Sumu fólki þykja rauðrófur góðar, annað vill ekki sjá þær. Sumt fólk er miklir lakkrísvinir, annað alls ekki. Þessi uppskrift er fyrir fólk sem kann að meta hvort tveggja. Síkt fólk er einmitt til í minni fjölskyldu. En þar er reyndar líka fólk sem hatar hvort tveggja og myndi aldrei láta þetta inn fyrir sínar varir.
En ef þið eruð nú töluverðir rauðrófu- og lakkrísvinir, þá er þetta óvenjulegt og skemmtilegt salat sem á við með ýmsum mat. Gæti jafnvel passað á áramótaborðið. Þetta varð til hjá mér eftir lakkrísveisluna á Kolabrautinni, sem ég hef minnst á hér áður.
Hér má alveg nota rauðrófur sem keyptar eru foreldaðar (þótt auðvitað sé best að kaupa hráar og baka þær uns þær eru meyrar) og þá er þetta satt að segja lítil fyrirhöfn. Eg var þarna með svona 500 g af rauðrófum.
Ég byrjaði á að skera rauðrófurnar í um 1/2 cm þykkar sneiðar – það er að segja, þegar ég gerði þetta fyrst, en svo var ég með þetta á Forláksmessuhlaðborðinu mínu í ár og skar rauðrófurnar í litla teninga, það kom eiginlega betur út.
Svo reif ég börkinn af einni límónu, kreisti úr henni safann, setti hvort tveggja í hristiglas og hristi saman við 3 msk af olíu, 1 tsk af lakkrísdufti frá Johan Bülow, pipar og salt. Það má nota aðrar tegundir en mér finnst þetta einfaldlega best.
Ég setti rauðrófurnar í skál ásamt 40 g af þurrkuðum trönuberjum, hellti salatsósunni/lakkrísmaríneringunni yfir og blandaði vel. Ég lét þetta standa í kæliskáp í nokkra klukkutíma (eða yfir nótt).
Þá blandaði ég lófafylli af salatblöðum (á myndinni er ég líklega eingöngu með rauðrófulauf, klettasalat er líka fínt) saman við, setti á disk og bar fram.
Þetta gerði töluverða lukku á meðal rauðrófu- og lakkrísvina í Forláksmessuboðinu mínu. En svo voru aðrir sem voru ekkert sérlega hrifnir …
*
Rauðrófusalat í lakkrísmaríneringu
400-500 g rauðrófur, bakaðar eða soðnar, kældar og flysjaðar
1 límóna
3 msk olía
1 tsk lakkrísduft frá Johan Bülow
pipar og salt
40 g þurrkuð trönuber
lófafylli af salatblöðum