Lakkrískúlur

Ég var í fyrra í lakkrískvöldverði á Kolabrautinni, þar sem danski frumkvöðullinn og lakkrísdrengurinn Johan Bülow bauð til lakkrískræsinga – þarna var boðið upp á lakkrískokkteil, grillað hvítkál með bagna cauda-sósu og lakkrískryddaðri rúgbrauðsmylsnu, ravioli fyllt með eggjarauðu og sveppum, borið fram með steinseljusalati og lakkrísgljáa, lakkrísgljáða andabringu með svartrót og fleira góðgæti og mjólkurís með lakkrískrydduðum rauðrófumarens, hindberjum og rauðrófuseyði. Á milli var svo skotið nokkrum smáréttum sem allir innihéldu lakkrís. Þetta var allt saman frekar gott.

Lakkrís er nefnilega afar skemmtilegt krydd sem á ótrúlega víða við. Það er þó ákveðin list að nota hann rétt því hann getur verið bragðfrekur og yfirgnæft annað hráefni. En þarna tókst vel til og ég fór heim uppfull af hugmyndum að lakkrískrydduðum réttum sem ég var svo að prófa á næstu vikum. Sumar þessara uppskrifta birtust svo seinna í MAN.

Ég var aldrei búin að setja þessar uppskriftir hér inn en hérna kemur ein þeirra, reyndar sú hefðbundnasta – hinar koma líklega áður en langt um líður. En þetta getur alveg verið jólakonfekt ef því er að skipta – þótt það sé reyndar ekki kominn tími á það ennþá, finnst mér. En það má líka frysta kúlurnar.

Og þetta er sykurlaust. Eða ekki, því döðlurnar eru auðvitað sætar og svo er einhver smásykur í lakkríssírópinu … En enginn viðbættur sykur samt.

Ég byrjaði á að vigta 50 g af hafragrjónum. Þið megið kalla þetta haframjöl ef þið viljið en ég ólst upp við að kalla þetta grjón (og það stendur havregryn á pakkanum). Setti þau í matvinnsluvél, kveikti á hanni og malaði grjónin. ÞÁ er sko komið haframjöl.

_MG_1862

Ég bætti svo við 50 g af linu smjöri, 50 g af steinhreinsuðum döðlum, 1 msk af kakóduft og 1 msk af lakkríssírópi (frá Johan Bülow, fæst í Epal og víðar) og ögn af salti og blandaði vel saman í vélinni. Ef blandan er mjög lin er gott að kæla hana nokkra stund í ísskáp.

Svo setti ég svona 25 g af kókosmjöli á disk. Og af því að ég átti lakkrísduft frá Johan Bülow bætti ég við svona hálfri teskeið af því og blandaði vel saman – en það má alvg sleppa lakkrísduftinu líka.

_MG_1866

Svo mótaði eg kúlur úr grjónablöndunni, velti þeim upp úr kókosmjölinu og kældi þær vel.

_MG_1900

Þetta urðu svona 12-15 kúlur en það má alveg hafa þær aðeins minni og fleiri.

_MG_1902

Lakkrís-hafrakúlur

50 g hafragrjón

50 g lint smjör

50 g döðlur, steinhreinsaðar

1 msk kakóduft

1 msk lakkríssíróp

örlítið salt

25 g kókosmjöl

1/2 tsk lakkrísduft (má sleppa)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s