtum þeim, sem efnamenn ættu að rækta sér til sælgætis,“ stóð í grein í íslensku blaði árið 1863 (og á meðan ég man, ef þið hafið áhuga á matarsögu og skemmtilegum fróðleik um mat á fyrri tíð, þá bendi ég á Facebook-síðuna Matur fortíðarinnar). En nú eru gulrætur ekki lengur bara fyrir efnamenn, ég held það geti allir leyft sér að nota þær, hvort sem maður ræktar þær sjálfur eða ekki. Og þær geta verið hreinasta sælgæti, bæði fyrir efnamenn og aðra.

Hér er uppskrift sem ég var með í MAN fyrr á þessu ári, þar sem gulrætur leika töluvert hlutverk. Ég var líka með rauðrófur (ókei, rauðrófuhatarar geta sleppt þeim, þeir eru til í minni fjölskyldu) og þær voru foreldaðar; það má baka þær með en þá er best að flysja þær og skera í bita og pakka svo í álpappír með dálítilli olíu og setja með í formið; ef þær eru án umbúða er hætt við að þær liti allt fjólublátt.

En ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég 500 g af gulrótum (nú, eða kannski minna en ég er vel birg), flysjaði þær og skar þær eftir endilöngu í tvo eða fjóra hluta, eftir stærð. Setti þær í eldfast mót, nokkuð stórt.

Ég tók svo appelsínu (reyndar blóðappelsínu, en árstíminn fyrir þær er ekki kominn núna og það má alveg nota venjulega) og kreisti svona 3 msk af honum í skál. Hrærði svo 2 msk af ólífuolíu, 1 1/2 msk af balsamediki, pipar og salti saman við og hellti yfir gulræturnar. Hrærði í til að þekja allt í leginum.

_MG_3203

Svo ýtti ég gulrótunum til hliðanna, setti tvær kjúklingabringur í formið og velti þeim upp úr leginum. Stráði aðeins meira salti á bringurnar, setti þetta svo í ofninn og bakaði í 20-25 mínútur, eftir því hve stórar bringurnar eru.

_MG_3212

Á meðan skar ég forelduðu rauðrófurnar í bita. Tók svo mótið út þegar bringurnar voru gegnsteiktar, tók þær upp og setti til hliðar en dreifði rauðrófunum yfir gulræturnar í staðinn. Stakk svo fatinu aftur í ofninn og bakaði í um 10 mínútur, eða þar til gulræturnar voru meyrar og höfðu tekið fallegan lit.

_MG_3213

Ég vildi fá aðeins meiri lit á bringurnar svo að ég hitaði svona 2 msk af olíu á pönnu og brúnaði bringurnar á báðum hliðum. Þetta er samt ekkert nauðsynlegt að gera …

_MG_3220

Ég setti svo gulrætur og rauðrófur á diska, setti bringurnar ofan á (heilar eða skornar í sneiðar) og stráði saxaðri steinselju yfir. Svo má dreypa leginum úr eldfasta fatinu yfir, ef einhver er.

Uppskriftin er miðuð við tvo til þrjá en það má líka hafa bringurnar þrjár eða fjórar og þá kannski annað meðlæti með líka, til dæmis hrísgrjón.

*

Bakaðar rauðrófur og gulrætur með kjúklingi

500 g gulrætur

3 msk blóðappelsínu- eða appelsínusafi

2 msk ólífuolía

1 1/2 msk balsamedik

pipar og salt

2 kjúklingabringur

300 g rauðrófur, foreldaðar

2 tsk olía

lófafylli af grófsaxaðri steinselju

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s